Leita í fréttum mbl.is

Til athugunar áður en þú greiðir atkvæði þitt á morgun

Þessir grein af www.visir.is er reyndar um rangfærslur  Brynjars Níelssonar en á við málflutning margra annarra nú síðustu vikur.

Á laugardaginn verður kosið um það hvort Icesave lögin skuli halda gildi sínu. Langflestir sem ætla sér að greiða atkvæði vilja taka afstöðu í málinu byggða á réttum upplýsingum um afleiðingar kosningaúrslitanna en ekki óskhyggju eða áróðurskenndum upphrópunum. Atkvæði er illa nýtt ef kjósandinn telur sig hafa verið að kjósa um tiltekið framhald málsins, sem mun í raun ólíklega eða alls ekki verða.

Icesave málið er að stærstum hluta lögfræðilegt og því er lagt á kjósendur að meta það hver niðurstaða mun verða í flóknum málarekstri. Í framhaldinu þurfa kjósendur svo að taka afstöðu til þess hvort réttara sé að semja um málið.

Þar sem um flókið lögfræðilegt mál er að ræða lítur fólk í mörgum tilvikum til lögfræðinga og hlustar eftir þeirra röksemdum. Ábyrgð lögfræðinga sem tjá sig opinberlega er mikil enda mega þeir eiga von á að fólk hafi þeirra sjónarmið að leiðarljósi og greiði atkvæði m.a. í trausti þeirra staðreynda sem lögfræðingar halda fram um málið.

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, hefur upp á síðkastið tekið mikinn þátt í umræðu um Icesave lögin. Brynjar er formaður Lögmannafélags Íslands og því má gera ráð fyrir að margir kjósendur leggi vel við hlustir þegar hann lýsir sinni sýn á það sem mun gerast í kjölfar niðurstöðu Icesave kosninganna. Sérstaklega má búast við því að kjósendur treysti honum þegar hann fjallar um dómsmál og atriði sem tengjast málarekstri, enda eiga lögmenn að vera sérfræðingar á því sviði.

Því miður teljum við að Brynjar hafi að undanförnu gefið rangar eða villandi upplýsingar um Icesave málið á opinberum vettvangi. Þar sem rangfærslurnar lúta að rekstri dómsmála teljum við nauðsynlegt að leiðrétta þær svo að kjósendur byggi ekki á þessum röngu upplýsingum. Brynjar var í viðtali í Icesave þætti RÚV á þriðjudagskvöldið og einnig í morgunútvarpi Bylgjunnar á miðvikudaginn. Eftirfarandi athugasemdir okkar eru við nokkur atriði sem þar komu fram hjá Brynjari:

Málið mun fara fyrir dómstóla verði lögin ekki samþykkt

Í Icesave þætti RÚV lýsti Brynjar skoðun sinni á því hvað gerðist ef Icesave lögunum yrði synjað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Brynjar taldi að tvennt kæmi til greina. Annars vegar að málið myndi halda áfram og fara fyrir dómstóla. Hins vegar taldi Brynjar möguleika á því að eftir synjun laganna myndi ekkert gerast; málinu væri þá lokið. Það rökstuddi hann með því að Bretar og Hollendingar myndu mögulega telja pólitíska hagsmuni leiða til þess að réttast væri að gera ekkert frekar í málinu.

Erfitt er að koma auga á þá pólitísku hagsmuni sem Brynjar vísar til, enda útskýrði hann þá ekki. Framangreint er því frekar óskhyggja en rökstutt lögfræðilegt mat.

Komist ekki á samningur er raunsæ afstaða til framhaldsins sú að gera ráð fyrir því að Bretar og Hollendingar muni halda áfram að sækja þann rétt sem þeir telja sig eiga. Jafnvel þótt þeir geri það ekki liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mun halda málinu áfram.

Það er villandi að halda því fram að með synjun laganna muni ekkert gerast. Kjósendur ættu ekki að greiða atkvæði í þeirri von.

Dómstólar geta dæmt um kröfu í erlendum myntum

Í Icesave þætti RÚV lýsti Brynjar því yfir að íslenskir dómstólar gætu eingöngu komist að dómsniðurstöðu í íslenskum krónum. Það sagði hann leiða af vaxtalögum. Þetta er rangt. Engin ákvæði núgildandi vaxtalaga banna að ágreiningur um kröfu í erlendum gjaldmiðli sé borinn undir íslenska dómstóla.

Hæstiréttur hefur kveðið upp allnokkra dóma á undanförnum árum um skuldbindingu í erlendum myntum. Kjósendur eiga ekki að greiða atkvæði í trausti þess að synjun laganna leiði til þess að skuld íslenska ríkisins verði eingöngu dæmd í íslenskum krónum.

Bretar og Hollendingar geta rekið mál fyrir íslenskum dómstólum

Í Icesave þætti RÚV sagði Brynjar að íslenska ríkið verði aldrei dæmt til að greiða bætur öðruvísi en íslenskir dómstólar dæmi þær. Þá sagði hann að Bretar og Hollendingar muni ávallt sitja uppi með það að sækja málið á Íslandi og það sé m.a. ástæða þess að þeir vilji semja. Með þessu er gefið í skyn að Bretar og Hollendingar treysti ekki íslenskum dómstólum til að leysa úr lögfræðilegum ágreiningi.

Það er afar óheppilegt að formaður lögmannafélagsins gefi það í skyn að íslenskir dómstólar láti niðurstöðu máls ráðast af því hverjir eru aðilar þess. Verði ágreiningurinn borinn undir dómstóla munu þeir dæma út frá þeim lögum sem gilda um ágreiningsefnið. Eftir bankahrunið hafa fjölmargir erlendir kröfuhafar borið mikla hagsmuni sína undir íslenska dómstóla. Þau mál fá eðlilegan framgang og úrlausn þeirra fer einungis eftir lögum en ekki hagsmunum íslenska ríkisins eða annarra. Nýlegt dæmi er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um heildsöluinnlán Landsbankans. Héraðsdómur viðurkenndi heildsöluinnlánin sem forgangskröfur, en gagnstæð niðurstaða hefði að öllum líkindum leitt til þess að eignir Landsbankans hefðu dugað til að greiða meginþorra Icesave skuldarinnar.

Varhugavert er að byggja atkvæði sitt á þeirri forsendu að íslenskir dómstólar muni ekki dæma íslenska ríkið til þess að greiða háar fjárhæðir til annarra ríkja. Ef rétt lögfræðileg niðurstaða er sú að íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð gagnvart öðrum ríkjum kemur ekki annað til greina en að íslenskir dómstólar dæmi íslenska ríkinu í óhag.

Dómstólaleið getur leitt til mun verri niðurstöðu en samningurinn

Í viðtali í Íslandi í bítið á Bylgjunni lýsti Brynjar því yfir að niðurstaða í dómsmáli verði í versta falli sú að íslenska ríkinu beri að greiða lágmarkstryggingu innstæðna. Þá hélt hann því fram að Icesave samningurinn tryggði Bretum og Hollendingum hærri greiðslur en því nemur og þess vegna verði versta niðurstaða í dómsmáli alltaf betri en samningurinn.

Rök Brynjars eru þau að til þess að fá dæmdar bætur umfram lágmarkstryggingu innstæðna þyrfti dómstóll að komast að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi beitt ólögmætri mismunun. Það telur Brynjar „út í bláinn". Það er villandi og ábyrgðarlaust að gera lítið úr þessum þætti dómsmálsins, ef til þess kemur. Það er óraunhæft að gera ráð fyrir öðru en að Bretar og Hollendingar geri ítrustu kröfur í dómsmáli. Í því felst að Bretar og Hollendingar munu gera kröfu um að innstæður í erlendum útibúum fái sömu meðferð og innstæður í íslenskum útibúum, enda fæli annað í sér mismunun. Almennt telja fræðimenn að erfiðara verði fyrir Íslendinga að verjast þessum þætti málsins en þeim sem lýtur að fyrirkomulagi innstæðutryggingakerfisins. Niðurstaða dómstóla getur því hæglega orðið á þá leið að íslenska ríkið hafi beitt ólögmætri mismunun og beri að bæta Bretum og Hollendingum tjónið af þeirri mismunun. Slík dómsniðurstaða yrði mun verri en samningurinn.

Þá hélt Brynjar því fram í Icesave þætti RÚV að ef íslenska ríkið tapar dómsmáli um Icesave verði nærtækast að taka upp samninginn sem nú liggur fyrir, og greiða Bretum og Hollendingum samkvæmt ákvæðum hans. Þetta er óskhyggja hjá Brynjari. Báðir aðilar eru tilbúnir að gefa eftir af kröfum sínum og semja til að forðast áhættu af dómsmáli. Ef íslenska ríkið hins vegar hafnar samningi og tapar í kjölfarið dómsmáli gegn Bretum og Hollendingum standa engin rök til þess að þær þjóðir leyfi Íslendingum að greiða samkvæmt samningnum.

Það er því rangt að niðurstaða úr dómstólaleiðinni verði aldrei verri en með samningnum. Kjósendur geta ekki treyst því að synjun laganna leiði alltaf til jafngóðrar eða betri niðurstöðu fyrir íslenska ríkið en samningurinn. Kjósendur verða að hafa í huga að það eru líkur á því að synjun samningsins leiði til mun verri niðurstöðu fyrir íslenska ríkið.

Þegar tekin er ákvörðun um Icesave málið er skynsamlegt að gera ráð fyrir eftirfarandi: Verði lögunum synjað mun málinu ekki ljúka. Íslenskir dómstólar dæma um kröfur í erlendum myntum. Íslenskir dómstólar dæma eftir lögum án tillits til hagsmuna íslenska ríkisins. Og síðast en ekki síst að niðurstaða dómsmála getur orðið mun verri en fyrirliggjandi samningur.

Trú, óskhyggja og rangar upplýsingar breyta ekki þessum staðreyndum.

Daníel Isebarn Ágústsson, hdl.
Grímur Sigurðsson, hrl.
Tómas Hrafn Sveinsson, hdl.


mbl.is Rúmlega 24 þúsund hafa kosið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sigmundur Davíð útskýrði Icesavemálið fyrir þjóðinni í Kastljósi kvöldsins.

Hann ræddi mögulega niðurstöðu EFTA dómstólsins varðandi sakfellingu fyrir brot á EES samningnum vegna þess að innstæðueigendum Landsbankans í Englandi og á Íslandi var mismunað.

Sigmundur greip til líkingamáls, þreif í jakka Sigmars þáttastjórnanda og sagði að fyrir hrun þá hefðu bæði enskir og íslenskir sparifjáreigendur getað keypt sér 10 svona jakka.

En eftir hrun þá hefði sá enski, sem fékk allt greitt út í pundum getað keypt sér aðra 10 jakka, en íslenski sparifjáreigandinn sem fékk allt sitt einnig greitt út í íslenskum krónum, gat einungis keypt sér 6 jakka. Og Sigmundur spurði: „Hvor fær sitt bætt? Englendingurinn fær allt sitt, Hollendingurinn fær allt sitt. Íslendingurinn hinsvegar fær minna“

Það er augljóst. sagði Sigmundur Davíð, að það er sá íslenski sem hefur orðið fyrir mismunun. 6 jakkar eru ekki það sama og 10.

Þegar hér var komið sögu þá fór ég að klóra mér í hausnum og fann að samúð mín var hjá íslenska aðilanum sem gat ekki keypt sér nema 6 jakka. Dæmið varð þó aldrei raunverulegt í mínum huga þar sem þetta magn af jökkum vafðist fyrir mér. Sigmundur Davíð er að vísu af efnafólki og giftur inn í milljarðafjölskyldu og áttar sig betur á svona kaupastandi heldur en ég.

Hvað um það - niðurstaða formanns Framsóknarflokksins var sú að það væri ekki hægt að dæma þjóð, sem fær borgað í ónýtum gjaldeyri, fyrir brot á milliríkjasamningum.

Ég hinsvegar dró þá ályktun að þetta væri gengis-mismunur en ekki mismunun eins og Sigmundur taldi.

Ég vissi að króna er ekki það sama og pund og ég vissi að krónan skítféll - en ég vissi ekki að þessi skilningur á mismunun væri í EES samningum? Ég hélt að aðgerðir íslenska ríkisins, þegar það tryggði íslenska sparifjáreigendur en lét þá bresku og hollensku róa, væri hin saknæma mismunun. Ef skilningur Sigmundar er rétt þá erum við í góðum málum

En svo rifjaðist það upp fyrir mér að þetta er ekki í fyrsta sinn sem jakkainnkaup hafa ruglað Framsóknarmenn í ríminu. Í janúar 2008 varð mikill hvellur þegar Björn Ingi keypti 5 jakkaföt á kostnað flokksins. Þá fannst mörgum framsóknarmönnun innkaupin vera misferli.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.4.2011 kl. 23:10

2 identicon

Þegar komið er að þeirri stundu, að fólki er boðið að segja sína skoðun á þeim gjörningi sem bjó til ICESAVE, þá er það sjálfsagt að láta fólk um að hafa skoðun !!!

Það voru pólitíkusar sem bjuggu til þennan ,,ICESAVE gjörning"  allan !

Þessir pólitíkusar , sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig allur , með kjósendum !!!

Venjulegur íslendingur vill þess vegna alls ekki koma n´læagt þessu gjörningi og segir auðvitað NEI í kosningu um ,,ICESAVE gjörningin" !

Væri það ekki bara gott að sjálfstæðisflokkurinn fengi þennan ICESAVE reikning til að gera upp ???

Það sem er grátlegast , fólkið í VG hefur rústað eigin flokki  vegna ICESAVE, gjörningi sem VG á engan þátt í !!!

Getur verið að fólk sem gefur sig út í pólitík sé svo forheimskt að það geti alls ekki átt í venjulegum samskiptum við annað fólk ???

ICESAVE er ekki flókið mál, sjálfstæðisflokkurinn lofaði að borga bretum og hollendingum , án þess að hafa neitt vald til þess !!!

Auðvitað segjum við NEI við ICESAVE á morgum og sendum reikninginn til sjálfstæðisflokksins !!!!!!!!!! 

JR (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband