Leita í fréttum mbl.is

Til þeirra sem hafa verið á móti aðildarviðræðum við ESB! Rökin ykkar hafa verið notuð áður

Var að gamni mínu að skoða ræður um EFTA þegar það var rætt á Alþingi 1969. Kannast einhver við þessi rök.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég tel, að ákvörðun um aðildarbeiðni Íslands að EFTA eigi að fresta. Ég er því alls ekki andvígur, að kannað sé, hvort og með hvaða kjörum Ísland geti gerzt með einhverjum hætti aðili að EFTA, en ég tel það ekki tímabært eins og sakir standa. Ég býst við því, að það geti orðið óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að tengjast EFTA með einhverjum hætti. Ég býst við, að framvindan geti orðið sú. En áður en slíkt getur orðið, þurfum við að athuga margt hjá okkur sjálfum og við þurfum að lagfæra margt hjá okkur sjálfum. Ég held, að við séum ekki við því búnir, eins og sakir standa nú, að gera þær stökkbreytingar eða þá aðlögun, sem þarf. Að vísu er gert ráð fyrir, að aðlögunartími fáist og vitaskuld skiptir það máli, hver hann verður. En það er út af fyrir sig gagnslaust að senda inn umsókn, nema við séum búnir að gera það dæmi upp við okkur sjálfa. Ég tel þann tíma, sem til þess er valinn að taka ákvörðun um þetta mál, illa valinn. Þjóðin hefur um þessar mundir um ærið annað að hugsa.

Þjóðin stendur nú frammi fyrir hrikalegri vandamálum í efnahagslífi og atvinnumálum, en oftast nær áður. Það er um þau mál, sem þarf að hugsa. Það er við þau vandamál, sem Alþ. og ríkisstj. þurfa og eiga að glíma. Þegar þannig er ástatt, er ekki ástæða til að fara að fást við þetta svokallaða EFTA--mál, en það þarf enn mikillar athugunar við, að mínum dómi, því að það er laukrétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að hér er engan veginn um einfalt mál að tefla, heldur er hér um málefni að ræða, sem getur haft ýmsa kosti í för með sér, en hefur líka augljóslega ýmis vandkvæði í för með sér og þetta þarf að vega og meta og athuga margt fleira í því sambandi. Hér er að vísu aðeins um óskuldbindandi umsókn að ræða. En það er samt ekki hægt að senda slíka umsókn út í bláinn. Það er eins og þar stendur, að í upphafi skyldi endirinn skoða. Áður en umsókn, jafnvel þótt óskuldbindandi sé, er send, þurfum við að gera okkur rækilega grein fyrir málinu í heild. Hvaða réttindi og hvaða kvaðir fylgja aðild að EFTA? Eftir hverju er þar að sækjast sérstaklega fyrir Íslendinga og hvaða undanþágur eru það, sem Íslendingar þurfa sérstaklega að fá o.s.frv.? Þess vegna er það, að fyrst og fremst verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvaða markmið það séu, sem við ætlum að stefna að með samningum við EFTA. Um það ætla ég, að flestir séu sammála, að Ísland þurfi þar á ýmsum sérákvæðum og undanþágum að halda. En mér sýnist mikið skorta á, að fullnægjandi athugun hafi farið fram á þessum efnum. Alþ. þarf að gefast ríkulegt tóm til þess að athuga þessi atriði og svo er um mörg önnur efni í sambandi við þetta mál, þó að ég nefni þau nú ekki sérstaklega í mínu máli hér.

Og eins má nefna þetta:

Lúðvík Jósefsson:

Það er okkar álit, eins og fram er tekið í þessari afstöðu okkar, að nú sé þannig komið í okkar efnahagsmálum, að það verði ekki undan því vikizt, eins og gjaldeyrisstaðan er þegar orðin, að grípa til ráðstafana, a.m.k. um stundarsakir, sem miða að því að draga úr innflutningi á ýmiss konar varningi til landsins eða stöðva hann alveg á tímabili, en slíkar ráðstafanir mundu auðvitað vera svo að segja í þveröfuga átt við það, sem ætlast er til samkvæmt EFTA--samningnum. Við teljum, að það sé mjög óheppilegt að leggja fram beiðni um aðild og taka upp viðræður við EFTA--löndin um aðild Íslands að samtökunum, einmitt um sama leyti og við teljum óhjákvæmilegt að gera þess háttar ráðstafanir í okkar efnahagsmálum. Við teljum það mjög óheppilegt og í rauninni óeðlilegt að sækja um aðild einmitt á þeim tíma. Þá teljum við einnig, að illa fari á því að leggja nú fram aðildarbeiðni um leið og Bretar tilkynna þá ráðstöfun sína, að þeir ætli að leggja 10% innflutningstoll á innflutt hraðfryst fiskflök til Bretlands, en þar var einmitt um að ræða eitt af aðalatriðunum, sem vöktu fyrir okkur nú eins og ástatt er. Það var einmitt að fá þau hlunnindi, sem a.m.k. var talið líklegt, að við gætum fengið með aðild að EFTA, þ.e.a.s. að losna undan því að þurfa að borga 10% toll af þeim freðfiskflökum, sem við kynnum að selja til Bretlands. Ef þau ákvæði, sem gilt hafa í Bretlandi varðandi innflutning á freðfiskflökum fyrir skandinavísku löndin, sem aðild hafa að EFTA, eru felld niður, þá er erfitt að sjá eftir hverju við værum að sækjast með aðild okkar að þessum samtökum, sérstaklega eins og nú standa sakir. Við teljum því mjög óheppilegt að tilkynna um aðildarumsókn okkar einmitt um sama leyti og Bretar lýsa yfir þessari afstöðu sinni. 

Og meira

Magnús Kjartansson sagði:

Margir hafa orðið til þess að benda á, að erfitt sé að sjá, hvað það sé, sem reki á eftir því, að þessi ákvörðun sé tekin núna í staðinn fyrir næsta ár eða þar næsta. E.t.v. er ástæða til þess að velta því máli svolítið fyrir sér. Ég hygg, að skýringarnar séu tvær. Í fyrsta lagi hygg ég, að hv. ríkisstj. vilji, að samþ. verði beiðni um aðild að EFTA, vegna þess að í þeirri beiðni er fólgin meginstefna um ýmis atriði í efnahagsmálum. Ríkisstj. vill binda þessi atriði nú þegar. Þegar vandkvæði ber að höndum á næstunni og tillögur kunna að koma fram um aðgerðir í innflutningsmálum og tollamálum og öðru slíku, þá munu svör ríkisstj. verða þau, að þessi vandamál verðum við að leysa í samræmi við aðildarumsóknina að EFTA. Við verðum að haga ákvörðunum, sem við tökum hér, þannig, að þær brjóti ekki í bága við umsókn okkar og þær vonir, sem menn bindi við að komast inn í EFTA. Með þessu telur ríkisstj. sig vera að taka ákvörðun um ýmsa meginþætti í efnahagsmálum fyrir okkur sjálfa, hvað svo sem líður samningunum við EFTA á sínum tíma. En ég óttast einnig, að þarna sé um að ræða annað atriði. Hér hafa ýmsir orðið til þess að minnast á 16. gr. samninganna, jafnréttisákvæðin um atvinnurekstur. Það er alveg rétt; að í 16. gr. er að finna mikla fyrirvara og að slíkum fyrirvörum er hægt að fylgja eftir með lagasetningu í hverju landi um sig. Ég dreg ekki í efa, að dugmiklar ríkisstj. geti haldið þannig á málum, að þessi 16. gr. leiði ekki yfir þjóðirnar neinar kvaðir. En ég hef því miður ekki nokkra ástæðu til að ætla, að þessi sé afstaða ríkisstj. Íslands. Henni hefur verið það sérstakt áhugamál um langt skeið að fá til Íslands sem mest af erlendum atvinnurekstri. Í haust, þegar blöstu við augljós vandkvæði í íslenzkum atvinnumálum og mjög víðtækt atvinnuleysi framundan, fór hv. iðnrh. til útlanda og þegar hann kom aftur skýrði hann útvarpi og blöðum frá heilum lista af erlendum aðilum, sem hann gerði sér vonir um, að kynnu að hafa áhuga á því að stofna fyrirtæki á Íslandi. Ef í ljós kemur í sambandi við þessa 16. gr., að einhverjir aðilar innan EFTA hefðu áhuga á því að koma sér fyrir á Íslandi, þá hugsa ég, að hv. ríkisstj. Íslands mundi ekki hafa nokkurn áhuga á því að beita þeim fyrirvörum, sem hugsanlegir eru, heldur þvert á móti. Það er fullkomið alvörumál, að hv. ríkisstj. hefur horft upp á það núna í mörg ár, að hinir þjóðlegu atvinnuvegir okkar hafa verið á stöðugri niðurleið. Hv. ríkisstj. hefur ekkert í þessu gert. Það hefur ekki dulizt nokkrum manni, að vonir hennar um framtíðina hafa verið við það bundnar, að erlendir aðilar tækju í vaxandi mæli við þessum þætti af okkur. Ein meginástæða til þess, að ég er andvígur þessari aðildarumsókn, er einfaldlega sú og ég segi það af fullri hreinskilni, að ég vantreysti þessari ríkisstjórn gjörsamlega til þess að halda þannig á málum, að það sé í samræmi við hagsmuni Íslendinga.

Hannibal hitti hinsvegar naglan á höfuðið við erum aðeins að sækja um og fara í viðræður til að kanna hvaða samningi við náum við ESB. Alveg eins og þarna árið 1969 þegar verið var að sækja um aðild að EFTA

Hannibal Valdimarsson:

Ef við værum hér að ræða um það, hvort Ísland ætti á næstunni að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu, þá væri ástæða til mikilla umr., þá væri um stórt og örlagaríkt framtíðarmál að ræða. En svo er nú ekki. Ef við værum að taka endanlega afstöðu til þátttöku í Fríverzlunarsamtökum Evrópu, þá væri líka um all þýðingarmikið mál að ræða og væri ástæða til að kanna allar hliðar þess, áður en menn réttu upp hendurnar með eða á móti. En við erum ekki að taka ákvörðun um það að loknum þessum umr. Við erum að taka afstöðu til þess eins, hvort við í fyrsta lagi eigum að senda óformlega umsókn um upptöku í Fríverzlunarsamtök Evrópu til þess eins að kanna til fulls, hverra kosta við eigum völ, ef við að rannsókninni lokinni og fengnum öllum upplýsingum teldum það hagkvæmt fyrir Ísland. En um þetta eitt erum við hér að ræða og hyggjumst komast að niðurstöðu um það. En umr. allar virðast mér hafa snúizt um það, hvort við ættum að taka endanlega og bindandi afstöðu til fullrar aðildar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Það er máske eðlilegt út frá því, að í upphafi skuli endirinn skoða. En eins og mál standa nú, er það ekki á dagskrá. Áður en menn taka þá miklu ákvörðun, er ætlunin að afla sér upplýsinga með viðræðum við okkar grannþjóðir, Norðurlöndin, til þess að vita í fyrsta lagi, hvort við eigum þess kost að ganga í samtök þeirra og í annan stað þá með hvaða kjörum. Menn hafa haft góða aðstöðu til að kanna þetta mál og manna á meðal hefur málið verið rætt, jafnvel árum saman, en á vegum Alþ. og ríkisstj. hefur verið sérstök könnun í gangi á þessum málum og n. fjallað um það, mþn. skipuð fulltrúum allra flokka. Málið á því ekki að vera okkur ókunnugt, heldur alveg óvenjulega vel kannað svo langt sem sú könnun nær.

Þessar umræður eru nærri því eins og nú.

 

 


mbl.is Hefur ótvíræð áhrif í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þessi færsla hafði eiginlega þveröfug áhrif á mig. 1969. Hannibal segir að við þurfum ekkert að stressa okkur, þetta sé ekki umsókn heldur eigi bara að skoða málið. Við gengum auðvitað í EFTA á endanum. Eins mun verða um ESB.

Efnahagurinn fór í gegn um gígantískan öldudal eftir að þessi orð voru töluð. Það var ekki fyrr en 20 árum síðar að rofaði til og verðbólgan hjaðnaði. Í millitíðinni voru skorin tvö núll af krónunni, hún varð verðlaus í verðbólgubáli, fólk fór á hausinn í massavís eftir innleiðslu verðtryggingarinnar og það ríkti almenn stöðnun.

EFTA samningurinn hjálpaði okkur ekki fyrr en upp úr 1990. Þegar loksins rofaði til, fórum við á svo hrottalegt fyllerí að við munum sjálfsagt verða grútþunn næstu 20 árin. Hvað tekur þá við? Umræður við NAEU (North American and European Union)?

Evrópusambandið mun ekki redda okkur. Við verðum að læra að haga okkur eins og fólk, að hætta að vera með þessar öfgar í fjármálunum (við viljum vera svo rík því við erum svo lítil). ESB er ekki meðferðarstofnun fyrir eyðslufíkla. Innganga í ESB mun ekki bjarga okkur frá okkur sjálfum.

Villi Asgeirsson, 17.7.2009 kl. 06:04

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er ekki alveg rétt, Jón Frímann. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar (minnir mig) náði tökum á verðbólgunni með þjóðarsáttinni rétt fyrir 1990 og lagði þannig grunninn að góðærinu sem endaði í október í fyrra. EES samningurinn magnaði góðærið, en það hefur nú komið í ljós að hann gerði meira ógagn en gagn. Án hans hefðum við ekki flogið eins hátt, en án hans hefðium við ekki brotlent eins harkalega og Icesave hefði aldrei orðið sá albatross sem hann er.

Villi Asgeirsson, 17.7.2009 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband