Leita í fréttum mbl.is

Þetta var einmitt það sem ég vildi segja!

tryggviVar að lesa í Morgunblaðinu grein eftir Tryggva Gíslason fyrrverrandi skólameistara. Og þar fer hann yfir Icesave málið með sínu sjónarhorni og ég get tekið undir hvert hans orð.

Hann segir m.a.

Orsakir hruns íslensku bakanna, sem leiddu til erfiðleika í íslensku atvinnulífi, eru einnig margar og flóknar og naumast á færi nokkurs manns að greina þær enn. Meginástæður voru hins vegar þrjár: ágirnd, hroki og mannfyrirlitning, en þetta þrennt var fyrrum talið til dauðasyndanna sjö. Íslendingar stóðu í október einangraðir og öllu trausti rúnir og lánalínur til útlanda voru og eru lokaðar.

 

Tilgangur Icesave-samningsins

 

Icesave-samningurinn er gerður til þess að leysa þennan vanda og samningurinn er gerður að bestu manna yfirsýn. Formaður íslensku samninganefndarinnar var Svavar Gestsson sendiherra, margreyndur stjórnmálamaður sem hafði með sér trausta ráðgjafa, starfsfólk Seðlabanka og þriggja ráðuneyta auk íslenskra hagfræðinga og lögfræðinga með sérþekkingu og reynslu.

 

Þegar stjórnmálamenn og fréttaskýrendur saka slíkt fólk um vanþekkingu og óheilindi, gera þeir hinir sömu lítið úr sjálfum sér og menntun þjóðarinnar og hitta sjálfa sig fyrir. Ef besta fólk þjóðarinnar er vankunnandi og því er ekki treystandi, hvernig er þá um hina verstu sem hafa hvorki reynslu né þekkingu? Slíkur málflutningur ber vitni um vænisýki og vanmetakennd og leiðir þjóðina í ógöngur. Málflutningurinn felur einnig í sér að Íslendingar geti ekki ráðið fram úr vandanum sjálfir heldur verði að leita til útlendinga með alla hluti, enda hefur sá málflutningur einnig heyrst af hálfu einstaka stjórnmálamanna og fréttaskýrenda.

Og síðar segir hann

Ábyrgð

 

Icesave-samningurinn er gerður á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hefur sér til fulltingis Indriða H. Þorláksson hagfræðing, fyrrverandi ríkisskattstjóra, margreyndan embættismann og traustan. Hvorugur þeirra átti nokkra aðild að svikum sem liggja að baki hruninu, en hreinsa nú upp eftir óreiðumenn. Engum vafa er undirorpið að báðir eru vanda sínum vaxnir. Steingrímur J. Sigfússon hefur auk þess lagt pólitíska framtíð sína að veði til þess að vinna þetta endurreisnarstarf. Er honum betur treystandi en öðrum íslenskum stjórnmálamönnum til þess að leysa úr þessum vanda þjóðarinnar.

Og eins rétt að vísa í orð hans aðeins fyrr um Gamla sáttmála og hveru rangt er að líkja IceSave við hann:

ÞVÍ er haldið fram að enginn samningur verði erfiðari Íslendingum en Icesave-samningurinn síðan Gamli sáttmáli var gerður 1262. Gamli sáttmáli er örlagaríkasti samningur í ellefu hundrað ára sögu þjóðarinnar. Með honum glötuðu Íslendingar sjálfstæði og urðu skattland erlendra ríkja hálfa sjöundu öld. Með Icesave-samningnum er hins vegar leitað leiða til að endurreisa virðingu og efnahag íslensku þjóðarinnar og tryggja framtíð Íslendinga í samfélagi þjóðanna

Og svo en síðar.

Rætur Gamla sáttmála

 

Orsakir þess að Gamli sáttmáli var gerður og þjóðveldið leið undir lok voru margar og flóknar. Meginorsökin var þó sú að skipulag þjóðveldisins var úrelt og átti sér enga hliðstæðu í Evrópu og hafði raunar veri gallað frá upphafi. Ekkert sameiginlegt framkvæmdavald var í landinu, og þegar komið var fram á 13. öld logaði allt í illdeilum, skipaferðir ótryggar og verslun í molum vegna þess að Íslendingar áttu engin haffær skip lengur.

Flott grein eftir vitran mann.


mbl.is Brýnt að leysa Icesave-deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Frábær samantekt. Væri ég útlendingur myndi ég óska eftir því að farið yrði fram með ýtrustu kröfur þó ekki væri nema til að lægja í okkur helvítis rostann. Sem þegn annars lands myndi ég ekki heldur taka í mál að að lána þessum rumpulýð eitt eða neitt.

Finnur Bárðarson, 29.7.2009 kl. 14:33

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

lækka átti það að vera

Finnur Bárðarson, 29.7.2009 kl. 14:34

3 Smámynd: Landfari

Ég las einmitt þessa grein í Mogganum og verð að segja að ég missti allt álit á manninum.

Að mæra Svavar og Indriða fyrir að hafa komist að samningum um að greiða mun hærri fjárhæðir en reglur Evrópusambandsins kveða á um, jafnvel þó fallist verði á ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum sem er mjög umdeilt, segir mér að eitthvað annað liggi á bakvið hrósið en þessi samningur.

Að áliti Steingríms og Jóhönnu var það brýnasta verkefnið að koma Davíð úr Seðlabankanum því þar væri ekki skynsamlegt að hafa aflagðan pólitíkus. Útaf fyrir sig hægt að vera sammála því þó þar færi lærður lögfræingur með mikla reynslu af efnahagsamálum. 

Það gekk eftir að koma honum frá þó efnahagsbatinn sem það átti að hafa í för með sér hafi nú eitthvað látið á sér standa.

En hvað gerist svo. Gamall, lítt menntaður og löngu aflagður pólitíkus er dubbaður upp í formensku fyrir samninganefnd í einhverjum mikilvægustu samningum sem þjóðin hefur gert í seinni tíð. Maður með enga reynslu í fjármálagerningum og niðurstaðan eftir því.

Lái mér hver sem vill en það má hverjum hugsandi manni vera ljóst að þarna var ekki vandað til verka. Það er þó ekki þar með sagt að þessir menn hafi ekki gert eins vel og þeir gátu. Þeir gátu bara ekki betur, ef til vill vegna þess að þá skortir reynslu í þessum geira.

Jafnvel þó flestir geti verið sammála  um að skynsalegt sé að semja frekar en fara fyrir dómstóla (þótt það sé reyndar mikið álitaefni) þá er þessi samningur sem liggur fyrir með það marga og dýra vankanta fyrir okkur að hann er ótækur. Það vilja sumir meina að gangi landráði næst að samþykkja þennan skuldaklafa, sem eins og áður segir gengur mun lengra en Evrópusambandið fer framá.

Landfari, 29.7.2009 kl. 14:59

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Las greinina og er alveg sammála ykkur Magnús og Finnur. Það er einfaldlega þannig að í augum margra útlendinga erum við fólk sem rændi og ruplaði af algjöru ábyrgðarleysi. Vitanlega ekki við persónulega hvert og eitt, en það var gert af íslendingum sem störfuðu í  kerfi sem búið hafði verið til af íslendingum, var undir eftirliti íslendinga og í yfirlýstri ábyrgð íslendinga. Bæði hart og djöfullegt, en enn í dag virðist, að samkvæmt skoðanakönnunum sé 30 - 40% þjóðarinnar tilbúinn að kjósa til valda fulltrúa þeirra flokka sem stjórnuðu í hrunadansinum. Fólkið sem hefur ekkert lært og engu gleymt og æpir eins og foringinn: Borgum ekki, borgum ekki!

Ingimundur Bergmann, 29.7.2009 kl. 21:39

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Landfari þú afsakar en hvað veist þú um þessa samninga og þá sérstaklega í samræmi við aðra sambærilega samninga milli þjóða. Við vitum t.d. að öll önnur lán sem við fáum bera hærri vexti en þetta og eru til styttri tíma. Jú ég veit að stjórnarandstaðan gagnrýnir samninginn en þau segja ekkert hvaða atriðum þarf að breyta til að hann dugi. Þau eyða tímanum í að segja að hagfræðingar í Seðlabankanum kunni ekki að reikna, starfsfólk ráðuneytana sé vanhæft og að samninganefndin hafi verið vanhæf. Minni samt á að aðalsamningmaður Seðlabankans var í þessari nefnd, í henni var líka

Martin Eyjólfsson

  •  

      Starfsreynsla:
      Hóf störf á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins árið 1996 og starfaði þar við EES-mál og að málarekstri gagnvart ESA, EB- og EFTA-dómstólum til 1998. Fluttist þá til Brussel og starfaði við fastanefnd Íslands hjá ESB í 4 ár við sömu málefni. Fluttist aftur á viðskiptaskrifstofu sumarið 2002 og tók m.a. við málefnum tengdum WTO, fríverslunarsamtökum EFTA og loftferðasamningum. Tók við sem forstöðumaður VUR frá og með 1. júní 2003.

      Páll Þórhallsson hefur verið ráðinn lögfræðingur á aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins samkvæmt auglýsingu sem birt var í byrjun desember 2004.

      Páll mun m.a. sinna ráðgjöf, skjalagerð og úrlausn lögfræðilegra viðfangsefna á verksviði ráðuneytisins, einkum á sviði stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar.

      Páll Þórhallsson lauk embættisprófi í lögfræði árið 1995 og framhaldsnámi í stjórnskipunarrétti og mannréttindum frá háskólanum í Strassborg 1998. Hann hefur undanfarin sex ár starfað sem lögfræðingur hjá Evrópuráðinu og hefur m.a. starfað við stefnumótunarvinnu á sviði opinberrar stjórnsýslu.

       Áslaug Árnadóttir sem er lögfræðingur, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu og staðgengill ráðuneytisstjóra.

      Auk þess var Peter Dyrberg, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík nefndinni til aðstoðar sem og ráðuneytin 3 og breskar lögmannstofu

Hverja hefðir þú séð fyrir þér sem hefðu verið betri. Þú veist væntanlega að Svavar var bara verkstjóri í samninganefndinni. Og þegar 2 aðilar semja þá fá ekki allir allt. T.d. fengu Bretar og Hollendigar ekki allar innistæðurnar bættar frá okkur þrátt fyrir yfirlýsingar okkar um að allar innistæður í Íslenskum bönkum væru tryggðar. Og við borgum aðeins tryggingar upp á 20 þúsund evrur til einstaklinga. Bretar og Hollendingar geta ekki notað þetta fé sem þeir borguðu í þetta fyrr jafnvel að 15 árum liðnum og því eðlilegt að þeir geri kröfur til þess að þessi upphæð fylgji minnst verðlagi. En það er óvíst miðað við þessi kjör sem við fáum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.7.2009 kl. 22:16

6 Smámynd: Landfari

Magnús, ef þú átt 15 milljón króna hús og tryggir það hjá mér fyrir fimm millur þá færðu bara hámark fimm millur í bætur frá mér þó húsið eyðileggist algjörlega.

Nú vill svo til að vegna annara tjóna á ég ekki fimm millur til að bæta þér að fullu það sem mér ber. Til að koma ekki óorði á nafn fjölskyldunnar hleypur stóribróðir minn undir bagga, tekur lán sem hann samt varla ræður við að borga af og borgar þér þessar fimm millur og eignast við það kröfu þína í mitt þrotabú.

Þú ert hinsvegar á köldum klaka með þitt tjón og heill og hamingja fjölskyldu þinnar í voða. Þú ert svo heppinn að eiga líka stóra bróður sem er aflögufær og sér hag sínum etur borgið með því að gefa þér 10 millurnar sem á vantaði svo stórfjölskyldan sé ekki sundruð.

Þó að bróðir þinn hafi orðið fyrir útgjödum vegna okkar viðskipta (ég hefð átt að benda þér á að borga meira og fá hærri tryggingu) á hann enga kröfu á bróður minn og það væri fáránlegt af bróður mínum, sem eins og áður er komið fram, ræður valra við að greiða af þessu láni til viðbótar öðrum skuldum, að fara að semja um að greiða hluta af útgjöldum bróur þíns. Það var alfarið hans ákvörðun að bæta þér tjónið umfram trygginguna og ekki gert í samráði eða með samþykki mín eða bróður míns.

Þessi samningur sem nú liggur fyrir hljóðar nefnilega uppá að við greiðum umtalsvert hærri upphæð en þessar 20 þús evrur. Það þykir mér klúður. Auk þess eigum við að greiða miljarða í vexti af því bretarnir og hollendigarnir greiddu þetta án samráðs við okkur löngu fyrrir gjalddaga.

Landfari, 29.7.2009 kl. 23:12

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Segir hver Landfari? Það er deilt um þessa túlkun enda er þetta dæmi ekki alveg rétt. Málið er að það vantar einhverni í þetta. Því að ef við byrjum á að Íslenskur banki stofnar til reikninga í dótturfélagi sem bjóða góða innlánsvexti fyrir Breta og Hollendinga. Síðan rúllar bankinn og í ljós kemur að eignir duga ekki fyrir öllum innistæðum. En áður er Íslenska ríkið búið að lýsa því yfir að allar innistæður á reikningum í Islenskum bönkum séu tryggðar að fullu. Reynt er að undanskilja innistæður sem komnar eru til erlendis en strax er bent á að þessar innistæður eru í útibúm íslenskra banka. Sem þýðir að vegna jafnræðis eiga allar innistæður þar að vera tryggðar bæði hjá einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum. Enda var því strax haldið fram af Bretum og Hollendingum. Eftir snörp átök sem m.a ollu því að hér voru líkur á vöruskorti og olíuleysi í október 2008 þá var sest niður með fulltrúum ESB og Bretum og Hollendingum þar sem samið var um að við mundum axla ábyrgð á innistæðurtryggingum skv. tilskipun EES upp að 20.800 evrur. Eins var samið um að Bretar og Hollendingar mundu greiða þetta ásamt frekari greiðslum til einstaklinga sem áttu fé á IceSave. Og af þeirri upphæð áttum við að bera allt að 20.800 evrum á hvern reikning sem þeir lánuðu okkur.. Eftir að hollendingar og Bretar höfðu greitt öllum út þá var okkar hluti af þessum greiðslum 660. milljarðar miðað við gengið um áramót s.l. En frá því í nóvember hefur verið unnið að því að semja um hvernig lánið átti að vera. Það var samið um að eignir Landsbankans mundu ganga upp í lánið okkar eins og þær dyggðu. Nú bendi ég þér á að ef að hver innistæðueigandi hefði sótt kröfu í þrotabú landsbankans þá hefðu þeir fengið hlut sinn bættan hlutfallslega! þannig að þeir sem áttu meira þarna inni hefðu fengið meira út en þeir sem áttu minna. Ragnar og þeir segja að fyrst eigum við að fá sem nemur innistæðutryggingunni þar sem við eigum kröfunar eftir að hafa ábrygst trygginguna. En þar sem að við gengumst inn á að Bretar greiddu alla innistæðuna þá hljóta þeir að eiga kröfur á búið líka. Og við erum búin að ákveða að allar innistæur séu forgangskröfur. Eins með Hollendingar. En svo er deilt um hvort að og þá hvernig réttur manna er í búið.

Og að lokum þetta var samningur! Þetta var ekki og alls ekki viðurkennig á því að við ættum allan rétt. Það er auðvelt að vitna í gjaldþrotalög hér á landi og svoleiðis þó að ljóst sé að bankarnir voru aldrei formlega gerðir gjaldþrota.

Ég er hinsvegar viss um að ef hægt er að gera fyrirvara varðandi uppgjörið þá verða þeir settir inn. Og eins varðandi endurskoðunarákvæðið. Og eins þá bendi ég á að við getum gert þetta lán upp hvenær sem er ef við fáum betri lán á næstu árum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.7.2009 kl. 00:15

8 Smámynd: Pax pacis

Ég veit nú ekki hvað maður á að halda um þetta IceSave mál en ég er þó viss um að þetta er svartur blettur á öllum málsaðilum.

Hvað varðar jafnræðisregluna sem Magnús nefnir, þá hef ég frá fyrsta degi furðað mig á henni.  Frá mínum bæjardyrum séð er trygging ríkisins á innstæðum í bönkum nokkurn veginn en lán ríkisins til íslenskra innstæðueigenda sem þeir (Íslendingarnir) þurfa svo að greiða til baka í formi skatta.  Ef breskir og hollenskir innstæðueigendur greiddu skatta á Íslandi þá væri eðlilegt að tryggja þeirra innstæður líka en það gera þeir jú ekki. 

Annars held ég að trygging ríkisins á innstæðum hafi ekki verið réttmæt þar sem með því var verið að útdeila verðmætum til (sumra) borgara nútíðarinnar sem borgarar framtíðarinnar eiga svo að greiða.  Ef bankarnir hefðu bara verið látnir rúlla eins og hvert annað fyrirtæki, þá hefðu margir misst stóran hluta eigna sinna en þeir áttu þá a.m.k. eignir og hefðu haldið eftir hluta þeirra.  Það er meira en sumir sem eiga aðallega skuldir og fengu ekkert frá ríkinu, annað en væntingar um hærri skatta.

Pax pacis, 30.7.2009 kl. 02:50

9 Smámynd: Landfari

"En áður er Íslenska ríkið búið að lýsa því yfir að allar innistæður á reikningum í Islenskum bönkum séu tryggðar að fullu."

Hvað hefurðu fyrir þér í þessari fullyrðingu Magnús? Ríkistjórnin er framkvæmdaaðili og ber að framkvæma vilja alþingis. Ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar geta ekki skuldbundið íslenska þjóð. Það getur einungis alþingi.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt ráðherra eða aðra tala um að ríkisjóður Íslands tryggði  allar innistæður heldur að þær væru trygðar með tryggingasjóðnum.

Hvað íslenska ríkið gerir fyrir íslenska ríksiborgara kemur bretum ekkert við. Það er ekkert sem bannar ríkinu að bæta sínum þegnum það tjón sem þeir verða fyrir svo fremi jafnræðis sé gætt milli þeirra. Ríkinu ber engin skylda til að gera eins við þegna annara ríkja enda sé það ekki á kostnað annara jafnsettra kröfuhafa. Bretar borguðu eftir því sem mér skilst bara breskum eintaklingum innistæður þeirra. Ekki íbúum á Möltu eða félagasamtökum, þótt þessir aðilar ættu líka reikninga í útibúum Landsbankans í Bretlandi.

Hvar hefur það komið fram að Bretar hafi leitað eftir og fengið samþykki okkar og haft það að skilyrði fyrir að greiða breskum þegnum innistæður þeirra að fullu?

Það eru engin ákvæði þí þessum samningi sem kveða á um endurskoðun hans ef aðrir lánadrottnar bankans, aðrir en innistæðueigendur, fá hnekt bráðabirgðalögunum sem setja innistæður sem forgangskröfur. Það er hinsvegar mjög líklegt að það verði reynt og alls ekki útilokað að  þeim takist það. EF það gerist fæst lítið sem ekkert upp í þessa greiðslur sem ríkið á að ábyrgjast samkvæmt samningnum frá þrotabúi Landsbankans og hvar stöndum við þá?

Það að breska ríkið, eins og það íslenska, ákveður að greiða sparifjáreigendum innistæðu sína að fullu er ekki af góðmennsku við þessa fjármagnseigendur heldur til að verja sína eigin hagsmuni. Það yrði öllum ríkjum dýr lexía ef fjármagnseigendur almennt hættu að treysta bönkunum. Þá yrði áhlaup á þá alla og enginn banki þolir það, og ekkert ríki þolir það að allir bankar þess hrynji.

Vöruskorturinn sem þú minnist á var eingöngu til kominn vegna hryðjuverkalaganna sem breska ríkið setti á okkur. Bretar eru í þeirri aðstöðu að megnið peningafærslum milli ríkja fer í gegnum Bretland og allar greiðslur frá Íslandi stoppuðu þar. Þess vegna fengum við ekki vörur því seljandinn fékk ekki greitt. Á sama hátt fengu íslensk fyrirtæki ekki greiðslur erlendis frá. Ég held nú að alþjóða samfélagið myndi ekki líða Bretum að stetja aftur á okkur hryðjuverkalög þó þessi samningur verði felldur.

Landfari, 30.7.2009 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband