Leita í fréttum mbl.is

Nokkur atriði í yfirlýsingu Hagsmunasamtaka heimilana sem hægt er að gera athugasemdir við

Þessi yfirlýsing er held ég varla nógu vel hugsuð hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Nokkur atriði t.d.

Þarfir lántakenda snúast ekki síst um réttlæti og að jafnræðis sé gætt.  Fram hefur komið, að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram það sem bar lögum samkvæmt.  Einnig að komið var til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum.  Spyrja má um kostnað í því samhengi (800 milljarðar hafa verið tilgreindir).  Með þessu móti var gert upp á milli sparnaðarleiða, þar sem þeir sem settu sparifé sitt í fasteign, hlutabréf og lífeyrissjóði horfa á það ýmist brenna upp á verðbólgubáli eða vegna eignartaps tengt hruni bankanna.  Samtökunum finnst einkennilegt að taka eina eða tvær sparnaðarleiðir út úr og veita þeim vernd umfram aðrar leiðir.  Minna má á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin snerist í miklu mæli um að vísa lántakendum í áhættusamar lánveitingar í formi gengistryggðra lána á þeirri forsendu að gengið væri stöðugt.

Samtökin hljóta að gera sér grein fyrir því að verið er að tala um sama fólkið oft á tíðum. Þ.e. fólk sem þeir segja að hafi verði hyglað eins og innistæðueigendum og fólki sem átti peninga í peningamarkaðssjóðum, áttu væntanlega líka íbúðir og íbúðarskuldir og peninga í lífeyrissjóð. Síðan finnst mér hæpið að kalla íbúðarkaup sparnaðarleið! Það að taka 30 milljónir að láni getur varla verið sparnaðarleið. Hugsanlega hægt að tala um það sem fjárfestingu en staðreyndin er að á löngum tímum hefur lítil ávöxtun verið á þannig fjárfestingum. Nema nú síðustu ár. Frá því verðtryggingin kom hafa lánin hækkað fyrstu 20 árin langt umfram hækkun á verðgildi íbúða.

Verði ekki breyting á stefnu stjórnvalda og viðhorfi fjármálastofnana, mun sverfa til stáls.  Hagsmunasamtök heimilanna munu ekki sitja hjá hljóðalaust og horfa á þjóðfélagið sökkva niður í botnlaust skuldafenið.  Samtökin munu ekki sætta sig við að fasteignir heimilanna og fyrirtækin í landinu verði notuð til að fjármagna bankakerfið

Ég spyr ef að atvinnulífið og og heimilin eiga ekki að fjármagna bankana í landinu sem við eigum nú, hverjir þá? Og hvað eiga þau við með þessu:

Nei, það er gert með því að koma til móts við heimilin og atvinnulífið og færa niður vexti og höfuðstól lána.  Og ekki síður með því að færa niður ósanngjarnar og ofteknar verðbætur frá 1. janúar 2008 og leiðrétta höfuðstól gengistryggðra lána miðað við sömu dagsetningu.

Skv. þessu á að lækka höfuðstólinn, lækka verðbætur frá 1. jan 2008 og lækka vexti. Ég hélt að fólk væri bara að horfa á einn af þessum þáttum. Og hvað eru ofteknar verðbætur? Eiga bankar þá að rukka inn allar ofgreiddar verðbætur á innistæður líka? 

Finnst það furðuleg hugmyndafræði hjá samtökunum að líta svo á að heimilin og fyrirtækin séu þau einu sem eigi að bera birgðir. Og tala um fjarmálastofnanir eins og þær séu eitthvað sjálfstætt afl sem ekki hafi þurft að taka á sig. Það væri kannski rétt hjá samtökunum að gera sér grein fyrir að bankarnir eru ekki enn komnir með sjálfstæðan fjárhag að því leiti að staða þeirra er ekki komin á hreint. Og eins að við eigum þessa banka. Og héðan í frá næstu misseri eru peningakerfið í landinu þannig að lækkun á lánum hjá fyrirtækjum nú þýðir hækkun á sköttum á næsta ári hjá okkur. Því að við þurfum að leggja þessum bönkum til eigið fé.

Og eins þá hljóta Hagsmunasamtökin að sjá að trygging á innistæðum þýðir ekki að ríkið þurfi að borga þær. Þessi trygging var sett til að ekki yrði áhlaup á bankana hér og hefur virkað. Fólk hefur ekki tekið út stóran hluta sparnaðarins og því hefur ríkið ekki greitt neitt af því.


mbl.is Málsókn til varnar heimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nokkrar athugasemdir við athugasemdir.

Það að taka 30 milljónir að láni getur varla verið sparnaðarleið.

Langflestir sem keypt hafa sér húsnæði, hafa lagt háar upphæðir af eiginfé í þá fjárfestingu.  Maður sem keypti segjum 50 milljón kr. hús, lagði 20 milljónir af eiginfé og tók 30 milljónir að láni árið 2005, á í dag líklega innan við 10 milljónir í eiginfé í dag.  Hann er búinn að tapa 10 milljónum af sparnaði sínum í formi hækkunar höfuðstóls lánsins (miðað við verðtryggt lán) þar af um 6 milljónir á síðasta ári einu.   Tapið er ennþá meira þegar haft er í huga að viðkomandi er búinn að greiða einhverjar 4 - 5 milljónir af láninu í formi afborgana, vaxta og verðbóta á þessum tíma.

Ég spyr ef að atvinnulífið og og heimilin eiga ekki að fjármagna bankana í landinu sem við eigum nú, hverjir þá?

Fjármögnun bankanna á ekki vera í formi eignaupptöku og hafa þær afleiðingar að atvinnulífið og heimilin verði gjaldþrota.  Það á að vera í formi innlána og peninga í sjóðum.  Eigið fé bankanna á að koma frá eiganda þess, ekki viðskiptavina.

Skv. þessu á að lækka höfuðstólinn, lækka verðbætur frá 1. jan 2008 og lækka vexti. Ég hélt að fólk væri bara að horfa á einn af þessum þáttum. Og hvað eru ofteknar verðbætur? Eiga bankar þá að rukka inn allar ofgreiddar verðbætur á innistæður líka?

Sum lán eru verðtryggð önnur ekki.  Því þarf að fara beint í höfuðstól sumra lánaa, en í öðrum tilfellum er skynsamlegt að fella niðurverðbætur að hluta eða öllu á ákveðnu tímabili. Annars er vandamál íslenska kerfisins, að lánveitendur (hvort heldur fjármálafyrirtæki eða innistæðueigendur) eru tryggðir í bak og fyrir.  Þeir taka aldrei áhættu.  Jú, reyndar gerðu þeir það.  Þ.e. inneignir á innistæðureikningum voru bara tryggðar upp að EUR 20.887, þar til að neyðarlögin voru sett.  Þá greip ríkisstjórnin inn í tryggði allt upp í topp.  Ég myndi halda að þeir sem fengu slíka gjöf hafi alveg efni á því að gefa eftir verðbætur í svo sem eitt ár.

Og eins þá hljóta Hagsmunasamtökin að sjá að trygging á innistæðum þýðir ekki að ríkið þurfi að borga þær.

Nei, ríkið þarf ekki að borga þetta.  Það eru skattgreiðendur og kröfuhafar.  Annars er auðvelt að snúa út úr.  Þar sem ég ritaði lokaútgáfu skjalsins, þá veit ég vel hvað í því stendur.  Hagsmunasamtök heimilanna segja hvergi, að ekki hafi átt að tryggja innistæðurnar.  Þau hafa aldrei sagt það og munu aldrei halda því fram.  Samtökin eru að benda á mismunina sem felst í því að verja eitt sparnaðarform að fullu, annað að hluta, en láta öll önnur reka á reiðanum.

Mér finnst að þú ættir frekar að beina kröftum þínum að því að berjast fyrir hagsmunum heimilanna innan Samfylkingarfélags Kópavogs en að agnúast út í baráttu þeirra einu aðila sem berjast fyrir heimilin í landinu.  Ég hitti í hverri viku fólk sem horfir ofan í hyldýpið.  Algengasta vandamál í dagvöruverslunum í dag er að greiðslukortum sé hafnað.  Fólk hefur ekki haft efni á að greiða greiðslukortaskuldir sínar um síðustu mánaðamót.  Velta í verslunum hefur dregist saman um 30% miðað við fast verðlag.  Mjög margir eru hættir að greiða af lánum.  Það er að styttast í neyðarástand.

Marinó G. Njálsson, 13.4.2009 kl. 13:31

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Við verðum að taka höndum saman og skoða þessi mál algjörlega þvert á allar  flokkslínur og finna leið sem hægt er að fara. Vil minna á að Hagsmunasamtök heimilanna eru þverpólitísk samtök og eru ekki með neinu móti njörvuð í stefnur flokkanna. Að færa vísitöluna aftur til 1.  jan. 2008 er sú niðurstaða sem fólk innan þeirra hefur komist að og gert tillögur um. Það hlýtur að segja nokkuð um stöðuna og ég er þess fullviss að þessi mál hafa verið rædd fram og aftur áður en þetta varð niðurstaðan.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 13.4.2009 kl. 14:17

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Félagi Magnús, vil taka það fram að ég er flokksbundin í Samfylkingunni og hef verið með "stjórnmálavírusinn" frá barnæsku. Ég tel mig vera Jafnaðarmann og aðhyllist í heildina stefnumál Samfylkingarinnar. 

Sú hugmynd um að lækka með einhverju móti byrgðar þeirra skuldugu (20% eða færa vísitölu) hefur ekki látið mig í friði og ég er samfærð um að hún er fær með einhverju móti.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 13.4.2009 kl. 14:23

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Marínó ég fór á heimasíðu Hagmunasamtaka Heimilanna og þar stendur:

  Fram hefur komið, að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram það sem bar lögum samkvæmt.  Einnig að komið var til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum.  Spyrja má um kostnað í því samhengi (800 milljarðar hafa verið tilgreindir).

Þetta tók ég sem að þið álítið þetta kostnað við innistæður og peningamarkaðsreikninga. Og ég ítreka að í þessum punktum frá ykkur þá talið þið um að þeir sem áttu innistæður og peningamarkaðsbréf séu ekki íbúðareigendur líka. Og eins þá gleymið þið því að þeir sem áttu peninga á peningamarkaðsbréfum töpuðu a.m.k. 25% af þeim.

Ég sjálfur á ekki íbúð í dag. Bý í Búsetakerfinu. Ég hinsvegar keypti íbúð 1988 með húsnæðisláni og bætti við Lífeyrissjóðsláni. Þá upplifði ég það að þessi lán hækkuðu langt umfram hækkun á íbúðinni eins með næstu íbúð. Þá var hér verðbólga upp á nokkra tugi. Þannig að þegar upp var staðið hjá mér í þessu íbúðarkaupum þá var ég heppinn að komast út úr þessu sléttur og búinn að tapa því litla sem ég átti þegar ég byrjaði.  Þannig að svona staða hefur jú komið upp áður.

Ég er alveg á því að aðstoða fólk en svona almennt 15 til 20% leiðrétting lendi bara á okkur aftur sem skatta. Ég kaupi ekki að ríkið geti afskrifað þessi lán fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið er að semja við kröfuhafa. Því hef ég mælst til þess að fólk noti þessar leiðir sem er búið að opna með frystingu í 3 ár, greiðslujöfnum þannig að greiðslur verði þær sömu og voru í upphafi ár 2008 á meðan að verið er að koma skikki á hlutina. Ef að nýju bönkunum hefur verið reiknuð þessi lán sem eignir og eignir nýju bankana eru ekki nema kannski 100 milljarðar í plús mundi svona lækkun á eignum þeirra valda því að við þyrftum að punga út mun meiri peningum úr ríkissjóð og þar af leiðandi hærri skattar.

En svona millileikir eins og nú hafa verið opnaðir gefa okkur betri tíma til að skoða málin betur. Kannski 2 til 3 ár. Og heimilin eru ekki að borga meira á meðan en þau gerðu í byrjun árs 2008.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.4.2009 kl. 14:28

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Síðan finnst mér hæpið að kalla íbúðarkaup sparnaðarleið! Það að taka 30 milljónir að láni getur varla verið sparnaðarleið."

Hárrétt, fyrir flesta er það leið til þess að koma þaki yfir fjölskylduna sína, sem er eðlilegt að fólk reyni að gera. Eða viljum við kannski frekar þjóðfélag þar sem allir búa í tjöldum eða hvað? Á meðan húsaleigan hér á höfuðborgarsvæðinu nálgaðist 2000 kr. á fermetra var það líka ágæt sparnaðarleið að fjárfesta í húsnæði, þar sem mánaðarlegar afborganir voru mun lægri en leiga á þeim tíma. Jafnvel þó eignamyndun á því tímabili hafi brunnið upp með hækkun höfuðstóls vegna verðtryggingar, þá voru það samt lægri nettóútgjöld fyrir flest venjuleg heimili.

"Frá því verðtryggingin kom hafa lánin hækkað fyrstu 20 árin langt umfram hækkun á verðgildi íbúða."

Sem er einmitt það sem er verið að fara fram á að verði leiðrétt, fólk sem hefur fengið lánað fengið lánað fyrir einhverju sem það keypti, og borgað afborganir af skuldinni ásamt vöxtum, á það ekki skilið að það sem það keypti sé svo bara tekið af því upp í skuldina, það er óréttlátt. Hefur þjóðfélagið annars einhvern hag af því að láta heimilin bera áhættuna af svona hagsveiflum. Er það sanngjarnt þegar sveiflurnar stafa að mestu leyti af viðskiptum sem heimilin hvorki stunda né ráða neinu um?

"Eiga bankar þá að rukka inn allar ofgreiddar verðbætur á innistæður líka? "

Að sjálfsögðu á að endurheimta allan ágóða sem einhverjir kunna að hafa haft af þessu ranglæti, nema menn vilji hygla fjármagnseigendum á kostnað heimilanna. Er það kannski nýja stefnan ykkar jafnaðarmanna, eða eru það bara áhrif af milljónastyrkjum auðhringa sem þar spila inn í?

"Og eins þá hljóta Hagsmunasamtökin að sjá að trygging á innistæðum þýðir ekki að ríkið þurfi að borga þær. Þessi trygging var sett til að ekki yrði áhlaup á bankana hér og hefur virkað. Fólk hefur ekki tekið út stóran hluta sparnaðarins og því hefur ríkið ekki greitt neitt af því."

Trygging á innstæðum þýðir einmitt að ríkið verður ríkið að fjármagna þær fyrst að bankarnir gátu það ekki sjálfir. Svo er ekki hægt að halda því fram að neitt af þessu hafi virkað, þar sem það dugði einmitt ekki til að afstýra bankaáhlaupi síðastliðið haust, sérstaklega á erlend útibú bankanna sem ríkisstjórnin lét svo þvinga sig til að ábyrgjast í trássi við rétt lagalegt ferli þar að lútandi. Þó að ríkið hafi ekki enn þurft að greiða til einhverra sem ekki hafa tekið út sína peninga þá hafa innstæður þeirra ekki gufað upp í tölvukerfunum, þannig að ríkið mun samt sem áður þurfa að greiða þær þegar kemur að því fyrr eða síðar að viðkomandi vilja taka út inneign sína.

Eftir að ríkið yfirtók bankana, þá eru allar úttektir úr þeim í reynd greiddar af ríkinu, og eins og þú bendir sjálfur á að "við þurfum að leggja þessum bönkum til eigið fé" sem þýðir auðvitað úr vasa skattgreiðenda. Afhverju á ég sem ekkert á nema hækkandi skuldir að greiða hluta af sköttum mínum til þeirra sem þó áttu innstæður í bönkunum ef ég á svo líka að bera tjónið af þeim glæfraskap örfárra einstaklinga sem hruninu olli? Er þetta líka einhver ný stefna hjá ykkur sem hingað til hafið kallað ykkur jafnaðarmenn?

Hagsmunasamtök Heimilanna eiga hrós skilið fyrir öfluga hagsmunabaráttu í þágu íslenskra fjölskyldna!

Guðmundur Ásgeirsson, 13.4.2009 kl. 14:42

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Hólmfríður ég er líka á því að það verður á einhverjum tímapunkti að koma til móts fólk ég er ekki að halda því fram. En ég til að tíminn nú sé ekki heppilegur. Það sé betra að leika einhverja biðleiki eins og nú er boðið upp á. Minni á að þegar að menn tala um að Nýjubankarnir fái útlánasöfn á 50% afslætti þá er í þeim pakka lán sem þeir fá fyrir nærri ekki neitt og svo önnur sem þykja verðmætari. Þannig eru t.d. skuldir einkahlutafélags sem á engar eignir nær verðlausar.

En ég held eftir að við erum búin að skoða þessi mál betur og stöðu hópa þá eigi að hjálpa þeim sem verst standa mest og síðan gæti orðð borð fyrir báru með almenna aðstoð.

Minni líka á að fyrirtæki hér á landi búa við lægstu skatta sem gerast á fyrirtæki í Evrópu. Þannig að það er ekki eins og þeim hafi ekki verið sköffuð betri skilyrði. Og tugþúsundir einstaklinga borga hér aðeins 18% tekjuskatt eftir að hafa stofnað fyrirtæki um sjálfa sig.  Og borga ekkert útsvar.

Það sem ég óttast er að allar þessar tillögur um flatan niðurskurð á skuldum skelli þyngst á mínum hóp sem eru almennir launamenn sem borga skatt af öllum sínum tekjum 35% skatt.

Seðlabankinn er eini sem hefur haft allar forsendur til að skoða þetta og nefndn hans komst að því að þetta mundir kosta hátt í 300 milljarða 20% lækkun á skuludm heimila og um 600 milljarða ef við lækkuðum skuldir um 20% á fyrirtæki.

Þeir sem vilja frara lækkunarleiðina benda á að nýju bankarnri fái lánasöfn með 50% afslætti frá gömubönkunm en það hefur ekki verið staðfest og engir samningar eru ennþá til við erlenda kröfuhafa.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.4.2009 kl. 14:42

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Guðmundur trygging á innistæðum er það að tryggja að þær séu tiltækar. En ef þær eru ekki allar teknar út í einu þá sjá bankarnir um það sjálfir með ávöxtun á eignum sínum.

Ég er ekki að draga úr því að Marínó og þau eru að standa sig ágætlega en ég hef leyfi til að vera ósammála þeim í einhverjum atriðum.

Guðmundur ef að bankarnir hefðu ekki hrunið en verðbólgan haldið áfram í 10 til 20% hefði þá verð allt í lagi að borga af þessum lánum? Og ef að bankarnir hefðu ekki hrunið en gengið fallið hefði þá verið allt í lagi að borga af þessum lánum? Ef að fasteignamarkaðurinn hefði sprungið og íbúðarverð lækkað en bankarnir ekki hrunið hefði þá verð allt í lagi að borga af þessum lánum?

Ég tók lifeyrissjóðslán 1988 upp á 1 milljón. Lánið er til 25 ára og fer því að klárast. Ég var að reikna það út lauslega að þegar ég verð búinn að greiða það upp 2013 eða 14 þá verð ég búinn að borga rúmlega 4 milljónir af þessu láni. Þetta lán hækkaði bara og hækkaði fyrstu árin vegna verðbólgu. En nú tala menn eins og þetta sé alveg nýtt. Íbúðaverð á þessum tíma hækkaði ósköp lítið til samræmis enda ekki inni í visitölu á þessum tíma.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.4.2009 kl. 14:57

8 identicon

Hvernig dettur þér í huga að bera saman hækkun lána vegna hruns bankanna nú og hækkun vegna verðbólgu fyrri ára? Það er ekki sanngjarnt að lántakendur íbúðalána sérstaklega taki á sig stórfelldar ækkanir lána vegna skipulagðrar glæpastarfsemi bankanna, sem olli hruni þeirra. Það er fáránlegt að ætlast til þess að lántakendur taki á sig þessar byrðar. Allir landsmenn verða að axla þær byrðar jafnt, sem þýðir að hækka þarf skatta umtalsvert til að hlda bönkunum á lífi og fella niður hluta af skuldum lántakenda. Tap bankanna vegna lækkunar og afskrifta íbúðalána á að bæta upp með almennri og þrepaskiptri skattahækkun. Það er sanngjarnt

Babbitt (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 15:46

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er í fínu lagi, Magnús, að vera ósammála.  Ég benti þér á að þú hefðir dregið ranga ályktun.

Já, þeir sem fengu innistæður umfram EUR 20.887 tryggðar eru líka íbúðaeigendur.  En það hefur komið fram að það voru tiltölulega fáir aðilar sem nutu þessarar viðbótartryggingar.  Allur almenningur var með innistæður undir mörkunum.  En þetta snýst ekki um að öfundast út í að einhverjum hafi verið bjargað, heldur að krefjast þess að öll sparnaðarform njóti sömu varna.  Svo ég taki sjálfan mig, þá er ég búinn að tapa meira en tug milljóna í eigin fé húsins míns, á aðra milljón í séreignasparnaði og um 20% af skyldulífeyrissparnaði mínum. Þetta er allt sparnaður sem er að tapast meðan maðurinn við hliðina á mér (bara orðalag) fær sparnaðinn sinn upp á 10 milljónir varðan með verðbótum.  Það er ekki einu sinni verið að tala um að verja upphaflegan höfuðstól.  Nei, það er allt bætt.

Marinó G. Njálsson, 13.4.2009 kl. 15:50

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Marínó bara til að koma í veg fyrir misskilning þá er ég aðallega að tala um að svona stórfeldar aðgerðir eins og niðurfelling skulda eða lagfræing á verðbótum séu ekki gerðar nú þegar ekki er búið að semja um neitt við einn né neinn. Heldur verði fyrst farið í að semja við erlenda kröfuhafa. Eftir að þeim samningum er náð eiga Íslenskir bankar formlega orðið þessi lánasöfn. Síðan sé farið í aðgerðir til að að tryggja hag þeirra sem lakast standa og þau fyrirtæki sem okkur er nauðsyn að halda gangandi vegna þjónustu og atvinnu. Önnur bara látin rúlla og seld öðrum eins og gengur og gerist. Ef að allar þær aðgerðir skila því að hér náist að vinna bug á atvinnuleysi og engin fer á götuna, þá verði auknar tekjur og aukin sveigjanleiki notaður til að létta undir almennt með heimilum landsins.

Babbit! Mér dettu ýmislegt í hug! Lánin hafa hækkað vegna verðbólgu og gengisfalls núna. Það stafar kannski af hruni bankana en minni þig á að verðbólga var búin að vera há löngu fyrir hrun bankana og gengið hafði fallið frá því 2007. Og þetta tvennt hækkaði lánin. Það er aftur íbúðarverð sem bankarnir sprengdu upp með því að lána ótæpilega til verktaka og íbúðakaupenda 2005 og 2006. Þeir héldu fram að íbúðarverð mundi ekki lækka framar en margir vöruðu við að framboðið væri það mikið að líkur væru á falli.

Ég er eins og þú fylgjandi þrepaskitum skatti. Ég hef líka velt fyrir mér hvort að tímabundin skattafsláttur fyrir þá sem eru með skuldir umfram eignir í íbúðarhúsnæði gæti hjálpað. T.d. að fólk gæti dregið mismun að einhverju leiti frá heildartekjum og þar með lækkað tekjuskatt sinn niður jafnvel alveg.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.4.2009 kl. 16:24

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, ég get alveg tekið undir það.  Þess vegna bíð ég eftir miðvikudeginum, en þá á verðmæti lánasafnanna að liggja fyrir.

Marinó G. Njálsson, 13.4.2009 kl. 23:32

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús, ég kannast líka við það sem þú lýsir, að þú hafir þurft að endurgreiða lán margfalt til baka að nafnvirði, vegna vísitöluhækkunar. Við erum flest í svipuðum sporum einmitt núna. En þó svo að þetta hafi "alltaf verið svona" þýðir það ekki að það sé eitthvað lögmál, sérstaklega ekki þegar forsendurnar fyrir útreikningnum eru orðnar falskar (þetta meikaði kannski sens á með verbólgumælingin virkaði rétt).

Samkvæmt þínum rökum er orðið of seint að gera eitthvað í því og við eigum bara að sætta okkur við það. Því er ég ekki sammála, þegar bankarnir hrundu í fyrra voru tekin afrit af öllum þeirra gögnum ("snapshot" á tölvumáli), það er vel yfirstíganlegt verkefni að setja það líkan upp í tölvuhermi og rúlla stöðunni til baka þangað sem hún var á einhverjum tímapunkti sem kalla mætti "eðlilegra" ástand (t.d. ásrbyrjun 2008). Við eigum marga snillinga á þessu sviði, bæði fyrrverandi bankafólk og einnig fyrirtæki á borð við CCP sem rekur sitt eigið sýndarhagkerfi. Það eina sem þarf er ákvörðun um það hvernig eigi að gera upp og vilji til þess að framkvæma það. Þetta er auðvitað aðeins ein hugmynd af mörgum að því hvernig mætti standa að þessu...

Guðmundur Ásgeirsson, 23.4.2009 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband