Það kann að virðast fráleitt þegar horft er á venjulegan fréttatíma, en við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað. Fólk lifir lengur, minna hlutfall mannkyns líður skort og minni líkur eru á að vera myrtur af náunganum eða drepinn í stríði en nokkru sinni fyrr.
Okkar helstu vandamál felast í því að við erum svo mörg og höfum það svo gott að við verðum orðið að fara varlega til að skemma ekki plánetuna sem við búum á og taka með því tækifæri af komandi kynslóðum til að hafa það jafn gott.
Þetta eru staðreyndir. Og þarna í allra efstu þrepunum í lífsgæðastiganum á þessum mestu velmegunartímum frá upphafi erum við Íslendingar.
Já, ennþá!
Lífsgæðin á Íslandi fóru frá því að vera á flestum mælikvörðum eins og Mónakó yfir í að vera á flestum mælikvörðum eins og í Danmörku. Frá ofurallsnægtum til allsnægta það var nú allt fallið.
Svo tipla allir á tánum og segja að það megi ekki gera lítið úr vandamálum fólksins á Íslandi. Rugl! Það á einmitt að gera lítið úr þeim.
Enginn frasi fer meira í taugarnar á mér um þessar mundir, en að Ísland sé orðið þriðjaheimsríki. Þeir sem segja svona hafa svo sannarlega ekki komið til slíkra ríkja. Ég hef heimsótt þau allnokkur og veit því hvað ég er að tala um.
Hefur þú notað plastpoka sem salernisaðstöðu nýlega? Drukkið úr skólpvatninu? Hjá nágrönnunum? Efast um að eiga morgunmat í fyrramálið? Ekki vitað hvort þú þyrftir að yfirgefa heimilið í nótt vegna yfirvofandi árása?
Fæstir setja frið ofarlega á lista yfir forgangsatriði í lífinu sem aldrei hafa upplifað ófrið.
Ef þú hefur þak yfir höfuðið, mat á disknum og rennandi vatn í krananum hefur þú það betra en 5 af hverjum 6 jarðarbúum. Mér er alveg sama hvað hver segir: Á Íslandi búum við svo sannarlega við þannig kerfi að enginn þarf að lifa í ótta við að missa neitt af þessu, jafnvel þó hann missi aleiguna eins og það er kallað. Og langflest höfum við það reyndar miklu, miklu betra.
Það versta við Hrunið er að það er orðin ásættanleg hegðun að væla og bera sig illa. Hver er ekki lengur sinnar gæfu smiður, heldur er hin voðalega ógæfa okkar allra einhverjum öðrum að kenna. Alltaf. Öll.
Svo sannarlega var hér fólk sem framdi glæpi, gerðist sekt um vanrækslu og margir eru sekir um alvarlegan dómgreindarbrest. Flest fórum við að einhverju leyti óvarlega.
Já, glæpamönnum þarf að refsa, já, margir mega skammast sín. Engar áhyggjur, það er verið að rannasaka þessi mál og fólk mun fá sína refsingu þetta tekur allt tíma og einn af kostunum við það að búa ekki í þróunarríki er að við höfum við lög og rétt til að takast á við svona mál. Og jafnvel þó einhverjir sleppi frá dómskerfinu þá veldur það okkur ekki meiri skaða en orðinn er. Þau þurfa aftur á móti að horfast í augu við eigin samvisku og fólkið í kringum sig. Ég ímynda mér að það sé flestu þessu fólki nú þegar ansi erfitt. Margir eiga seint og illa afturkvæmt til Íslands.
Það er rík ástæða fyrir því að hefnigirni, öfund og langrækni eru ekki talin til dyggða. Það eru aftur á móti hugrekki, samkennd og jafnaðargeð.
Það er fráleitt að bera sig saman við og sakna þess sem var á árunum 2006 og 2007. Það var ekki innistæða fyrir því góðæri sem þá var og ástæðan fyrir því að sum okkar upplifðu það að ferðast um eins og kóngar í útlöndum þar sem allt var hræódýrt og önnur okkar töldu sig hafa efni á því að taka lán fyrir alltof stórum húsum, dýrum bílum og jafnvel bara til að lifa hátt var einmitt sama ástæðan og sú sem varð til þess að allt hrundi á hliðina.
Þá var ekki raunverulegt. Núna er raunverulegt og reyndar standa öll efni til þess að raunveruleikinn verði fljótlega einhvers staðar mitt á milli.
Það er allt í lagi að gráta stundum, en það er ástæða fyrir því að við venjum börnin okkar af því að suða, nöldra og væla. Heil þjóð af vælukjóum er ekki skemmtileg þjóð. Heil þjóð af fólki sem horfir til framtíðar og gerir hluti til að breyta til hins betra og byggja upp er það hins vegar.
Í Hruninu liggja tækifæri tækifæri til að byggja upp betra samfélag en það sem var og líka betra en það sem er, en það gerist ekki með því að væla það gerist með því að GERA.
Hættum þessu helvítis væli og förum að gera eitthvað uppbyggilegt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.