Leita í fréttum mbl.is

Um inngöngu í ESB aftur og nýbúinn.

Var að lesa grein eftir Valgerði Bjarnadóttur sem þekkir nú töluvert til ESB og mála þar.

Hún er að tala um hugsanlegar aðildarumræður í framhaldi af fréttum um að Framsókn sé byrjuð að skilgreina samningsmarkmið fyrir hugsanlegar viðræður.

Valgerður segir m.a.

Í mínum huga hlýtur samningsmarkmiðið að vera að fá inngöngu í bandalagið við þau skilyrði sem við sættum okkur við. Efst í huga eru þá yfirráð yfir fiskimiðunum. Fastur liður verða þess vegna fréttirnar af því þegar embættismenn bandalagsins verða spurðir hvort við fáum undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins eða hvort gerð verði undantekning frá því að fiskveiðiheimildum við Ísland verði úthlutað í Brussel. Svar embættismannanna verður nei, á því leikur enginn vafi. Þeir sækja umboð sitt til samþykkta samstarfsins og hafa ekkert umboð til sjálfstæðra skoðana á þeim vettvangi.

Þarna kemur m.a. fram að embættismenn sem andstæðingar ESB inngöngu okkar taka oft upp svör frá, hafa ekki leyfi til að segja annað þar sem þeir eru ekki samningamenn og hafa ekki leyfi til að gefa undir fótin með það að reglum ESB verði breytt.

Seinna í greininni segir hún:

Evrópusambandið breytir ekki reglum sínum þegar ný ríki ganga í bandalagið. Samningaviðræður ganga út á hvernig og á hve löngum tíma ný ríki geti aðlagast þeim reglum sem gilda. Þá held ég að óhætt sé að segja að við inngöngu nýrra ríkja hafi oftast orðið til nýjar reglur. Dæmi þar um eru reglur um hinn svokallaða heimskautalandbúnað sem urðu til þegar Finnar og Svíar gengu í sambandið.

Þetta er nú eitthvað sem bændur hér ættu að geta skoðað. En þetta hljóðar upp á styrk ESB við landbúnað í norðurhluta Finnlands og Svíþjóðar.

Loks kemur hún inn á vægi dollara og annarra gjaldmiðla. Það kemur henni á óvart að viðskipti með dollara eru ekki nema um 10% af gjaldeyrisviðskiptum okkar. Þetta segir að mikil meirihluti viðskipta okkar er í evrum

Stundum getur verið nauðsynlegt að hrista upp í mynd sinni af raunveruleikanum. Umræðan um flöktið á gengi íslensku krónunnar varð til þess að ég fletti upp á heimasíðu Seðlabankans til að skoða gengissveiflurnar. Þar er sagt frá nýjum gengisvogum sem eiga að koma í stað gengisvísitölunnar sem notuð hefur verið. Því segi ég frá því hér að það kom mér á óvart hversu lítið Bandaríkjadalur vegur orðið í viðskiptum landsins. Bæði í inn- og útflutningi vigtar dalurinn ekki nema í kringum tíu prósent. Ég stóð í þeirri meiningu að vægi hans í viðskiptum okkar við önnur lönd væri í kringum þriðjungur og hefði fyrir föstudaginn lagt talsvert undir í veðmáli um það efni, en nú veit ég sem sagt betur

Grein Valgerðar má lesa í heild hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hm... Hmm.; .. Sæll Magnús Helgi !

Með tilliti til þess, sem að ofan greinir, þætti mér fyllilega við hæfi, að þú; sem og annað gott og hrekklaust fólk, ættuð það alveg skilið, sérstaklega, að þau Jón Baldvin Hannibalsson, sem og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stórfrænka mín úr Gaulverjabæjarhreppi; sem og þau Össur Skarphéðinsson og Valgerður Bjarnadóttir, að ég tali nú ekki um systurson minn Helga Hjörvar, að þau fimmmenningar hlutuðust til um, að Brussel- heilkennin yrðu lögð vísindamönnum til grundvallar rannsókna, eða hver fjandinn er að hrjá ykkur, sem megið vart vakna til íslenzkrar sólarupprásar, hvern dag ? Hvað mætti verða sálum ykkar til forsorgunar, og almennrar huggunar, nema að taka næsta flug (eða skip) til Niðurlanda, í algleymið, hvílíkur munur það yrði nú, að vera ekki veltandi ''íslenzka krónuræflinum'' millum fingra sér, miklu fremur skyldi gæta að hinni sælu evru, að fá ekki hreinlega ofbirtu í augun, sökum þeirra dýrðarpeninga Samtaka Iðnaðarins - hluta ASÍ og hinna Mammonsvæddu Útrásar manna.

Magnús Helgi ! Ég átti leið um hina ágætu nágranna sýslu, frænda minna Rangæinga, í dag. Vissulega er hún nokkuð strjálbýl, utan Hellu og Hvolsvallar, en......... Magnús Helgi þú hefðir átt að vera með mér í för, sjáandi lágarenninginn leika um holt og grundir í skammdegissólinni. Hvað er hægt að hugsa sér tærari og mikilfenglegri sýn Íslands, sjá glitta í heiðina Há, í VSV , þá Ingólfsfjall , þá Botnsúlur , þá Hestfjall , þá Vörðufell, þá Kálfatinda, þá Langjökul, þá Búrfell; Heklu, óg svo áfram austur undir Eyjafjallajökul.  

Magnús Helgi ! Slíkar stundir, með hluta sunnlenzka fjallahringsins, fyrir sjónum, eru meira virði, en allrar Evrópunnar evrur. ÞAÐ FÆST NEFNILEGA EKKI ALLT, HÉR Í HEIMI; FYRIR PENINGA; MAGNÚS MINN !!!  

Hugum að því, hvað raunverulega er okkur dýrmætast, í öllu veraldarinnar volki.

Með beztu, og margítrekuðum kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum           

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 21:19

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum  ert þú ekki að misskilja eitthvað í sambandi við ESB. Við ætlum ekki að flytja landið eitt eða neitt og innganga í ESB gæti jafnvel orðið til þess að styrkja sveitir landsins.  Annars vil ég benda þér á að sveitirnar á Suðurlandi eiga  nú eftir á næstu árum að verða fyrir barðinu á framkvæmdum þar sem síðustu orkudropar verða kreistir út úr Þjórsá sem og að rafmagnslínur eiga eftir að skera sveitirnar sundur og saman. Því er viturlegt hjá þér að virða sveitina vel fyrir þér nú þessar síðustu stundir. Ég er þess fullviss að peningahyggjan sem hér er ríkjandi þessar stundir er eitthvað sem á eftir að vaxa og dafna og á endanum verða það 10 til 20 menn sem ráða öllu hér. Og þá átt þú eftir að hugsa: "Ég hefði betur hlustað á Magga sem var að blogga hér um árið"

Annars þakka ég regluleg innlit þín hér og skemmtilegar athugasemdir.

Magnús Helgi Björgvinsson, 17.1.2007 kl. 22:05

3 identicon

Sæll, Magnús Helgi !

Þakka þér, fyrir hlý orð og góðar meiningar. Því miður, kannt þú að verða sannspár hvað varðar örlög sveitanna, þykist vita, að ekki hlakki í þér, hagi örlögin því svo. Rétt er það, Magnús Helgi, ekki ætlum við að flytja landið neitt, en.................. verð að ítreka; enn og aftur, að ESB mun ekki verða það lífsankeri, sem nokkrir hyggja, ég hefi víst ekki bent á NAFTA eða Efnahagsbandalag Suð -Austur Asíuríkja, til viðmiðunar og frekari samskiptakosta okkar í framtíðinni.

Hvernig litist þér á Tokyo, eða jafnvel Ottawa sem valkosti gagnvart Brussel, Magnús Helgi ? Þægilegra að skoða þrjá meginvalkostina, í stað eins, ef menn vilja.

Með beztu kveðjum okkar Árnesinga (og að hálfu; Borgfirðinga)  

Óskar Helgi   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 22:45

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Held að ég kunni betur við það sem maður þekki aðeins. Það vill þannig til að stórhluti Evrópu kýs að vera í samstarfi og sífellt fleiri sem bætast við. Ég minni á að sambærileg umræða kemur reglulega upp í Noregi og þó þeir hafi ekki en kosið að ganga aftur til samninga við ESB þá gæti það komið innan skamms. Og þegar svo verður komið þá erum við í þeirri stöðu að við verðum að gera eins því að við höldum EES ekki gangandi ein. Og þá gætum við þurft að gera afar samninga. En á meðan við erum bara takk fyrir í góðum málum þá er samningsstaða okkar sterkari. Þá höfum við tækifæri að leita annað ef að viðunandi inngönguskilyrði eru ekki í boði fyrir okkur.

Magnús Helgi Björgvinsson, 17.1.2007 kl. 23:05

5 identicon

Þakka þér raunsæið, Magnús;; og svo innslagið nýjasta, efst á síðu þinni, undir upphafinu ''Ákall'' . Þú ert vel þenkjandi, þegar kemur að málum, sem réttarkerfisins eins er að fjalla um, en ekki fjölmiðlanna.

Með kveðju /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband