Leita í fréttum mbl.is

Vilhjámur Þorsteinsson segir af sér sem gjaldkeri Samfylkingar

Hann skýrir ákvörðun sína á heimsíðu sinni mjög vel og hefur ekkert skv. því að fela:

Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga mínum. Félagið var svo selt á 10. áratug síðustu aldar til erlends hugbúnaðarfyrirtækis fyrir ágætis upphæð í sterlingspundum. Síðan þá hef ég verið vel settur fjárhagslega. Eignir mínar hafa að mestu leyti verið ávaxtaðar innan félags sem ég á í Lúxemborg – eins og er fullkomlega heimilt skv. „fjórfrelsi“ evrópska efnahagssvæðisins.

Félagið hefur vitaskuld alltaf verið gefið upp á skattskýrslum og íslensk skattyfirvöld hafa getað farið fram á að sjá ársreikning þess, sem þau hafa a.m.k. einu sinni gert til að sannreyna arðgreiðslu.

Félagið er venjulegt fullskattlagt hlutafélag og greiðir 21,84% tekjuskatt í Lúxemborg. Íslensk hlutafélög greiða 20%. En mikilvægt er að benda á að söluhagnaður af hlutabréfum, t.d. ef fjárfesting reynist góð og er seld með hagnaði – sem er meginuppistaðan í ávöxtun félags míns frá upphafi – er ekki tekjuskattskyldur hjá íslenskum hlutafélögum. Það er þannig m.a. til að komast hjá margsköttun. (Slíkur hagnaður er skattskyldur í nokkrum tilvikum, en ekki öllum, í Lúxemborg.)

Félagið í Lúxemborg á dótturfélag á Íslandi sem heldur utan um flestar fjárfestingar mínar hér. Það á jafnframt dótturfélag á Kýpur utan um tilteknar hlutabréfaeignir. (Það fyrirkomulag kemur til vegna reglna um skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í Lúxemborg, og er í samræmi við bindandi álit sem leitað var eftir hjá skattyfirvöldum í Lúxemborg og þau samþykktu.)

Hvernig borga ég þá skatta?

Ég borga auðvitað alla skatta og skyldur sem mér ber og hef alltaf gert; í gegn um tíðina töluverðar upphæðir í sjóði íslenska ríkisins, sem ég tel ekki eftir mér.

Ég greiði að sjálfsögðu tekjuskatt af launum sem ég fæ; ég borgaði auðlegðarskatt (sem reiknast af öllu eigin fé félagsins í Lúxemborg) meðan hann var og hét (og sem ég er almennt fylgjandi); og ég borga fjármagnstekjuskatt af öllum arði sem tekinn er út úr félaginu.

Síðastnefndi liðurinn er grundvallaratriði því hann þýðir að 20% af eignum félagsins og ávöxtun þeirra (m.v. núverandi skattprósentu) munu með tíð og tíma renna til íslenska ríkisins, eftir því sem þeim er komið í verð og þær greiddar út í arð – að því gefnu að ég sé íslenskur skattþegn, sem ég er og hyggst vera. Sú staðreynd er algerlega óháð því að félagið er í Lúxemborg.

Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis. Ef við værum í ESB og með evru væri engin ástæða að hafa svona félag annars staðar en á Íslandi. Á hinn bóginn hefði það verið félaginu mjög erfitt, og nánast ómögulegt, að starfa eins og það gerir ef það hefði verið íslenskt félag undir íslenskum gjaldeyrishöftum. Nógu erfið hafa höftin verið samt.

Félagið átti ekki kröfur á íslensku bankana og það notfærði sér ekki fjárfestingarleið Seðlabankans.

Sem sagt: Persónulegar skattgreiðslur mínar eru nákvæmlega þær sömu og ef eignarhaldsfélagið hefði verið íslenskt. Félagið sjálft greiðir hærri tekjuskatt í Lúxemborg en það hefði gert á Íslandi, sérstaklega þegar það er haft í huga að söluhagnaður hlutabréfa er ekki skattskyldur í íslenskum félögum. Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis.

Ég er svo heppinn að vera vel stæður, og tilheyri eflaust hinu fræga 1%. En ég er líka jafnaðarmaður að lífsskoðun, styð öflugt velferðarkerfi og samhjálp og að þeir sem mest eiga greiði sanngjarnan, og þá meina ég ríflegan, skerf til samfélagsins.

En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu.

Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.

Og síðan tilkynnir að hann sé hættur sem gjaldkeri flokksins. Hvað gera nú aðrir sem nefndir verða í Kastljósi Sunnudagins.


mbl.is Telur að stjórnin standist tillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Mjög sennilega gera þau ekkert, hanga á völdunum eins hundur á roði.

Jónas Ómar Snorrason, 31.3.2016 kl. 05:34

2 identicon

Vilhjálmur Þorsteinsson er maður að meiru, hann hefur gert það sem ráðherrar hægri öfga stjórnarinnar ættu fyrir löngu að vera búnir að gera, að segja af sér og skammast sín.

En það er ekki við því að búast að siðferðið sé á háu stígi hjá þessum ráðherrum og flokkum þeirra, þar hefur siðferði aldrei verið hátt skrifað.

Því er ekki annað í stöðunni en að fylkja liði eftir helgi og mæta á Austurvöll og láta vél í sér heyra og láta þessa siðlausu ráðherra hægriöfga stjórnarinnar vita, að þeir þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 31.3.2016 kl. 08:10

3 identicon

Vilhjálmur hlýtur að verða gestur hjá Dr. Phil

Dr. Phil er samþykktur samviskuáttaviti Samfylkingarinnar

því ekki má vísa til guðstrúar

þó samvisku sé að finna í Nýja Testamentinu

sem  börnunum er bönnuð afhending á

Grímur (IP-tala skráð) 31.3.2016 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband