Leita í fréttum mbl.is

Afhverju hefur engin þjóð gengið úr ESB?

Í ljósi þess sem menn eins og Páll Vilhjálmsson og fleiri segja þá fylgir innganga í ESB algjört framsal á fullveldi þjóðarinnar. Við missum réttin til að ráða einu eða neinu um okkar mál. Og um leið yrði komið í veg fyrir að nokkur íslendingur gæti komist upp fyrir fátækramörk. Landbúnaður hér kæmi til með hrynja og fiskurinn í sjónum við Ísland yrði kláraður.

Því er kannski rétt að ég fávís maðurinn spyrji afhverju eru þjóðir ekki umvörpum að reyna að komast þaðan út aftur? Þjóðir eins og Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Ítalía og allar þessar hva 27 þjóðir.  Eru þessar þjóðir þá ekki lengur fullvalda? Erum við fullvalda síðan við skrifuðum undir EES samninginn? Erum við ekki  nú bundin af því að taka upp lög ESB á flestum sviðum í gegn um EES?

Bara svona að spyrja?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Magnús Helgi og þakka þér fyrir ágæta síðu !

Þín spurning er STÓR ! Líklega er þetta þvílíkur möppu frumskógur, í þessarri botngötunni niður í Brussel, að reyni þjóðir sambandsins að ganga út úr þessu fári Stór- Þýzkalands (Evrópusambandsins) megi þær hinar sömu búast við, að drukkna í helvítis pappírafargani þessa ofurveldis skrifræðisins, og taki því ekki áhættuna, eða hvað; jú, jú, Magnús, líklega þurfum við að leita orsakanna í meira en 1000 - 1500 ára sögu Evrópu, eða a.m.k. frá þjóðflutninga tímabilinu, í upphafi miðalda, sennilega ekki fjarri sanni, þar sem minni þjóðir leituðu skjóls hjá Germönum, Frönkum eða þá þeim slavnesku, sem voldugri voru, hverju sinni; alfarið mín tilgáta, svona í ljósi sögunnar, nema þá hreinlega að hverfa aftur til Vest- Rómverska ríkisins ?

Þú nefnir, réttilega, Pál Vilhjálmsson............ hygg ég hann vera einna hinna raunsærri samtímamanna okkar, að minnsta kosti setja ýmsir, þ.m.t. stjórnmálalegir tækifærissinnar, eins og ýmsir Framsóknarmenn og Samfylkingarmenn, já og fylgjendur annarra flokka Pál ekkert svo glatt út af laginu, í almennri rökræðu, ekki hvað sízt þegar hinir sömu dásama hina brusselsku Paradís, sem allsherjar bjargræðið, til handa íslenzkri þjóð.

Magnús Helgi ! Hvaða möguleika sæir þú, í hendi okkar Íslendinga, að gera stærri, eða smærri viðskiptasamninga við lönd, eins og t.d. Perú (Suður- Ameríka) eða Kína (Asía) væri Ísland gengið inn í ESB, án afskipta frá Brussel ? Hvaða fiskveiðisamning gerðum við, við þjóðir utan ESB,  án afskipta ESB ?

Þú kemur með, í niðurlagi pistils þíns;; Erum við ekki bundin af því að taka upp lög ESB á flestum sviðum í gegn um EES? Ég spyr á móti, er nokkuð  í veginum fyrir, að við Íslendingar segjum þessum samningi upp ? Gætum í leiðinni losnað við slangur af '' útrásar'' fólkinu, sem reiðubúið er að selja sál sína, og þar með forkasta sínu þjóðerni og uppruna, fyrir nokkrar gull evrur, OG TALAÐ ENSKU SÍN Í MILLUM, varla yrðu flæmska eða þá franska tungutamar í ''útrásinni''.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vesalings Samfylkingarmaðurinn Magnús, nú verður hann að eltast við að fylgja foringjunum Össuri og svellkaldri svilkonu hans og reyna að finna jákvæða fleti á því að troða okkur í Evrópusambandið. En svarið við lokaspurningu Magnúsar er annars: NEI, til langframa verða aðildarþjóðirnar ekki fullvalda, nema þær forði sér í tæka tíð. Á meðan er ausið peningum í nýju þjóðirnar, og stórauðvaldið í hverju aðildarlandi vill vissulega fá að hafa sína ofurbreiðu markaðsaðstöðu áfram óskerta, hvað svo sem örlögin eiga eftir að búa gömlu þjóðríkjunum. Magnús er greinilega ekki með á nótunum, hve afdrifaríkt fullveldisafsalið verður, ef Ísland gengur íb ESB, en honum er velkomið að kynna sér það hér.

Svo er alveg makalaust undarlegt, raunar hlálegt, að það skuli hafa farið fram hjá Magnúsi (þessum talsmanni ESB!), að þegar hlutirnir voru kannaðir af alvöru varðandi það, hvert hlutfall þeirra ESB-laga og reglugerða væri, sem Ísland hefur tekið upp sem aðili að EES, þá kom í ljós, að við tökum upp um 6% þeirra lagagjörninga, þannig að það er fráleitt að gefa hér til kynna, að við séum "nú bundin af því að taka upp lög ESB á flestum sviðum í gegn um EES". En þessu héldu þeir, sem unnið hafa ESB trúnaðareiða öðrum fremur, Eiríkur Bergmann, Arnar Hauksson o.fl., sífelldlega fram þar til fyrir fáeinum misserum, þegar upp í þá var stungið með sannleikanum, sem var allur annar. Væri þarft verk að rifja upp þau síendurteknu ummæli þeirra, þegar þessir "sérfræðingar" áttu þó að vita betur (og vissu þeir betur?).

Ef ég væri í sporum Magnúsar, myndi ég fyrst vinna heimavinnuna mína, áður en ég hætti mér út í skrif sem þessi. En mér og öðrum fylgjendum íslenzks sjálfstæðis (og þ.a.l. andstæðingum ESB-aðildar) kemur það auðvitað bezt, ef sem flestir skoðanabræður Magnúsar leggja spilin upp í hendurnar á okkur með þessum og öðrum ámóta hætti. Við þurfum einmitt svona frambjóðendur eins og Ingibjörgu Sólrúnu og Magnús. Kjósendur munu þá vissulega taka við sér: Ekki fleiri slíkar predikanir, plís!

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 01:26

3 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Jæja það var nú aldrei að menn tækju við sér. Eru þið þá að segja að með því að ganga í ESB þá afsölum við okkur rétti til að eiga viðskipti við aðrar þjóðir nen ESB þjóðir?  Eru ríkin í Evrópu ekki frjáls og sjálfstæð? Ríki innan ESB eru nú þegar í viðskiptum við þjóðir utan ESB en okkar aðalviðskipti eru við Evrópu. Hafið þið félagarnir á takteinunum hvað margar þjóðir Evrópu eru utan ESB og stöðu þeirra fyrir utan okkur, Norðmenn og Sviss? Ég held að þess verði nú nokkuð langt að býða að við verðum í stórviðskiptum við Suður Ameríku þar sem að hún er ekki alveg í stakk búinn að versla þær luxusvörur sem við erum að selja. Kína erum við í viðskiptasamningum við. Annars held ég að þessi ofurtrú á því að okkar hag sé borgið hérna einum úti á útnára heimsins gæti valdið því að við sætum eftir nokkra áratugi með ástand sem svipað og fyrir seinna stríð. Öll okkar velsæld er komin til af samskiptum og viðskiptum við löndin í kring um okkur bæði vestur og austur. Það væri líka allt í lagi fyrir menn að rifja upp hverning ástandið var hér fyrir EES samningana.

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.1.2007 kl. 01:43

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Æ, æ, ný vanþekking ofan á þá, sem hér var sönnuð upp á hann, en hann þó gengst ekki við! -- Ég nenni ekki að svara þessu núna, geri það á morgun, ef aðrir gera það ekki.

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 01:50

5 identicon

Sæll, enn og aftur Magnús Helgi !

Hvað er að útnáranum ? Þeir, sem víða hafa ratað vilja meina, að loftslagið hér á Íslandi sé ekki ósvipað því, sem er á Eldlandi (við suðurodda Chile og Argentínu). Magnús ! Ég hefði kannski átt að geta þess, að ég var að horfa, svona 20 - 60 ár; a.m.k. in í 21. öldina með meiningar mínar; um viðskipti við Perú, alls ekki einvörðungu nánustu framtíð. Hvað er að ástandinu hérna, sem var fyrir seinna stríð ? Ætli náungakærleikur, og samkennd með lítilmagnaum hafi ekki verið ríkari þáttur, í þá daga, en nú er; á Íslandi ? Sjáðu nú til, Magnús... af hverju getum við, ég og þú, já og meistari Jón Valur;; ekki gengið um götur höfuðstaðar okkar, á síðkvöldum, án þess að eiga á hættu barsmíðar og örkuml, nema vera svo forsjálir að vera vopnum búnir sjálfir ? Viltu ekki þakka alþjóðavæðingunni, sem ESB hefir átt ríkan þátt í að skapa, í veröldinni; hvernig komið er, í dag ? Ég sé ekki betur, en hinir blóðnísku frændur okkar, Norðmenn sem og Svisslendingar hafi það alveg þolanlegt, almennt, þótt þeir séu ekki undir Brussel öxulhjólinu, eða hvað ? Á ýmsu gekk, jú, jú;, fyrir EES samningana, margvíslegar skorður í þjóðlífinu, en samt komumst við af, og.............. Magnús, ekki virtist þessi sérhyggja og sérgæzka, ásamt óstjórnlegri græðgi tröllríða hér húsum. sem nú tíðkast, svo mjög að annar hver maður er að detta niður dauður, ýmist sökum ofgnóttar eða annarra kvilla, oft andlegra. Samt eru nauðþurftastofnanir og hjálparsamtök starfandi í landinu, jú, jú,, ekki má kenna ESB allan ósómann hérlendis, en.............. hvaða tryggingu hefðu þeir, sem minna mega, fyrir því; að úr rættist í þeim málum, þótt svo ''fræðingar'' ESB kæmu þar að ? Þar kemur sannarlega til kasta innlendra stjórnvalda, OG FENGI SÁ STJÓRNMÁLAFLOKKUR, SEM TÆKI Á margfaldlega gjörninginn endurgoldinn. Nei Magnús Helgi,, ''ekki er allt sem sýnist'', sem Galdra- Imba kvað forðum.  

Með beztu kveðjum, enn og aftur !!!

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 02:30

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég held nú Ólafur að fræðingar ESB séu nú ekkert sérstaklega að skipta sér að innríkismálum hvers ríkis fyrir sig. Það er nú ekki það maður sér í þessum löndum ESB sem maður heyrir af. Ef svo væri væru þau meira eins. Í ESB eru einmitt sérstakir styrkir til dreyfbýlis og bænda sérstaklega háir. EN að örðuleyti er það sett í hendur hvers ríkis. Ofbeldi og ómennska er nú bara að verða  ríkjandi þáttur  hér eins og annarstaðar sbr. að fólk er orðið hrætt um að vera á ferli í miðbæ Reykjavíkur að kvöldlagi. Ég held að varast beri að túlka ESB þannig að það sé eitt ríki. Þetta er ekki sama fyrirkomulag og í Bandaríkjunum. En ef að maður vill þá er hægt að finna galla við allt. Ég get farið á netið og fundið fullt af efni um hvað ESB sé mikið ólán og spillt. Ég get líka farið á netið og fundið fullt af efni um að þátt fyrir að skipulag og vinnubrögð í Brussel séu ekki alveg til fyrirmyndar þá sé hagur þjóða af þessu samstarfi það mikill að flestar þjóðir Evrópu sjá hag sínum betur borgið í þessu sambandi þjóða.

En fyrst og fremst þá vill ég að farið verði í samningaviðræður um inngöngu í ESB. Þar verði farið inn með ákveðin samningsmarkmið og það kannað hverning þetta kæmi út fyrir okkur. T.d. varðandi rétt okkar til að ráða fiskiauðlynd okkar. Ef það yrði óásættanlegt þá er bara ekki gerður samningur. Eða hann feldur í Þjóðaratkvæðagreiðslu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.1.2007 kl. 09:04

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þriðja kórvillan, að minnsta kosti, er nú að birtast hér hjá Magnúsi. Hann veit ekki af því, að allar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni hjá ESB eru einungis TÍMABUNDNAR. Við næðum einungis þeim samningum um veiðarnar og lögsöguna hér, sem teljast yrðu undanþágur, og innan einhvers tiltekins tíma félli undanþágan burt, enda áskilur ESB sér rétt til að endurskoða sjávarútvegsstefnuna frá grunni á 10 ára fresti. Og af því að neitunarréttur einstakra aðildarríkja er á útleið, yrði þetta okkur afdrifaríkt. Þetta hefði Magnús getað lært, ef hann hefði lesið (betur) hina tilvísuðu grein mína, sem raunar birtist í líka bættri mynd í Mogganum 10. desember s.l. (Tangarsókn gegn fullveldi Íslands?).

Svo er það kórvilla Magnúsar nr. 2, sem aðrir hafa ekki tekið að sér að leiðrétta síðan í nótt. "Eruð þið þá að segja að með því að ganga í ESB þá afsölum við okkur rétti til að eiga viðskipti við aðrar þjóðir en ESB-þjóðir?" spyr hann. En það var enginn að halda því fram. Hins vegar afsölum við okkur rétti til að semja sjálf um viðskipti okkar við þjóðir utan ESB, ef við göngum í bandalagið, því að ESB áskilur sér allan rétt til slíkra samninga fyrir hönd aðildarríkjanna allra. Þetta hefði Magnús líka átt að afla sér upplýsinga um, áður en hann gerðist riddaraliði ESB-aðildar.

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 10:37

8 identicon

Magnús hættu núna það er verið að flengja þig hér á beran bossann.

Þótt þú styðjir SF má það ekki vera sjálfkrafa tilvísun á að þú styðjir inngönguna í EU. Það sem þessir ágætu herramenn eru að reyna að segja þér að henda 300.000 manna þjóð í þennan pott er sjálfsmorð þjóðar, við komum ekki til með að halda okkar hlut og ladí ladí ladí.

 Við hverfum í þennan hafsjó pappírs og frekra þjóða.

Ég fór til Ítalíu í sumar og þar er verðlagið orðið fáránlegt vegna upptöku evrunar, fólkið þar var ekki ánægt með það að allt hækkaði um 50% á einni nóttu

Lausnin á öllu þessu væli hjá SF liggur ekki í því að fórna fullveldinu fyrir Evrópu samruna

ehud (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 12:07

9 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Nú segja þeir sem ekki vilja að við tökum upp evru að evran sjálf ráði ekki verðlagi.  En hún opnar sannanlega markað hér fyrir fyrirtæki af evrumarkaði. Og ég er viss um að verð hér hækkar ekki vegna evru. Við fáum mun meiri samkeppni hér.

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.1.2007 kl. 12:11

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er ekki nóg fyrir Magga að vera sannfærður. Hann ætti að taka mark á þessu frá Ítalíu. Það sama gerðist í Þýzkalandi og vðíðar: margir notuðu sér tækifærið að "rúnna af" tölur og hækka verðlag við upptöku Evrunnar. Svo er leitt til þess að vita, að hann skuli ekki svara mótrökum, svo að unnt sé að vita, hvað gangi á í höfði hans, t.d. hvort hann sjálfur hafi einhverjar röklegar mótbárur. Það er ekki nóg að snúa sér bara að því að fara að ræða um eitthvað annað -- það er einmitt merki þess, að hann ráði ekki við mótrök okkar.

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 12:40

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bendi m.a. á þetta

"

Lýðræðishalli

EES-samningurinn er vissulega góður fyrir viðskiptalífið en í rekstri hans og þróun hafa komið í ljós ýmsir gallar. Sumir voru þekktir í upphafi en aðrir hafa komið í ljós síðar. EES-samningurinn neyðir Íslendinga til að mynda til að taka yfir alla löggjöf Evrópusambandsins sem gildir á innri markaðinum sem hefur verið metin um  70 til 80 prósent af öllum lagagerðum ESB (Baldur Þórhallson og Hjalti Þór Vignisson 2004),  en það er töluvert umfram það sem gert var ráð fyrir í uppahafi. Þetta hlutfall hefur þó efalaust lækkað í seinni tíð eftir að innri markaðurinn var fullgerður og eftir því sem samstarfi ESB nær til fleiri sviða utan EES. Við upphaf samningsins fylgdu honum um það bil 1.500 lagagerðir ESB sem Ísland, Noregur og Liechtenstein urðu að taka upp í landsrétt. Áratug síðar voru þessar lagagerðir komnar vel yfir 4600 sem stjórnmálamenn í Evrópu hafa gert okkur Íslendingum að fylgja. Sumar þeirra hafa síðan fallið úr gildi og aðrar höfum við tekið upp af sjálfstáðum. Í dag eru þær vel á fimmta þúsundið.

EES-samningurinn felur þannig í sér stöðuga endurskoðun og uppfærslu á íslenskum lögum. Þetta hefur víðtæk áhrif fyrir íslensku stjórnsýsluna. Frumkvæði og lokaákvörðun um innleiðingar lagasetninga er í auknu mæli komið á Evrópuvettvanginn og fá svið samfélagsins eru undanskilin. Á sumum sviðum eins og í umhverfismálum og matvælaeftirliti er nær öll lagasetning sem tekur gildi á Íslandi í höndum embættismanna og fullrúa annarra ríkja í Brussel (EFTA Bulletin 2002), en ekki í höndum lýðræðislega kjörinna fullrúa á Íslandi. Borgarar ESB hafa jafnframt margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem íslenskir borgarar hafa ekki en ákvarðarnir í stofnunum ESB byggja á fjölþættu samráði við sérfræðinga, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum (Wallis 2002). Með þessu móti hefur íslenska ríkið framselt hluta af löggjafarvaldi sínu til ESB en hefur litla sem enga möguleika á að hafa áhrif á hana. Reglugerðirnar koma einfaldlega í pósti.

Neitunarvaldið óvirkt

 

Við rekstur EES-samningsins hefur komið í ljós að neitunarvaldið sem EFTA ríkin hafa í orði kveðnu er óvirkt, nær ómögulegt er að hafna lagagerð frá ESB án þess að setja allan samninginn um leið í uppnám. Við þær aðstæður er það hlutverk ESB að meta hvort slík neitun hafi áhrif á það samræmi sem stefnt er að með samningnum og getur í framhaldi af því sagt samningnum upp á viðkomandi sviði. Ef svo reynist vera er ekki fráleitt að EES-samningurinn falli niður á því sviði sem viðkomandi reglugerð nær til. Þar með væri grafið undan meginforsendu samningsins um einsleitni á öllu svæðinu; að sömu reglur eigi að gilda allstaðar á innri markaðinum. Ennfremur hefur slík höfnun ekki aðeins gildi fyrir viðkomandi ríki heldur einnig fyrir hin EES-ríkin. Þeim væri þar með settur stóllinn fyrir dyrnar og gætu, að öllum líkindum, ekki heldur tekið upp viðkomandi lagagerð einhliða. Á gildistíma samningsins hefur þessi staða ekki enn komið upp, enda myndi slíkt leiða til mikillar óvissu í samstarfinu. Neitunarvaldinu hefur því aldrei verið beitt og innan EES hefur því verið líkt við kjarnorkusprengju; það sé gott að eiga hana en afar óskynsamlegt að nota hana (Valgerður Bjarnadóttir, 2001). Keðjuverkun færi í gang og ómögulegt er að sjá fyrirfram fyrir endann á þess háttar uppákomu." Og frekara lesmál um þetta hér: http://www.bifrost.is/default.asp?sid_id=22906&tId=1

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.1.2007 kl. 12:50

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er eins og fyrri daginn hjá Magnúsi: Svo má böl bæta að tala um eitthvað annað! Og það er út úr kú að vitna þarna til ummæla eins Evrópupostulans enn, Baldurs Þórhallsonar, auk Hjalta Þórs Vignissonar, frá árinu 2004, um að Ísland sem EES-aðili taki yfir "um 70 til 80 prósent af öllum lagagerðum ESB," þegar það hefur í millitíðinni gerzt, að þær fullyrðingar ESB-sinna voru afsannaðar með öllu! Rétta talan er um 6%, segi og skrifa sex prósent. Kunna menn ekki að lesa?

Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband