Sunnudagur, 3. febrúar 2013
Ræða Árna Páls í heild
Stefnuræða Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar,
á Landsfundi, 3. febrúar 2013.
Talað mál gildir.
Kæru vinir og samherjar
Ég vil byrja á að segja ykkur litla sögu. Amma mín í móðurætt var mér afar kær. Hún fæddist utan hjónabands, móður sem var lausaleiksbarn í vistarbandi. Hún og afi minn áttu þrjár dætur og misstu allt sitt í tvígang í kreppunni miklu. Þegar öll sund voru lokuð fluttu þau í tvö lítil herbergi undir súð sem klöngrast var upp í um lúgu í gólfinu, hér rétt við túnfótinn á Hlíðarenda í litlu húsi sem tilheyrði Eskihlíðarbóndabænum, þar sem kapellan stendur hér fyrir utan. Það voru engar atvinnuleysisbætur, engar húsaleigubætur, ekkert húsnæði.
Verk íslenskra jafnaðarmanna á ekki lengri tíma en æviskeiði mömmu minnar sköpuðu þau tækifæri sem gáfu þremur kynslóðum möguleika á að snúa töpuðu tafli í nýja von og endalaus tækifæri, sem enn sér ekki fyrir endan á. Þegar heimshagkerfið var hrunið og varnarleysi fólks gagnvart eyðileggingaröflum óhefts kapítalisma var algert bjuggu jafnaðarmenn um alla Evrópu til nýja sýn.
Hér á Íslandi eru þrjú nöfn tengd þessum stærstu áföngum: Héðinn hóf byggingu verkamannabústaða og skapaði húsnæðislausu fólki ný tækifæri, Vilmundur landlæknir mælti fyrir sjúklingatryggingum af meiri hugsjón en ég hef annars staðar séð og Haraldur Guðmundsson batt þær og lífeyristryggingar inn í eitt kerfi almannatrygginga. Síðar opnuðu jafnaðarmenn landið með aðild að EFTA og EES og komu á húsbréfakerfi sem leysti úr áratugalöngum vanda við húsnæðisfjármögnun.
Við nýttum okkur tækifærin sem sköpuðust við heimssögulega atburði kreppuna miklu og hrun járntjaldsins og mörkuðum Íslandi um leið stöðu í samfélagi þjóðanna. Við hnýttum saman viðskiptafrelsi og verðmætasköpun og varanlegar velferðarlausnir sem dugðu. Gildi okkar eru sígild, en leiðirnar sem við notum til að ná árangrinum breytast frá einum tíma til annars.
Endurkoma skapandi stjórnmála
Á ferðum mínum vítt og breitt um land undanfarna mánuði hef ég sannfærst um möguleikann á endurkomu skapandi stjórnmála með Samfylkingu sem burðarflokk.
En enginn vill halda áfram ónýtri stjórnmálahefð. Öll þráum við nýja sýn fram á veginn.
Nýbygging samfélags eftir hrun er heillandi verkefni jafnaðarmanna og við eigum að sækja umboð til raunverulegra grundvallarbreytinga. En breytingar verða ekki nema við greinum rétt aðstæður okkar, skiljum þau öfl sem við er að eiga og beitum bestu aðferðum við að finna lausnir. Annars upplifum við bara vonleysi og ráðleysi, þegar væntingar okkar verða að engu.
Viðfangsefni okkar eftir hrun voru til dæmis þess eðlis að ómögulegt var að útfæra eitthvert fullkomið réttlæti. Við sátum uppi með aðstæður og umgjörð, sem enginn gat breytt. Til að búa til Nýja Ísland þyrfti að vera hægt að skilja við fortíðina og byggja nýtt samfélag með sanngirnina eina í öndvegi.
Fjármálakreppur búa ekki til slíkt ástand heldur búa þær að öðru jöfnu til ósanngjarnar eignatilfærslur og óöld ofbeldis og upplausnar. Gjaldmiðillinn féll og skildi eftir óleysanlegan skuldavanda. Gildandi réttarreglur komu í veg fyrir bestu lausnirnar á honum. Efnahagsleg einangrun kom í veg fyrir aðgang að fjármagni og tafði uppbyggingu. Fleiri og fleiri hafa átt í erfiðleikum með að ná endum saman þegar skuldir og skattar hækkuðu en kaupmáttur og eignaverð lækkaði. Vonbrigði dagsins eru ekki áfellisdómur yfir okkur heldur óhjákvæmileg afleiðing aðstæðna. Til að takast á við vonbrigðin þurfum við fyrst og fremst að greina rétt stöðu okkar, styrkleika og veikleika. Leiðin út felst í að greina rétt og segja satt.
Samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna hefur um áratugaskeið byggst á hugmyndinni um þjóðarheimilið, þar sem allir eiga heima og eru metnir að verðleikum á eigin forsendum. Það er verkefni okkar nú að setja fram sýn um þjóðarheimili Íslendinga til komandi áratuga, því næsta kjörtímabil verður afdrifaríkur tími.
Á heimilinu verðum við að hafa frið. Frið til að hugsa, frið til að vinna, frið til að vera við sjálf. Við getum verið ósammála um aðferðir og leiðir, en við ræðum okkur að niðurstöðu. Hugmyndafræðilegar borgarastyrjaldir þar sem krafist er skilyrðislausrar hlýðni og að menn hlaupi hratt ofan í skotgrafirnar þegar kallið kemur, eiga ekki við á þjóðarheimili jafnaðarmanna.
Svarhvít heimsmynd er ekkert skemmtileg
Ég er að leita að leið upp úr þriðju skotgröf til vinstri, sagði Hallgrímur Helgason í frægri grein nýverið og sagðist óttast að skríða upp úr. Þannig líður okkur mörgum. Þannig getur þjóðarheimilið ekki verið.
Við megum ekki gleyma því öngstræti sem flokkastjórnmál á vinstri kantinum enduðu í við lok síðustu aldar. Hin svarthvíta heimsmynd var ekkert skemmtileg. Ekkert gott varð til af þeim dilkadrætti sem henni fylgdi. Við verðum að muna að við erum frjálshuga fólk sem forðast forskriftir og vill veita fólki vald yfir eigin lífi. Við óttumst ekki hinn frjálsa vilja fólks. Við tökum alvarlega hlutverk okkar sem vörslumenn almannafjár og teljum okkur ekki almennt betri og skynsamari til að fara með fé fólks en það sjálft. Við þurfum ekki að múra fólk inni í svarthvítum heimi, heldur viljum fjölbreytt samfélag fyrir fólk í lit.
Ein afleiðing umróts undanfarinna ára er að þjóðin væntir þess nú að koma að mikilvægum ákvörðunum sem varða framtíð hennar. Beint lýðræði hefur mikla kosti, en líka galla. Kostirnir eru augljósir og sáust best í Icesave-málinu. Engin ríkisstjórn hefði getað hafnað því að reyna samninga í erfiðri milliríkjadeilu, en það er margþekkt í evrópskri stjórnmálasögu að þjóðin hefur alvald í þjóðaratkvæðagreiðslu og engin ríkisstjórn fær ráðið við það. Því skapaðist jákvætt samspil milli stjórnvalda, þings og þjóðar, þar sem þjóðin setti stjórnvöldum og þingi fyrir að vanda betur til samninga ef þeir ættu að hljóta samþykki hennar. Þegar á hólminn kom taldi hún samt réttara að borga ekki, nema að undangengnum dómi. Það er mjög málefnaleg afstaða, sem ég hef alltaf skilið afar vel.
En beint lýðræði getur, í sinni ýktustu mynd, orðið tæki sérhagsmunaafla til að hertaka þjóðmálaumræðu með miklu skipulagi og yfirgnæfandi hávaða. Ef beint lýðræði á að virka vel, þarf stjórnmálaflokka með fjölbreyttar rætur sem næra og byggja upp þjóðfélagsumræðuna. Þess vegna er hlutverk Samfylkingarinnar og annarra fjöldahreyfinga svo mikilvægt. Við eigum að nýta fjölbreytileika flokksins til að þróa nýtt verklag og nýja sýn um samspil fulltrúalýðræðis og þjóðaratkvæðis sem nærir hvort tveggja: upplýsta umræðu og beina þátttöku almennings. Flokkurinn á að vera vettvangur kraftmikillar umræðu sem veitir kjörnum fulltrúum okkur stoð í ákvarðanatöku OG upplýsir og styrkir félaga okkar þegar úrskurður er settur í þeirra hendur í íbúakosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þannig verður flokkurinn fjöldahreyfing í þjónustu almannahagsmuna og lýðræðis hvort sem fleiri taka ákvörðun eða færri.
Takmarka þarf völd stjórnmálamanna
Við þurfum að sækja fram með nýja sýn um stjórnkerfisumbætur, trú gildum okkar um stjórnfestu og vönduð vinnubrögð. Við þurfum að festa í sessi markmið um efnahagslegan stöðugleika og koma í veg fyrir að við getum með skammsýnum ákvörðunum kollvarpað honum. Við þurfum að takmarka völd stjórnmálamanna til að taka ákvarðanir án efnislegs rökstuðnings. Við þurfum að afnema áhrif stjórnmálanna í ákvörðunum sem eiga að vera hafnar yfir flokkastjórnmál, eins og til dæmis við ráðningar embættismanna. Við skuldum nýrri kynslóð Íslendinga að geta sótt um starf í stjórnsýslu ríkisins og vera frjáls undan því að flokkspólitískur ráðherra taki ákvörðun um ráðningu.
Við þurfum að auka veg kynjasjónarmiða og skilja af hverju okkur hefur of lítið miðað. Hagkerfi sem drepur þekkingarstörf vinnur skipulega gegn afli kvenna í atvinnulífinu. Þannig er krónuhagkerfið úr garði gert. Fyrir vikið þvingumst við í nýjar og nýjar stórkarlalegar framkvæmdir og verðum alltaf jafn hissa þegar ný og ný átaksverkefni eru kynnt og það eina sem býðst eru grá karlastörf. Efnahagslegur stöðugleiki er alger forsenda atvinnufrelsis og bættrar samkeppnisstöðu kvenna á hinum almenna vinnumarkaði.
Við þurfum að nýta ný tækifæri í velferðarmálum og skilja samhengi þeirra og hallrar stöðu kvenna á vinnumarkaði. Við þurfum fjölbreyttari lausnir fyrir fólk með ólíkar þarfir. Við viljum öll góða þjónustu, en við viljum líka öll þjónustu sem hæfir þörfum okkar, hvers um sig.
Við höfum riðið á vaðið með notendastýrða persónulega þjónustu fyrir fatlaða, en það þarf að auka hana og færa fleirum það vald yfir eigin lífi sem allir þrá. Við viljum öll lifa lífi í lit. Með sama hætti verðum við að vera á varðbergi gagnvart þeim hættum sem í slíkum breytingum felast. Með löngum biðlistum og auknu framboði í orði kveðnu á heimaþjónustu höfum við fært alltof mikla ábyrgð af umönnun sjúkra og aldraðra yfir á ættingja og maka, í ríkari mæli konur en karla.
Afleiðingin er alger öfugþróun frá þeirri hugmyndafræði sem lá að baki Velferðarríki jafnaðarmanna í upphafi: Í stað þess að ríkið axli ábyrgð af umönnun og greiði fyrir hana úr sameiginlegum sjóðum og frelsi konur undan ólaunuðum umönnunarstörfum bjóðum við ástvinum upp á að bera sífellt meiri byrðar af launalausri umönnum með ættingjum. Slíkt er hörmuleg afturför í kvenfrelsisbaráttu og óásættanlegt fyrir velferðarflokk. Við eigum að verðmeta rétt þá velferðarþjónustu sem veita á og vera tilbúin að greiða sannvirði fyrir hana úr sameiginlegum sjóðum.
Tilbúinn að hlusta á allar hugmyndir um lausnir
Í húsnæðismálum stendur heil kynslóð frammi fyrir óleystum vanda. Eitt er skuldavandinn sem heldur mörgum í helgreipum ofveðsetningar. Það er ekki ásættanlegt að gefa ekki skýr svör um hvort lausna sé að vænta í afmörkuðum málum, eins og lánsveðsmálunum.
Ég er tilbúinn til að hlusta á allar hugmyndir um lausnir á skuldavandanum, en veit af biturri reynslu að hann er of umfangsmikill til að honum verði létt af öllum án þess að hann verði færður á aðra sársaukalaust og ég veit líka að allar nýstárlegar úrlausnir munu reyna á þanþol stjórnarskrárinnar. En ég er til.
Hitt er sú staðreynd að fjöldi ungs fólks getur hvorki leigt né keypt. Einkavæðing verkamannabústaðakerfisins voru mistök og það var rangt að breyta forsendum húsbréfakerfisins og Íbúðalánasjóði í banka. Það er ekki okkar hlutverk að standa vörð um slík mistök. Við verðum að axla það verkefni sem Héðinn og Jóhanna gerðu á sinni tíð, að færa nýrri kynslóð sýn um farsæla lausn á alvarlegum vanda og tryggja húsnæðisöryggi allra. Eitt af því sem laskaðist í hinu meinta góðæri síðasta áratugar er kerfið sem jafnaðarmenn byggðu upp til að venjulegt fólk gæti eignast þak yfir höfuðið. Okkur í Samfylkingunni ber skylda til að endurreisa það.
Í atvinnumálum verðum við að sýna í verki að við meinum það sem við segjum um fjölbreytt, grænt þekkingarhagkerfi og valkosti við hið gráa stóriðjuhagkerfi gengins tíma. Við verðum að styðja við verk- og tæknimenntun og setja í forgang fjárframlög til hennar. Það er ófært ástand að hér vanti allt að 1000 verk- og tæknimenntaða einstaklinga á sama tíma og þúsundir ganga atvinnulausar. Með sama hætti verður skattkerfið að styðja við græna þekkingarhagkerfið og hætta að skattleggja þekkingu umfram önnur aðföng fyrirtækja. Hátt tryggingagjald er ekkert annað en skattur á þekkingu og leggst þyngst á þekkingarfyrirtækin, þar sem laun eru stærstur hluti útgjalda. Við verðum að setja lækkun tryggingagjalds í algeran forgang, þegar kemur að næstu skattbreytingum.
Í byggðamálum þarf jafnaðarflokkur Íslands að sinna réttindum íúa landsbyggðanna vegna þess að fólk í í landsbyggðunum býr við lakari kjör, minni áhrif og lakari félagslega stöðu. Það er sígilt jafnréttismál að jafna þann aðstöðumun. Við þurfum alvöru byggðastefnu og almennar aðgerðir í ætt við jöfnun flutningskostnaðar, sem ég fékk afgreitt sem mitt síðasta frumvarp sem ráðherra, til að jafna samkeppnisstöðu landsbyggðanna. Samgöngubætur og fjarskipti verða áfram lykilverkefni á næstu árum.
Og í efnahagsmálum verður fyrsta verkefni næstu ríkisstjórnar að tryggja þjóðarsátt um efnahagslegan stöðugleika og fá alla saman í það verkefni að afneita efnahagslegum kollsteypum sem bjargráðum við efnahagsvanda.
Heimsmál eru heimamál
Hrunið færði okkur heim sanninn um að Ísland er ekki lengur fjarri heimsins vígaslóð. Heimsmál eru heimamál, sagði Ingibjörg Sólrún oft. Skyndilega upplifðum við að Ísland var ekki varið af nokkurri sérstöðu eða fjarlægð. Við vorum þvert á móti þátttakandi og meira að segja gerandi í heimsviðburðum. Öryggi okkar var allt í einu samþætt öryggi fólks í öðrum löndum. Og það sem var mesta áfallið: Aðgerðir okkar eða aðgerðaleysi höfðu áhrif á efnahagslegt öryggi fólks í öðrum löndum. Gjaldþrot íslensks banka skapa tugþúsundum erlendra innstæðueigenda ótta um afkomu sína.
Við skulum ekkert fela það: Við finnum öll léttinn nú þegar Icesave-málið er að baki. Skömm okkar yfir því máli og ótti okkar yfir málalyktum hafði þrúgandi áhrif á allt samfélagið allt frá hruni.
Öryggi okkar er þannig nú órofa tengt alþjóðlegum atburðum. Ísland er í Evrópu og sækir þangað mestan hluta sinna tekna. Það voru sömu efnahagskraftar og valdið hafa evruríkjum vanda sem ollu hruni hér. Offramboð ódýrs lánsfjár hafði sömu skaðlegu efnahagsáhrifin hér og öðrum löndum, þandi út eignabólur og fjármálakerfi og jók skuldsetningu þjóðanna. Og veröldin smækkar stöðugt: Flóttamannavandi er nú loks orðin umfjöllunarefni íslenskra fjölmiðla og kannski skilst okkur einhvern tíma að atburðir í öðrum löndum hafa bein áhrif á öryggi okkar í smáu og stóru. Engin leið er að loka landi sem byggir efnahag sinn á að taka á móti nærri milljón ferðamönnum á hverju ári.
Eina lausnin er alþjóðleg samvinna.
En við getum ekki rætt evrópumál eins og áhorfendur á útlenda sápuóperu sem spyrja útlendinga sem hingað koma: Hvað er á seyði í Evrópu? Hvernig eruð þið að taka á þessu eða hinu? Við erum ekki áhorfendur. Við erum með hlutverk í þessari sápuóperu, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Við getum kosið að gera ekkert, en aðgerðaleysi okkar ver okkur ekki gegn neikvæðum afleiðingum, eins og dæmin sanna.
Hrunið og Icesavemálið staðfesta mikilvægi þess að við skilgreinum rétt hagsmuni Íslands og berjumst fyrir þeim á evrópskum vettvangi. Við viljum ekki verða aðilar að Evrópusambandinu til að sitja þar á forsendum annarra. Við viljum verða fullgildir aðilar því við trúum því að íslenskum hagsmunum sé best gætt með því að við séum við borðið þegar ráðum er ráðið.
Ísland tók réttar ákvarðanir haustið 2008 og okkur auðnaðist að hlífa almenningi við því tjóni sem hefði getað orðið. Evrópusambandið hefur þegar mótað nýjar reglur til að bregðast við slíkum aðstæðum og er enn að. Flest bendir til að það verði okkur hentugt að vera aðilar að nýju bankasambandi sem felur í sér sameiginlegan gjaldmiðil, innstæðutryggingingakerfi þvert á landamæri og sameiginlegan lánveitanda til þrautavara. En hættan er sú að áframhaldandi vera okkar í EES leiði til þess að við tökum búta og búta hins nýja regluverks upp, án þess að fá aðild að stofnunum sem ákvarðanirnar taka og séum þá í þeirri stöðu að hafa afsalað okkur fullveldi okkar til að grípa aftur til hliðstæðra ákvarðana og nýttust okkur svo vel í hruninu, ef hliðstæðar aðstæður rísa á nýjan leik.
Og án sameiginlegs gjaldmiðils er veruleg hætta á að þær aðstæður skapist. Það er mikil áhætta. Þess vegna skiptir miklu að við nálgumst spurninguna um aðild út frá því hvernig við getum best verið aðilar að hinu evrópska samstarfi og tryggt að við gætum á sama tíma sem best fullveldisréttar Íslands til að hafa úrslitaáhrif á grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Ef spurt er á þann veg, er svarið augljóst: Full aðild er best.
Skipulegt arðrán á íslensku launafólki
Ég hef ekki þreyst á að minna á að saga íslenskrar krónu er saga skipulegs arðráns á íslensku launafólki. Árið 1901 fagnaði verkafólk því að fá laun í gjaldgengum gjaldmiðli og naut þess ávinnings í 19 ár, þar til að krónan var aftengd gullfætinum og hinni dönsku krónu. Í þessi 19 ár naut íslenskt launafólk semsagt gengistryggðra launa ég endurtek gengistryggðra launa!! Hver myndi ekki þigga þau kjör í dag?
Hver er höfuðkrafa ASÍ í dag? Jú, fast gengi.
Þrátt fyrir baráttu okkar og verkalýðshreyfingarinnar í 100 ár höfum við ekki náð sama peningalega öryggi og íslenskt launafólk bjó við fyrir 100 árum! Ég hef líka minnt á það rótarmein sem gjaldmiðillinn er og hvernig úrlausn allra okkar þjóðþrifamála skuldavandans, einhæfni í atvinnuháttum, veikrar stöðu landsbyggðar og lítillar fjárfestingar hangir á því að við losnum við skaðleg áhrif þessa meins.
Við viljum nefnilega ekki verða aðilar að Evrópusambandinu til að fórna hagsmunum þjóðarinnar og við viljum ekki taka upp evrópskar reglur, ef þær henta ekki íslenskum þjóðarhagsmunum. En í evrópsku samstarfi felast tækifæri til samfélagsbreytinga sem við jafnaðarmenn skuldum íslenskri þjóð. Við verðum að fá laun í sama gjaldmiðli og við skuldum í, eins og fólk naut fyrir réttum 100 árum hér á landi.
En krásir fljúga ekki í munn manns í svefni: Við gengum ekki í EES vegna þess að það var ákveðið að búa til EES við Austurvöll: EES varð til vegna hrikalegra flekaskila í alþjóðamálum hruns járntjaldsins sem við nýttum okkur. Nú er deigla á nýjan leik í Evrópu. Icesave-málið mun hafa áhrif á varnarviðbúnað Evrópuríkja. Við eigum að læra af þeim veikleikum sem komu í ljós í hruninu og taka okkur stöðu í þessari deiglu til að verja íslenskt launafólk fyrir skaðlegum áhrifum lítils gjaldmiðils í ólgusjó frjálsra fjármagnsflutninga. Ef við gerum það ekki, harðnar steypan og skapar okkur nýjan veruleika sem mótar líf okkar, en á þess að við höfum haft á hann áhrif. Örlög okkar eru í okkar höndum.
Amma mín og afi fengu að lokum notið ávaxtanna af verkum jafnaðarmanna, rétt eins og mamma mín og ég höfum síðan ríkulega gert. Verkin skipta ein máli, ekki góður vilji og um þau snýst dómur sögunnar. Almannatryggingarnar. Verkamannabústaðirnir. EES-samningurinn. Og þau náðust í höfn því hreyfing okkar las rétt í samfélagsþróun og nýtti sér lag sem grundvallarbreytingar á samfélagsskipan og þróun alþjóðamála sköpuðu okkur. Í kjölfar kreppu var leitað fyrirmynda um þjóðarheimili, almannatryggingar og húsnæðisöryggi: Í kjölfar hruns járntjaldsins var stokkið í glufu sem opnaðist í vestrænni efnahagssamvinnu.
Kyrrstaða er ekki valkostur
Kyrrstaða er ekki valkostur. Ef við þróum ekki áfram velferðarkerfi til að takast á við nýjar kröfur um góða þjónustu og mætum væntingum fólks um vald yfir eigin lífi eykst fylgi við tvöfalt velferðarkerfi og forgang þeirra sem meira hafa milli handanna og gæði hins opinbera kerfis rýrna. Ef við mætum ekki nýjum hættum í efnahagsumgjörðinni getum við gert okkur berskjölduð fyrir öðru hruni og flæmt vaxtarbrodda úr landi. Vondir hlutir gerast sjaldnast vegna þess að sérhagsmunaöflin taka ákvörðun um láta sérhagsmunina í forgang: Þeir gerast oftar þegar jafnaðarmenn treysta sér ekki til að hafa mótandi áhrif á samfélagsþróunina og þora ekki að takast á við nýjar ógnir og ný verkefni.
Við lifum heimssögulega tíma. Við þurfum að skilja það og rísa undir þeirri ábyrgð sem því fylgir, rétt eins og þeir brautryðjendur sem við lítum mest upp til gerðu á sinni tíð. Okkar bíður ný sókn, því kyrrstaða er ekki valkostur.
Í vor verður kosið um þessa mynd sem kannski má einfalda með fjórum orðum: Lífskjör, leikreglur, tækifæri og lífsgleði. Við verðum með verkum okkar að gera fólki fært að búa hér við samkeppnishæf lífskjör, skýrar leikreglur og tækifæri til að móta eigin líf. Forsendur þess hef ég hér rakið. En við verðum líka að hafa gaman af þessu. Við finnum til dæmis öll léttinn þegar Icesave er loksins leyst. Leyfum okkur bara að anda léttar og njóta þess að hafa haft í því máli sanngjarnan sigur.
Við verðum að hafa trú á framtíð í þessu landi og metnað fyrir hönd þeirra sem hér eiga að taka við eftir að við verðum öll horfin af sviðinu nema kannski Jóhanna.
Verk okkar næstu misserin verða að styðja við framtíð þeirra og gera þeim kleift að finna kröftum sínum viðnám, draumum sínum stað og sköpunargleði sinni farveg. Og við eigum að treysta fólki og hvetja það til að skapa eigin framtíð. Áhætta er ekki vond alla daga er fólk að hætta sparnaði sínum eða leggja íbúðina sína að veði til að láta drauma sína rætast og skapa eitthvað nýtt okkur öllum til góðs. Þekking og skapandi greinar vaxa sem aldrei fyrr. Útrás er ekki alvond erum við ekki öll bullandi stolt af Of Monsters and Men?
Það er þetta sem er kosið um í kosningunum í vor. Við blásum til sóknar til að skapa fjölbreytt tækifæri og gott líf í þessu landi fyrir fólk í lit. Ég hlakka til að leiða þá sókn með ykkur í kosningunum í vor.
Þakka ykkur fyrir
Kyrrstaða er ekki valkostur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Facebook
Nýjustu færslur
- 22.10.2017 Nokkrar staðreyndir um skattaþróun í tíð hægristjórna
- 29.11.2016 Auðvita er leiðiinlegt að fyrirtækið skuli vera lent í þessu!...
- 7.11.2016 Á meðan að almenningur almennt á ekki kost á svona fyrirkomul...
- 6.11.2016 Garðabær er nú ekki til fyrirmyndar í málefnum þeirra sem þur...
- 1.11.2016 Halló er ekki allt í lagi á Mogganum?
- 30.10.2016 En jafnaðarmennskan hverfur ekkert!
- 29.10.2016 Hönd flokksins
- 29.10.2016 Þetta á erindi við kjósendur
Eldri færslur
- Október 2017
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
Tenglar
ESB
Samfylkingin
Maggi B er flokksbundinn samfylkingarmaður í Samfylkingarfélaginu í Kópavogi
Teljari
Tenging við twitter
Um bloggið
Vettvangur Magga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
RSS-straumar
RSS
Hvað er nýtt
RUV
- Augnablik - sæki gögn...
DV
- Augnablik - sæki gögn...
Visir.is
- Augnablik - sæki gögn...
Pressan
- Augnablik - sæki gögn...
Pressan Kaffistofa
- Augnablik - sæki gögn...
Af Eyjunni fréttir
- Augnablik - sæki gögn...
Bloggvinir
- Ingibjörg Hinriksdóttir
- Guðni Már Henningsson
- Kristbjörg Þórisdóttir
- Kristbjörg Þórisdóttir
- Samfylkingin Norðvesturkjördæmi
- Gísli Tryggvason
- Guðríður Arnardóttir
- Guðmundur Magnússon
- Hlynur Hallsson
- Kristján Pétursson
- Vefritid
- Bjarni Harðarson
- Davíð
- Ólöf Ýrr Atladóttir
- Björn Benedikt Guðnason
- Sigurlín Margrét Sigurðardóttir
- Egill Rúnar Sigurðsson
- Hlynur Halldórsson
- Tómas Þóroddsson
- Adda bloggar
- Killer Joe
- Tíðarandinn.is
- Þórður Steinn Guðmunds
- Kolbrún Jónsdóttir
- íd
- Haukur Nikulásson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Sigfús Þ. Sigmundsson
- Bleika Eldingin
- Sigurður Sigurðsson
- Inga Lára Helgadóttir
- Björn Emil Traustason
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Björn Heiðdal
- krossgata
- Þröstur Friðþjófsson.
- S. Lúther Gestsson
- Sigurjón Sigurðsson
- Guðrún Helgadóttir
- Jón Ragnar Björnsson
- gudni.is
- Jakob Falur Kristinsson
- Sæþór Helgi Jensson
- Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
- Félag Ungra Frjálslyndra
- Alfreð Símonarson
- Hlekkur
- Þorsteinn Briem
- Jonni
- Torfusamtökin
- Gulli litli
- Sigurður Sigurðsson
- Helena Sigurbergsdóttir
- Elías Stefáns.
- viddi
- Oddrún
- Jón Gunnar Bjarkan
- Heimir Eyvindarson
- Himmalingur
- Eygló
- Hólmfríður Bjarnadóttir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Ólafur Ingólfsson
- Rúnar Þór Þórarinsson
- Styrmir Reynisson
- Helga Kristjánsdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Ingimundur Bergmann
- Loftslag.is
- Kjartan Jónsson
- Brattur
- Gunnar Helgi Eysteinsson
- Högni Snær Hauksson
- Jack Daniel's
- Kama Sutra
- Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
- Ómar Bjarki Smárason
- Stefán Júlíusson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.