Leita í fréttum mbl.is

Gylfi Magnússon fer á kostum í grein sinni í Fréttablaðinu í dag

Til að byrja með þá skýrir hann út fyrir þá sem sífellt eru að misskilja um hvað Icesave snýst:

Hann segir m.a.

Grunnurinn að Icesave-deilunni er sú einfalda staðreynd að þegar eigum þrotabús Landsbankans var ráðstafað var það gert þannig að útkoman varð hagstæðari fyrir þá sem áttu innlánsreikninga á Íslandi en í Bretlandi eða Hollandi. Nú hafa náðst samningar um það hvernig á að gera þetta upp með sanngjörnum hætti fyrir báða aðila. Íslenska ríkið bætir Hollendingum og Bretum upp hluta kostnaðarins við að gera innstæðueigendur í þeim löndum jafnsetta innstæðueigendum á Íslandi. Miðað er við afar lága vexti, sem er mikið hagsmunamál fyrir íslenska ríkið. Vextirnir eru til dæmis um helmingi lægri en Evrópulönd hafa boðið ríkissjóðum Grikklands og Írlands sem eiga í miklum kröggum.
Þetta er góð og sanngjörn niðurstaða fyrir Ísland og við eigum ekki að kveinka okkur undan því að þurfa með þessum hætti að koma til móts við nágrannaþjóðir okkar.
Kostnaður íslenska ríkisins er áætlaður um 30 milljarðar króna. Líklega er það fremur ofmat en vanmat, því að eigur þrotabúsins eru varlega metnar. Myndin af þrotabúinu hefur orðið skýrari eftir því sem tíminn hefur liðið. Það dregur úr áhættu. Gengisáhætta hefur einnig minnkað mikið og mun fyrirsjáanlega hverfa að miklu leyti síðar á þessu ári þegar stór hluti forgangskrafna verður greiddur.

Síðar segir hann:

Verði dómstólaleiðin farin hverfur engin áhætta en við bætist óvissa um vexti, skiptingu höfuðstóls (hlutdeild íslenska ríkisins gæti allt að tvöfaldast) og greiðslutíma, auk þess sem öryggisfyrirvarar Íslands í núverandi samningi væru ekki lengur tryggir. Það væri engu betra fyrir íslenska ríkið að vera dæmt til að greiða í krónum en að semja um greiðslur í erlendri mynt. Það hefur sömu áhrif á innlendan gjaldeyrismarkað.
Kostnaður vegna tafa við að ljúka málinu er þegar orðinn gríðarlegur og eykst enn með frekari töfum. Sá kostnaður kemur fyrst og fremst fram á tvennan hátt.

Þar bendir hann á óvissu um vaxtakjör sem okkur bjóðst erlendis en hann segir að hvert % stig sem þau  eru hærri kosti þjóðarbúið um 30 milljarða á ári.

Og svo minnkaða fjárfestingu og þar af leiðandi hagvöxt þar sem að hann  bendi á að hvert % í minnkuðum hagvexti kosti þjóðarbúið ekki undir 300 milljörðum á ári.

Síðan tekst hann á flug:

Allt útlit er fyrir að málið verði að fullu gert upp árið 2016, m.v. núverandi samning. Þangað til eru 5 ár. Þeir sem telja að börnin okkar greiði reikninginn mega hafa það í huga að eftir 5 ár verða þau, merkilegt nokk, að jafnaði 5 árum eldri en þau eru núna. Flest þeirra verða enn börn, þau elstu orðin unglingar. Þeirra skattgreiðslur munu ekki renna til að greiða þennan reikning. Þau erfa hins vegar alla þá innviði sem góðærið skilur eftir.

Og svo er þetta frábært:

Þeir sem vilja fara dómstólaleiðina hafa sumir hverjir vitnað í ýmsar hetjur Íslandssögunnar og bókmenntanna máli sínu til stuðnings. Vísað í garpa sem þeir telja víst að hefðu sagt nei. Það er dálítið til í þessu. Til dæmis má væntanlega slá því föstu að Egill Skallagrímsson hefði sagt nei. Líklega hefði hann gert það utan kjörstaðar í ránsferð í útlöndum. Dottið svo í það og vegið mann og annan

Frábær grein frá manni sem þekkit þetta mál mjög vel og margt í henni sem ég sleppti. Svo kíkið á hana hér


mbl.is 76% segja nei á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Öll rök hníga að Nei-i.

Dómstólaleiðin felur í sér mun minni áhættu.

Legg til að þú og fleiri skoðir þennan hnitmiðaða fyrirlestur um dómstólaleiðina:
http://www.advice.is/?p=825

Jónas (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:04

2 identicon

Stjórnvöld eru ennþá í mestu ránferð íslandssögunnar. Tryggðu innistæður 2% þjóðarinnar í topp á kostnað hinna 98%. Eignaupptaka sem á sér engann sinn líka í vestrænu ríki. Tekur okkur um 40 ár eða svo að vinna okkur útúr þeim pakka.

Egill Skalli er bara áhugamaður um rán og smápeð sem stenst engann samanburð í þessu tilliti. Ómerkilegt að stilla þessu upp saman.

sr (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:10

3 identicon

Fín grein hjá Gylfa.  Ég bara skil ekki hvað fær fólk ennþá til að ætla að segja NEI! Eftir allar þær upplýsingar sem eru á borðinu. Vitandi svona nokkurn veginn hvað við fáum við já en ekki neitt um hvað nei ber í skauti sér nema að jafnvel bara kostnaðurinn við dómsmál yrði meiri en það sem við þurfum að borga ef við segjum JÁ.

Er fólk í alvöru tilbúið til að taka á sig fleiri hundruð milljarða ef við töpum? Eða er fólk svo grunnhyggið að það haldi að Icesave hverfi ef við segjum nei? Að Bretar og Hollendingar eða ESA geri bara ekki neitt? Að allir munu vorkenna svo litla Íslandi að allir munu líta fram hjá þessu? Rosalega líklegt!

Soffía (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:17

4 identicon

Hann gefur sér að upphæðin verði 30 milljarðar, það er ítrekað í upplýsingabæklingi sem borinn var út á öll heimili að þetta sé mat skilanefndar. Og hvers vegna eigum við að trúa skilanefnd, munið að bankarnir „stóðu traustum fótum" rétt áður en þeir hrundu, því eigið fé var svo mikið!

Dísa (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:18

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nafni, það er frekar lélegt af Gylfa að taka Egil Skallagrímsson sem dæmi, hafandi sjálfur staðið að mesta ráni á heimilum eigin ættlands í sögunni og það ófullur.

Magnús Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 13:19

6 identicon

"Þau erfa hins vegar alla þá innviði sem góðærið skilur eftir."

Stórkostleg setning alveg. Hvaða innviðir eru eftir, tónlistarhúsið???????????????????????

Það er það eina sem mér dettur í hug. Miðað við hverning gengur að viðhalda "innviðum góðærisins" nú þegar, þá held ég að "nei" sé skárri lausn. Því núna geta sjúkrahús ekki keypt tæki eða endurnýjað hjá sér neitt af úrsérgengnum tækjum, vegna fjárskorts, ekki er hægt að viðhalda vegakerfi landsins vegna fjárskorts, varla er hægt að reka elliheimili, skóla, löggæslu eða neitt af því sem aðrar þjóðir kalla innviði samfélagsins. Hvernig halda menn að þetta komi til með að líta út eftir 5 ár?

Því miður er það þannig að fólk sem hefur komið nálægt stjórnmálum, því sé síst af öllu treystandi til að tala um hvað sé íslendingum fyrir bestu. Það vita 91% þjóðarinnar og þessvegna mælist traust á alþingi ekki nema 9%.

Larus (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:29

7 identicon

Gylfi Magnússon fór líka á kostum í fréttum Stöðvar 2, þegar fjallað var um Icesave II. Þá sagði þann um synjun Icesave:

Við værum bara eiginlega búin að einangra okkur frá umheminum, komin aftur á einhverskonar Kúbu-stig. Við værum svona Kúba norðursins.

Gylfi hafði rangt fyrir sé þá.
Gylfi hefur rangt fyrir sér núna líka.

Haraldur (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:16

8 identicon

Gylfi er mætur maður og vel menntaður. Hann for hins vegar illa að raði i Icesave II, hafði rangt fyrir ser i öllum meginrökum malsins. Su staðreynd gjaldfellir Gylfa i dag, engir nema hörðustu Ja-menn trua honum.

Þórður Sigurjónsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:43

9 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Haraldur gleymir þeirri staðreynd að það var haldið áfram að semja. þess vegna voru ekki hafin nein málaferli og Kúbudæmið komst ekki á dagskrá.

Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 14:46

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

@Larus (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 13:29

Innviðir góðærissins eru m.a. fullt af íbúðahúsnæði bæði nýju og endurnýjuðu. Fullt af atvinnuhúsnæði sem er lítð eða vannýtt í dag. Þetta eru allt eignir sem verða hér eftir. Heilu bæjarhlutar sem nú hafa verið skipulagðir og eru tilbúnir til bygginar eða jafnvel hálfbyggðir. Sem og myndarleg skólahús, sundlaugar og fullt af hlutum. Þetta hverfur ekki. Og jú Tónlistarhúsið, jarðgöng margföldun á háskólaplássum og margt annað sem er afleiðing góðæris og nýtist okkur þegar við erum komin út úr þessari kreppu. Held að Gylfi hafi bent á að bílaflotinn hafi jú endurnýjast líka.

Og þetta nefir Gylfi sjálfur:

Féð sem bankarnir dældu inn í íslenska hagkerfið skilaði sér líka í því að fjármunaeign landsmanna jókst um hátt á annað þúsund milljarða árin 2003 til 2009. Eftir sitja hús, virkjanir, vegir, jarðgöng, tónlistarhús, sundlaugar, hafnir og svo framvegis. Árið 2008 voru 8.340 Toyota Land Cruiser jeppar á landinu, sem myndu líklega kosta um 80 milljarða króna nýir. Svona mætti nær endalaust telja.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.4.2011 kl. 15:21

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

@Magnús Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 13:19

Gylfi ólíkt þeim sem básúnuð um að fella allar skuldir hér niður, þurfti að halda hér kerfum gangandi. Hann gerði eins vel og hann gat við erfiðar aðstæður. Og hann rændi engu eða stóð að því. Hann hvorki lánaði fólki sem var tilbúð að taka áhættu á háum lánum í erlendu gengi né rukkað það inn. Hann talaði alltaf um að dómsstólar þyrftu að dæma um hvernig farið skildi með þessi erlendu lán.

Ekki reyna að gera einn eða fleiri stjórnmálamann ábyrgan fyrir þessu. Held að hvorki Sigmundur Davíð eða aðrir hefðu ráðið vð það að fá á sig alla kröfuhafa bankana ef þeir hefðu bara með pennastrikum strokað út öll útlán þeirra sem eru eignir fyrir banka.  Menn tala alltaf eins og þetta sé bara ekkert mál. Við erum jú búin að afskrifa 7 til 8 þúsund milljarða sem útlendignar höfðu lánað okkur svo við gætum yfirborgað Íbúðahúsnæði, hennt út öllum inniréttingum úr húsunum okkar og keypt nýtt eins og INNLIT ÚTLIT þáttunum. Keypt okkur jeppa á 12 milljónir og svo framvegis.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.4.2011 kl. 15:29

12 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvernig er hægtr að trúa eða treysta manni sem hafði svo stórkostlega rangt fyrir sér varðandi icesave I og II?

Hvernig er hægt að treysta manni sem taldi að lögleysa bankanna væri lögleg, allt þar til hæstréttur hafði dæmt þá fyrir lögbrot?

Hvernig er hægt að treysta manni sem eftir þann dóm Hæstaréttar, sagði að brýnast væri að breyta lögum til að komast hjá dómnum?

Hver treystir slíkum manni?

Gunnar Heiðarsson, 6.4.2011 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband