Leita í fréttum mbl.is

ESB og mítan um fullveldisframsal og sjálfstæðismissi.

Umræðan hér á landi um ESB er með afbrigðum einföld og hreinlega röng. Menn komast upp með að halda að fólki að við inngöngu í ESB missum við algjörlega fullveldi okkar til ESB og enginn virðist geta leiðrétt þetta. Eins komast menn upp með að við inngöngu í ESB missum við allt sjálfstæði og eftir það yrðum við bara einhverjir þræla ESB. Þetta er náttúrulega kjaftæði.

Ég man ekki einu sinni hve oft ég er búinn að benda fólki á þjóðir sem þegar eru í ESB og segja mér hvaða þjóðir þar séu ekki sjálfstæðar.

ESB er í grunnin efnahagsbandalag. Og gengur enn í megin atriðum í að koma upp sameiginlegum mörkuðum og samvinnu um þau mál sem þjóðirnar kjósa að hafa samvinnu um. Til þess að koma á sameiginlegum mörkuðum þar sem allir væru jafnir þurfti að samræma þessa markaði og til þess þurfti að framselja yfirstjórn á þeim til sameiginlegra stofnana sem allar þjóðir koma að og eru staðsettar í Brussel. Til að samþætta reglunar á þessum mörkuðum þá framselja þjóðirnar vald til þeirra þannig að þær fari með yfirstjórn þessara mál. Þar má t.d. nefna Sjávarútveg, Iðnað, kjötframleiðslu og annan landbúnað.

Eins hafa ríki ESB kosið að hafa samvinnu um umhverfismál og fleira. Þetta er nú allt fullveldisframsalið. Enda ef við skoðum lönd eins og Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland, Bretland og Frakkland og fleiri þá segir mér engin að þessi lönd séu ekki fullvalda og sjálfstæð. Og þó yfirstjórn auðlinda eins og sjávarauðlinda sé sameiginleg þessum þjóðum þá hafa þær í raun allt um það að segja hvernig auðlindin er notuð.

Með EES samningnum þá afhentum við ESB þó nokkur völd varðandi lagasetningu hér á landi. Við erum skuldbundin til að taka upp lög ESB á öllum sviðum EES samningsins. Þetta nær yfir öll atrið vinnumarkaðs hér á landi ásamt lögum um verslun og viðskipti. T.d. er hvíldartími atvinnubílstjóra og fullt af lögum sem okkur bar að taka upp.

En hér kaupir fólk skýringar ESB andstæðinga sem lýsa ESB eins og sjálfstæðu valdi (skrímsli) sem hafi það helsta markmið að stela öllum auðlindum frá löndum sem þau ná að innlima. Fólk veltir ekki einu sinni fyrir sér fyrir hverja í ósköpunum eiga þeir að vera að stela þessu. Þetta er svona svipað og þegar fólk er að halda því fram að IMF sé sjálfstæð stofnun sem vinni að því að stela auðlindum fyrir USA.

Það er nauðsynlegt að uppfræða fólk hér á landi. Fólk á ekki að kaupa svona furðu rök án þess að kynna sér máli. Menn geta fundið á netinu eða í bókum neikvæð ummæli um allt. En ég minni á að það eru þjóðir í biðröð að komast í ESB en það er engin sem er að vinna í að komast þaðan út.


mbl.is ESB efst á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll Magnús Helgi

Umræða getur aldrei verið röng, þó hún geti verið mismunandi góð. Menn geta reynt að skemma hana, en ef henni er gefinn hæfilegur tími skilar hún vonandi réttri og óbrenglaðri mynd. Það að afgreiða málstað andstæðingsins með “þetta er náttúrulega kjaftæði” býður ekki upp á uppbyggileg skoðanaskipti.

Því miður einkenna upphróp af ýmsum toga umræðuna og á það við um báðar fylkingar; þá sem eru með ESB aðild Íslands og þá sem eru á móti.

Ég er á móti inngöngu í ESB, en held því aldrei fram að við missum “algerlega” fullveldi okkar við inngöngu. Og þó að framsal þýði skert pólitískt sjálfstæði, eðli máls samkvæmt, hvarflar ekki að mér að við yrðum “einhverjir þrælar ESB”. Fyrr má nú vera. Hvað þá að í Evrópusambandinu séu vondir útlendingar sem ætli að arðræna okkur og stela auðlindum.

Þú nefnir sjálfur tvisvar að “framselja vald” í færslu þinni, réttilega. Mín andstaða byggist fyrst og fremst á fjarlægð valdsins; þ.e. hvaða vald er framselt, í hendur hverjum og hvernig verður farið með það. Ekki síst ef Lissabon samningurinn verður lögtekinn. Í mínum huga er enginn efi um að slíkt framsal muni á endanum verða til skaða. Kannski ekki strax, kannski ekki næstu tíu árin, en það mun gerast.

Þó ESB sé í grunninn efnahagsbandalag er alveg klárt að völd þess og pólitísk áhrif ná langt út fyrir þann ramma sem innri markaðurinn setur. Og þau fara vaxandi. Þegar þetta mál er skoðað þarf að hugsa um fleira en fiskinn, evruna, fallvötn og undanþágur í landbúnaði. Það þarf að skoða stjórnkerfið og valdakerfið. Sjálft lýðræðið og aðkomu borgaranna að málum sem varða velferð þeirra og hagi. Og umfram allt reyna eftir bestu getu að hugsa fram í tímann.

Haraldur Hansson, 28.3.2009 kl. 12:10

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Haraldur ég er alls ekki á móti umræðu um málið. Og ég er alls ekki að halda þvi fram að inngöngu í ESB fylgi ekki verulegt framsal á fullveldi. En þeir sem hafa farið mest í umræðu á blogginu gegn ESB hafa bara alls ekki farið rétt með. Og ég vill líka að þessi sömu menn margir rifji upp hvað fólk sagði þegar við gegnum inni í EFTA samstarfið um 1970 og eins þegar EES samningurinn var gerður. Það var almennt að menn töluðu um að við báða þessa samninga værum við búin að gefa útlendingum frjálsan aðgang og þeir mundu kaupa hér upp allar jarðir og miðin mundu fyllast af erlendum togurumm sem tækju allann fiskinn.

Ég vill líka að menn hugsi um að við inngöngu í EES samstarfið þá afsöluðum við okkur flullveldi varðandi það að við vorum skuldbundin til að taka upp um 60% (sumir segja meira) af reglum og lögum ESB og höfum ekkert um mótun þeirra að segja.

Nýr sáttmáli ESB sem nú er í vinnslu tekur á því að auka áhrif einstaklinga og þjóða í mótun starfs ESB og þó að sumir telji hann stefna allt öðru. Þar inn í verður meira að segja formleg opnun á að ríki geti sagt sig úr ESB.

Þá vill ég líka benda á að við í raun eigum ekki auðlindir í sjó hérsem þjóð. Það eru útgerðamenn (1000 manns kannski) sem áttu þær en hafa nú veðsett þær fyrir lánum að stórum hluta við útlönd.

Bendi líka á að bændum hér á landi hefur fækkað gríðarlega. Fólk hér í þéttbýli hefur keypt upp þessar jarði í stórum stíl og er ekki með búskap, aðrir bændur hafa keypt upp jarðir til að auka hagkvæmi og fyrirtæki hafa keypt upp jarðir og reka búskapinn sem fyrirtæki.  Bændur þrátt fyrir alla framleiðslustyrki mælast undir fátækramörkum. Og þar sem að ESB styður við búskap í dreifðum byggðum þá skil ég ekki hvernig menn geta verið á móti ESB vegna landbúnaðar.

Neytendur mundu helst af öllum hagnast af því að við afnám tolla og innflutningshafta mundi vöruverð hér stórlækka.

Og varðandi fullveldisframsal aftur þá minni ég að við kæmum til með sita í öllum þeim ráðum og nefndum sem fjalla um þau mál sem heyra undir þá þætti sem ESB fengi yfirstjórn á. Og mörg af þeim ráðum þurfa að fá samþykki allra landana sem þar sitja til að taka ákvörðun um mál.

Magnús Helgi Björgvinsson, 28.3.2009 kl. 12:52

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll aftur Magnús Helgi

Mér líkar strax betur við málefnalegt svar þitt en sjálfa bloggfærsluna. Þó ég viti að ég geti ekki talið þér hughvarf, enda ekki ætlunin, þá er málefnaleg umræða alltaf til góða. Það eru fjögur atriði sem ég vil gera athugasemdir við í svari þínu.

#1  EES vs ESB
Lögfróðir menn töldu samninginn um EES ekki hafa í för með sér þannig framsal að það krefðist breytinga á stjórnarskrá. Það er með engu móti hægt að leggja það að jöfnu við inngöngu í Evrópusambandið.

 Af þeim lögum sem Alþingi samþykkir eru ríflega 17% beint vegna gerða ESB og ef óbein áhrif eru meðtalin fer talan í 21%. Í ríkjum innan sambandsins liggur þessi tala nálægt 80% (skv. statistikk frá Bretlandi). Tölur segja þó ekki allt, því lög eru mis þung á metunum.

Það er ekki alls kostar rétt að við “höfum ekkert um mótun þeirra að segja”. Allar gerðir sem leiða til lagasetninga fara í gegnum “þriggja þrepa ákvarðanaferli” hjá EFTA. Aðild okkar liggur einmitt þar í gegn. Að umfjöllun lokinni er málið tekið fyrir hjá sameiginlegri EES-nefnd Evrópusambandsins og EFTA. Loks, þegar mál hefur fengið afgreiðslu hjá ESB leiðir það til lagaframvarps sem er lagt fram á Alþingi til afgreiðslu. (Þessi málsmeðferð skýrir e.t.v. hvers vegna ekki þurfti að breyta stjórnarskrá.) Ef við værum innan ESB öðluðust reglugerðir ESB lagagildi hér sjálfvirkt og strax.

Þá má e.t.v. gagnrýna stjórnvöld fyrir að nýta sér ekki til fulls þau tæki sem eru til áhrifa, en ég dreg stórlega í efa að vera okkar í ESB gæfi nokkuð betri færi til að hafa áhrif en sú málsafgreiðsla sem við búum við í dag. Sæti í ráðherraráðinu væri vissulega plús, en aðkoman í heild tæplega sterkari.

#2 Nýr sáttmáli
Ég gef mér að þú eigir við Lissabon samninginn. Ég er með tvær útgáfur af honum á borðinu hjá mér og hef lesið hann spjaldanna á milli (þó ekki protocolin). Sú breyting sem af honum leiðir, ef hann verður lögfestur, er svo mikil að nær væri að tala um byltingu en breytingu, enda efnislega samhljóða stjórnarskránni sem var hafnað fyrir fjórum árum.

Þess vegna tel ég tómt mál að tala um að efna til atkvæðagreiðslu til að veita umboð til aðildarviðræðna fyrr en í byrjun næsta árs, þegar afdrif hans ættu að vera ljós. Óvissan um hann á Íralandi og e.t.v. Þýskalandi er það mikil. Og það má ekki láta eins og þessi samningur skipti ekki máli. Hann breytir grunnsamningum sambandsins verulega. Það er ekki hægt að semja við ESB1 og ganga svo í ESB2 á þeim grunni.

Ég gæti skrifa heila ritgerð um Lissabon samninginn en læt það ógert að sinni. Bendi þó á að þrátt fyrir að sett séu inn ákvæði um úrsögn úr sambandinu, þá getur það orðið býsna mikið flóknara á borði en í orði. Og ef menn eru komnir alla leið, búnir að taka upp evruna, er það því sem næst ógerningur nema færa mjög miklar efnahagslegar fórnir. Þetta er svona Hotel California dæmi, "you can chekout any time you like, but you can never leave".

#3 Auðlindir í sjó
Það er rétt hjá þér að “við”, í merkingunni “íslenska þjóðin” eigum ekki auðlindirnar í raun, heldur kvótahafar og/eða lánadrottnar þeirra. Erlendar kröfur á útgerðarmenn, með veði í kvóta, geta að óbreyttu ekki leitt til þess að kvóti flytjist úr landi. Það er ekki víst að við getum sett varnagla við því innan ESB, þó ég óttist það atriði ekki sérstaklega.

Í þessu sambandi má aldrei rugla saman því að “missa” auðlindir í hendur íslenskra útgerðarmanna sem spila rassinn úr buxunum, eða að veiðiheimildir falli í skaut erlendra útgerðarfélaga. Þú reyndar segir það ekki í athugasemdinni, en í mörgum bloggfærslum hef ég séð þessu illilega blandað saman. Annað er “bara” vandamál, hitt er glapræði.

#4 Nefndir og ráð
Þú segir að við kæmum til með að sitja í öllum nefndum og ráðum. Gott og vel. Til þess þyrftum við nokkuð mörg hundruð starfsmenn í Brussel. Bara á vegum Framkvæmdastjórnarinnar eru starfandi 3.094 nefndir og vinnuhópar. Þá eru ekki meðtaldir hópar eins og um málefni sveitarfélaga, en þar eiga 344 manns sæti. Og ég bendi þér líka á, út því þú ert að lesa Lissabon samninginn, þá er fækkað verulega þeim málum þar sem krafist er einróma samþykkis. Að auki er veto-ákvæðum fækkað.

Ég sé þetta ekki sem hagstæða þróun fyrir fámenna þjóð þar sem atvinnuhættir eru verulega frábrugðnir því sem gerist í dæmigerðu Evrópuríki. Þó finna megi margt gott við ESB og aðild henti ýmsum ríkjum, þá bara get ég ekki séð að Ísland eigi heima þarna. Bara alls ekki.

Lifðu heill.

Haraldur Hansson, 28.3.2009 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband