Leita í fréttum mbl.is

Það myndi nær allt lenda á skattgreiðendum framtíðarinnar.

Stofnunin segir að þegar hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til þess að lina erfiðleika skuldara en þær leiðir, sem Hagsmunasamtök heimilanna fari fram á, feli í sér mikla höfuðstólslækkun lána til viðbótar við það sem þegar hafi verið gert.

Áætla megi að hreinn kostnaður við leiðina, sem felur í sér flata 18,7% niðurfærslu allra íbúðarlána til viðbótar við það sem þegar hafi verið gert, sé um 200 milljarðar króna sem svari til 37% af áætluðum gjöldum ríkissjóðs árið 2012. Í tillögum Hagsmunasamtakanna sé gert ráð fyrir að þessi kostnaður lendi fyrst og fremst á bönkum og þeim innistæðueigendum sem eigi meira en 15 milljónir króna á bankareikningi.

„Því hefur verið haldið fram að sækja megi verulegan hluta kostnaðar sem leiðir af tillögum Hagsmunasamtakanna í afslátt sem bankarnir hafi fengið á lánasöfnum sínum haustið 2008. Þetta orkar mjög tvímælis," segir Hagfræðistofnun.

„Í fyrsta lagi virðist kostnaður bankanna af dómum Hæstaréttar um gengislán, 110%-leiðinni og skuldaniðurfellingu af öðrum sökum þegar vera orðinn meiri en nemur afslætti þeirra af lánasöfunum haustið 2008. Í öðru lagi verður ekki séð að það liggi ljóst fyrir að ríkið geti skert lánasöfn fjármálastofnana bótalaust, hvort sem þær eiga fyrir skerðingunni í einhverjum skilningi eða ekki. Svipað hlýtur að gilda um skerðingar á innistæðum. Að auki má minna á yfirlýsingu ríkisstjórnar um ábyrgð á innistæðum sem enn er í gildi. Telja verður því líklegast að kostnaður af almennum skuldaniðurfellingum lendi að langmestu leyti á ríkinu."

Sem sagt kannsi kostnaður upp á 200 milljarða sem myndu lenda á ríkinu. Hvað þýðir það. Jú ég held að hvert % í tekjuskatt sé um 8 milljarðar þannig að tekjuskattur þyrfti að hækka um kannski 3% til að greiða þetta upp á 9 árum. Finnst alveg ómögulegt þegar að Hagsmunasamtökin halda fram einhverju sem þau hafa í raun engar forsendur til að meta. Sammála þeim varðandi afnmám verðtryggingar en held að það verði ekki fyrr en krónan verður aflögð og ný mynt tekin upp. Því það vill engin ávaxta peninga í óverðtryggðu kerfi þar sem verðbólga er líkleg til að éta upp allan sparnaðinn sem og að lána peninga þar sem þú færð þá ekki til baka


mbl.is Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir m.a. í kafla 4.2:

„Margir tengja verðtryggingu við háa raunvexti, en reynslan bendir ekki til þess að vextir séu hærri af verðtryggðum lánum en óverðtryggðum.“

Ef annað í skýrslunni er í samræmi við svona lágkúrulegan útúrsnúning er hún ekki bara marklaus, heldur til háborinnar skammar þeim silkihúfum sem þetta hafa barið saman fyrir Jógrímu. Mergsognum lýðum er  vel ljóst, að  það er verðtryggingin sem er að sliga heimilin og hagkerfið þar með á endanum , þó nafnvextir þurfi nauðsynlega að lækka líka.

Ólafur Margeirsson  er einn af fáum íslenskum hagfræðingum sem þorir að segja sannleikann og er með fæturna á jörðinni í niðurstöðum sínum. Hann segir m.a. í pistli sínum í Pressunni 10. Jan. 2012:

 „Ég hef áður gagnrýnt hagfræðideild HÍ, m.a. í tölvupósti sem ég skrifaði til Egils Helgasonar í apríl 2011 sem ég síðar, umbeðinn, gaf Agli leyfi til að birta í heild sinni. Í kjölfarið fékk ég tölvupósta frá nokkrum af mínum gömlu kennurum. Sumir töldu það allra gjalda vert að taka gagnrýni mína til greina. Aðrir voru fúlir á manninn sögðu mig hafa farið út af sporinu…

Að kenna hagfræði sem er stærðfræðilega rétt og byggist á raunverulegum staðreyndum en ekki ímynduðum og óraunhæfum forsendum sem aldrei ganga upp í hinum raunverulega heimi er s.s. ekki meginmarkmið hagfræðináms við HÍ? Megi þá hagfræðideild Háskóla Íslands hafa skömm fyrir! Hvað með að kenna hagfræði sem er ekki stærðfræðilega röng, er nothæf og raunhæf til alvöru greiningarvinnu í þessum heimi sem við búum í og skilur innbyggða leitni nútíma kapítalísks hagkerfis til að vera óstöðugt en ekki í „jafnvægi“?

Vilji fólk kynnast hagfræði sem á við hagkerfi raunveruleikans get ég því miður ekki mælt með hagfræðideild Háskóla Íslands…“ Svo mörg eru þau orð!

 

Almenningur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 18:57

2 identicon

Er ekki málið að ríkið hafði aldrei heimild skv. alþjóðasamþykktum að tryggja innstæðueigendum í innlendum lánastofnunum meira en sem svaraði 20.887 EUR við hrunið? Allar innstæður, sem námu hærri upphæð við setningu neyðarlaganna, eru því hreinn þjófnaður og á að gera upptækar og nýta til niðurgreiðslu skulda almennings. Sama á við um lífeyrissjóðina.

Quinteiras (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 20:01

3 identicon

Skýrsla Hagfræðistofnunar er pólitískt pantað plagg með fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Ríkisstórnin hafði tækifæri til að opna á þessi gögn, fyrirskipa aðgang HHÍ að rauntölum úr bankakerfinu svo þeir gætu átt auðveldara með að meta hvernig farið var með afslættina.Kíktu á okkar athugasemdir við drögin sem við fengum í síðustu viku og var gefinn sólarhringsfrestur til að koma með athugasemdir við. 

http://ruv.is/frett/ekki-svigrum-til-frekari-afskrifta

Við bendum á það í okkar athugasemdum að drögunum að engin tilraun er gerð til þess að rýna í það hvernig yfir 170 milljarða króna hagnaður þríburabankanna frá hruni er fenginn. Þar er hellings upphæð að sækja í leiðréttingu eins og Jóhannes Björn hefur bent á, með "windfall skatti" - það er því bull að þetta þurfi að lenda á ríkissjóði. 

Andrea J.Ólafs. (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 22:10

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ég sendi hana Söru mína út að pissa fyrir nóttina, það er kominn tími á þig. Munurinn á þér og Söru, er á meðan þú sleikir ávallt rassinn á flokksforystunni myndi Sara mín hugsanlega bíta.

Sigurður Þorsteinsson, 24.1.2012 kl. 23:44

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Finnst alveg ómögulegt þegar að Hagsmunasamtökin halda fram einhverju sem þau hafa í raun engar forsendur til að meta.

En samt gerirðu enga athugasemd við að Hagfræðistofnun haldi einhverju fram sem hún hefur engar forsendur til að meta, og svo éturðu það upp hrátt eftir þeim. Það er nákvæmlega það sem þessi svokallaða skýrsla er: áróður sem þú kokgleypir. Maggi, hvað tók það þig langan tíma að lesa skýrsluna áður en þú myndaðir þér skoðun? Þú last hana fyrst var það ekki?

Þú hefur þá væntanlega tekið eftir því að tölur og útreikningar skýrsluhöfunda byggja fyrst og fremst á tveimur heimildum: gögnum frá Seðlabanka Íslands sem liggur fyrir að eru ómarktæk og svo fréttatilkynningum frá Samtökum Fjármálafyrirtækja sem eru ekki beinlínis þekkt fyrir að vera boðberar sannleikans þegar bankarekstur er annars vegar.

Og hvernig er hægt að byggja niðurstöðu hagfræðiúttektar á lögfræðimati? Fyrirmælin sem þeir fengu voru að svara ákveðnum tölulegum spurningum. Það var hvergi og aldrei beðið um lögfræði. Auk þess er hvergi lagt mat á það hvort sú eignaupptaka sem heimili landsmanna hafa orðið fyrir án endurgjalds standist eignarrétarákvæði stjórnarskrár eða önnur lög. Ég er með fréttir: hún gerir það ekki og hefur ekki gert frá árinu 2000 nema með þaki á verðbætur, sem er einmitt það sem Hagsmunasamtökin hafa gert kröfu um. Þú vissir það Maggi, ekki satt? Nýbúinn að fullyrða hitt og þetta um samtökin???

Fyrir viku síðan var skýrsluhöfundum bent á tölur í skýrslunni sem væru rangar, þeim bæri ekki saman við aðrar heimildir, þar á meðal svör fjármálaráðherra við fyrirspurnum á Alþing, og jafnvel væri innbyrðis ósamræmi í bæði tölum og útreikningum. Engin tilraun var gerð til að verða við þessum ábendingum heldur var viljandi tekin ákvörðun um að gefa út skýrslu sem var vitað að væri hroðvirknislega unnin og ekki bara röng heldur beinlínis villandi.

Hagsmunasamtökin voru boðuð með sólarhringsfyrirvara til að fá ljósrit af skýrsludrögum afhent til yfirferðar, og gefinn sólarhringur til að skila athugasemdum. Þegar skýrslan var svo kynnt á blaðamannafundi í dag þá var framkoman gagnvart HH þannig að samtökin voru ekki einu sinni látin vita af því og áttu greinilega að frétta af birtingunni fyrst í gegnum fjölmiðla.

Ef ég hefði skilað svona vinnubrögðum þegar ég var í háskóla, þá myndi ég ekki búast við því að falla heldur að verða beinlínis vísað úr skóla. Ef ég skilaði af mér svona hrákasmíð í launaðri vinnu þá myndi ég alls ekki sjá neinn tilgang í því að mæta daginn eftir. Höfundar skýrslunnar eru bæði: í vinnu og háskóla. Sem er borgað fyrir með skattpeningunum þínum Maggi.

Því það vill engin ávaxta peninga í óverðtryggðu kerfi

Heldurðu því sem sagt fram að það vilji enginn fjárfesta nema í landinu helga með verðtrygginguna: Íslandi? Enginn í Bandaríkjunum, Bretlandi, eða öðrum Evrópulöndum? Skrýtið að þessi meinti gríðarlegi áhugi á fjárfestingum á Íslandi skuli ekki koma fram í opinberum gögnum um viðskiptajöfnuð.

Hvað veldur Maggi? Segðu okkur nú endilega leyndarmálið.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2012 kl. 06:17

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er ekki einfaldast að hagsmunasamtökin fái Svein Agnarsson eða einhvern annan þeirra sem gerðu skýrsluna á fund þar sem þá er hægt að spyrja nánar út í forsendurnar?

Það sem mér finnst athygliverðasta niðurstaðan í þessu er hvað það myndi kosta skattgreiðendur að fara í þessar afskriftir. Hvað sem líður lánum bankanna er alveg ljóst að meginhluti húsnæðisskuldanna er við Íbúðalánasjóð. Afskriftir þar koma beint úr pyngju skattgreiðenda.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2012 kl. 09:43

7 identicon

Ef afskriftir bankanna eru nú þegar orðnar meiri en afsláttur lánanna, Hvaðan kemur þá allur þessi hagnaður nýju bankanna og afhverju hefur ríkið þurft að leggja þeim til hundruði milljarða lána og ábyrgða á víkjandi skuldabréfum og afhverju þurfa bankarnir að fara í skuldabréfútboð ef þeir þykkjast eiga nóg af peningum

valgeir einar ásbjörnsson (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 12:26

8 identicon

Hvernig stendur líka á því að t.d. Arion sé búinn að vera að sýna fram á hagnað af endurmati skuldabréfa í 3 á sem hann var loksins af kaupa af KB núna? Er það ekki fölsun á bókhaldi? Svo hafa gömlu bankarnir en ekki leitað nauðasamninga þannig að afhverju þykkist engin vita hver á bankanna, þeir eru ennþá á kennitölu ríkisins þar til eftir nauðasamninga.

valgeir einar ásbjörnsson (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 12:34

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

@Þorsteinn Siglaugsson

Er ekki einfaldast að hagsmunasamtökin fái Svein Agnarsson eða einhvern annan þeirra sem gerðu skýrsluna á fund þar sem þá er hægt að spyrja nánar út í forsendurnar?

Hahahahaha. Góður þessi.

Samtökin áttu fund með Sveini Agnarssyni um það bil sem vinna við gerð skýrslunnar hófst fyrir tveimur mánuðum síðan, til að gera grein fyrir þeim áherslum sem æskilegt væri að hafa í hávegum við þá vinnu. Svo leið og beið og fyrir rúmri viku síðan boðaði Sveinn fulltrúa samtakanna aftur á fund með sólarhringsfyrirvara, þar sem drög að skýrslunni voru kynnt og gert grein fyrir forsendum. Annar sólarhringur var gefinn til að bregðast við og gera athugasemdir. Sem var gert, heilar 11 blaðsíður af athugasemdum við 27 blaðsíðna skýrslu. Þær breytingar sem Hagfræðistofnun gerði í kjölfarið á skýrslunni eru minniháttar og taka ekki á veigamiklum göllum. Þegar skýrslan var svo birt var boðað til blaðamannafundar, en samtökin voru ekki einu sinni látin vita. Þetta er ekki bara fúsk heldur dónaskapur og léleg framkoma!

athygliverðasta niðurstaðan í þessu er ...

... ekki sú sem þú bendir á heldur að þær ályktanir sem dregnar eru skuli byggja að meirihluta byggja á lögfræðiáliti hagfræðistofnunar. Það er í raun efni í sjálfstæða rannsókn hversvegna sérfræðingar í hagfræði eru að velta fyrir sér lögfræðilegum álitaefnum í máli sem legið hefur fyrir allan tímann að þarfnist hugsanlega breytinga á lögum til að gera framkvæmanlegt. Hér falla hagfræðingarnir í gildru kyrrstöðulíkans þar sem þeir láta sem leikreglurnar verði þær sömu um aldur og ævi, þegar tilgangurinn með þessu öllu saman er aftur á móti uppstokkun á leikreglunum.

hvað það myndi kosta skattgreiðendur að fara í þessar afskriftir.

Eitt af því sem fulltrúar hagsmunasamtakanna lögðu ríka áherslu á strax í upphafi við Hagfræðistofnun, var að auk leiðanna fjögurra til leiðréttinga þyrfti að leggja mat á það hvað myndi kosta skattgreiðendur að fara ekki í þessar leiðréttingar? Annars yrðu niðurstöðurnar eins og að fá útkomu sem fullt af tölum, en ekkert um það í hvaða mælieiningum stærðirnar eru og þar af leiðandi gjörsamlega ósamanburðarhæfar við nokkurn skapaðan hlut. Þessi athugasemd var auðvitað ein af þeim fjölmörgu sem voru algjörlega hunsaðar og skýrslan gefin út engu að síður. Það er eitt gera óvart vitleysu, en að gera hana viljandi eftir að manni hefur verið bent á að lagfæra hana, það er eitthvað allt annað sem ég er ekki alveg viss hvað er best að kalla.

Hver á að skaffa þúsundum fjölskyldna húsnæði og aðra framfærslu eftir að búið er að bera það út á götuna og gera fyrirvinnurnar atvinnulausar, ef ekki skattgreiðendur. Það er ekki auðvelt fyrir heimilislausan mann að fá vinnu. Ætlar þú af góðmennsku að veita þeim framfærslu Þorsteinn? Eða var það kannski ekkert hugmyndin hjá þér heldur að láta þau út á gaddinn? Þetta er fúlasta alvara og veruleiki sem ég þekki, en ekki einhverjar tölur á blaði!

Hvað sem líður lánum bankanna er alveg ljóst að meginhluti húsnæðisskuldanna er við Íbúðalánasjóð. Afskriftir þar koma beint úr pyngju skattgreiðenda. 

Tillögur samtakanna ganga einmitt út á hið gagnstæða, sem þú hefði vitað ef þú hefðir haft fyrir því að kynna þér þær áður en þú ákvaðst að bera fram slíkar rangtúlkanir og sleggjudóma.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2012 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband