Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Sé ekki að Gunnar Bragi minnist á tolla!

Í EES samningum sem við erum aðilar er sérákvæði fyrir Ísland! Það gengur út á að við megum banna innflutning á matvælum nema í undantekningartilfellum. Á móti því þá sitjum við uppi með það að allar fullunnar matvörur og fiskur sem við framleiðum lendir í tollum þegar þær eru fluttar til ESB landa.  Þannig t.d. eru bara örlitlir útflutningskvótar sem við höfum. Þetta leiðir til þess að við sendum fiskinn okkar óunnin út í mesta lagi í flökum og svo taka jafnvel Íslensk fyrirtæki í t.d. Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi við þessum vörum og fullvinna þær með þarlendum starfsmönnum. Þetta fer ekki hátt í umræðunni en þannig geri ég ráð fyrir að þúsundir starfa og virðisauki nýtist okkur ekki heldur þeim löndum sem kaupa hráefnið. Eins er þetta með kjöt og mjólkurvörur að við getum takmarkað flutt út þar sem það er kvótar á því áður enn þær eru tollaðar út af mörkuðum.

Svona fyrir ríki sem segist ætla að ná langt með útflutningi á sjávarvörum og landsbúnaðarvöru eru þetta svona dálítil öfugsnúið.  

Það þarf ekki fleiri til að veiða eða vinna þann fisk sem við nú þegar veiðum og eins þá megum við ekkert vinna kjöt eða mjólkurvörur sem við seljum út. það er því ekki alvega augljóst hvernig þetta á að skapa fullt af störfum. 


mbl.is Frelsi í utanríkisviðskiptum mikilægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva María Jónsdóttir flutti ræðu á Austurvelli í dag

p1060144.jpg
Góðir samborgarar, heiðruðu kjósendur!

Ég er ekki sannfærð um að Evrópusambandið sé staður fyrir Ísland.

En ég er alveg sannfærð um að ég ætti betra með að mynda mér skoðun um þetta stórmál ef ég hefði í höndunum samningsdrög á milli þessa stóra sambands og þessa litla ríkis Íslands.

Ég er líka alveg sannfærð um að þjóðinni sé treystandi til að ganga til atkvæða um í fyrsta lagi að kjósa um framhald viðræðnanna og í öðru lagi að kjósa um hvort Ísland skuli ganga í sambandið eða ekki.

Ég minni á að þjóðir hafa kosið oftar en einu sinni að standa utan við sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningur liggur fyrir.

Ég minni líka á að það er hægt að ganga úr Evrópusambandinu.

En ég man ekki eftir neinu ríki sem það hefur gert.

Hér stend ég sem ein undirskrift af rúmlega 50.000.

Sem húsmóðir hef ég lent í ýmsu um dagana: Ég hef farið með börnin mín hingað niður á Austurvöll og mótmælt, við höfum sparkað saman í grindverk og staðið friðsamleg á víxl. En það er nokkuð flókið að útskýra fyrir börnunum hverju verið er að mótmæla. Þá er ágætt að geta sett upp hliðstæðar aðstæður í einni fjölskyldu.

Sýnishorn af ónefndu heimili í gær, föstudagskvöld:

Krakkar, ef þið verðið góð þá megiði velja mynd til að horfa á.
Krakkarnir voru yndisleg, sögðu að ég væri besta mamma í heimi og svo framvegis. Mér fannst ég hafa þau gjörsamlega í vasanum. En þá mundi ég allt í einu, að ég er á móti sjónvarpsglápi. Ég var komin í klemmu, var búin að lofa þeim að þau mættu velja mynd, en hætti svo bara við og sagði þeim að það væri kominn upp ákveðinn uppeldislegur ómöguleiki, með því að leyfa þeim að velja mynd væri ég að ganga gegn mínum skoðunum og þau mættu þar af leiðandi alls ekki velja mynd. Og ekki nóg með það, heldur ætlaði ég að taka sjónvarpið úr sambandi, setja það aftur í kassann sem það kom í og senda það alla leið til Kína.

Krakkarnir voru rosalega ósátt og sögðu þetta ekki réttlátt, því það væri búið að lofa og það mætti ekki svíkja loforð. Ég sagði að þau hefðu misskilið mig, ég hefði ekki meint þetta svona afgerandi, heldur meira bara svona til að fá þau til að segja að ég væri besta mamma í heimi. Væri ég það ekki örugglega áfram?

Á sama hátt má spyrja viljum við endilega styðja áfram ríkisstjórn sem segir eitt og segist svo ætla að gera annað.
Takið eftir því, að það er enn hægt að standa við stór orð.

Hér er verið að mótmæla því sem hvert mannsbarn sér að er óboðleg framkoma valdamestu manna samfélagsins í garð óbreyttra kjósenda.

Það finnst að minnsta kosti rúmlega 50.000 Íslendingum sem skrifuðu undir svohljóðandi yfirlýsingu:

Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:
Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Þetta er það sem 50.000 manns vilja kjósa um. Við viljum ekki láta bjóða okkur að kjörborði þar sem möguleikarnir eru einhverjir aðrir og leiða til einskiss.

Þessir rúmlega 50.000 íslendingar eru ekki að biðja um að fá að rífa sig upp úr rúmmunum til þess að fá að setja bara einhvern kross í einhvern kassa án þess að niðurstaðan leiði til einhvers. Það væri sóun á mannstundum heillar þjóðar.

Í þeim aðstæðum er hvergi möguleiki til að tjá hug þjóðar sem hugsanlega vill ljúka viðræðum við Evrópusambandið og kjósa síðan aftur um þann samning sem kemur út úr þeim viðræðum. Hugsanlega vill þjóðin það ekki.

Allt tal um ómöguleika er þegar orðið tómt grín. Öllum er sama þó ráðherrar finni fyrir óróleika í stólunum sínum á meðan samninganefnd reynir að fá fram góðan samning fyrir Ísland og Íslendinga í nútíð og framtíð.

Ríkisstjórnir hafa áður verið í ómögulegri stöðu eins og menn hafa bent á.

En það er ekki ómögulegt að skipta um ríkisstjórn. Það er jafnan gert á 4ra ára fresti og jafnvel oftar.

Betra er heilt en illa gróið. Því miður verður sambandið á milli þessarar ríkisstjórnar og kjósenda aldrei meira en gróið úr þessu.
Það verður aldrei heilt aftur.

Það hefði nefnilega verið klókt af þessari ríkisstjórn að standa við þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar og taka niðurstöðunni. Það hefði verið eðlilegt og vottur um stærri hug en þann smáa hugarheim sem við höfum fengið óþægilega innsýn í að undanförnu.

Allur sá skottís sem stiginn hefur verið síðustu vikur er álitshnekkir fyrir stjórnvöld en um leið tækifæri til að dansa í takt fyrir okkur hin. Okkur hin sem viljum að menn geri það sem þeir segji og segji það sem þeir meini.

Ég legg til að við segjum saman JÁ 14 sinnum, til marks um samstöðu okkar árið 2014:

Heilindi
Sannsögli
Heiðarleiki
Framtíðarsýn
Bjartsýni
Samstöðu
Vandvirkni
Lýðræði
Vinnusemi
Ósérhlífni
Auðmýkt
Metnaði
Fagmennsku
VIÐ VILJUM KJÓSA!

Takk fyrir samveruna.

Tvær góðar ræður af Austurvelli í dag

 

p1060155.jpg
 
 
 
 

 

Lára Marteinsdóttir

COGITO ERGO SUM - Ég hugsa, þess vegna er ég.

Fræg setning tileinkuð Descartes, sem fékk hana reyndar að láni frá Ágústínusi frá Hippó sem kannski varð fyrir áhrifum frá Gautama Buddha sem hélt því fram að við byggjum til þann heim sem við búum í útfrá hugsunum okkar, en ...að það væri enginn raunverulegur kjarni í hugsunum fyrr en við gerðum þær að veruleika. Því lagði hann mikla áherslu á að grandskoða okkar eigin innri mann og gaumgæfa vel huga okkar og ásetning áður en við tjáðum okkur í orði og verki.

Því afleiðingar orða geta valdið stríðum og orsakað mikinn harm, bæði á persónulegum grunni og pólitískum. Því er það gríðarlega mikilvægt að þeir aðilar sem sækjast í valdastöður í samfélagi voru, séu þess megnir að uppihalda siðgæði og heiðarleika í öllum samskiptum og sér í lagi við þjóðina sem þeir eru jú í vinnu fyrir.

Það minnsta sem við, þegnar þessa litla lýðveldis, getum ætlast til af fulltrúum okkar á þingi, hvort sem við kusum þá ellegar ei, er að þeir valdi verkefnum sínum, séu í nokkuð góðu andlegu jafnvægi og geti unnið með öðru fólki af heilindum og ábyrgð, en ekki síst að þeir séu hæfir til þess, á ögurstundu, að gæta hagsmuna Íslensku þjóðarinnar.

Ég heyrði einhversstaðar sagt að Heilbrigðri Skynsemi mætti líkja við svitalyktareyði, að þeir sem þörfnuðust hans mest við, notuðu hann aldrei.

En, ég er ekki hér komin til þess að ræða um reynsluleysi, persónuleikabresti eða tvískinnung þeirra aðila sem því miður náðu að smeygja sér inn á Alþingi Íslendinga á fölskum forsendum.

Ég er ekki hér til þess að vara við þeim válegu teiknum sem sjást nú á lofti um uppvöðslu ákveðinnar gerðar af fasisma sem birtist okkur nú í mörgum dæmum um valdnýðslu sem engum er til sóma.

Nei, ég er ekki hér til að fræða ykkur um fasima, sem getur aldrei náð grunni í raunverulegu lýðræði, þar sem fólkið fer með valdið, heldur þrýfst hann vel í sérhagmunasamfélögum og helst fast í hendur við valdamiklar kapítalískar klíkur sem, ef þær komast til valda í æðstu stöður, byrja strax á því að losa sig við allar þær hindranir sem þær telja vera óæskilegar þeirra eigin markmiðum, sem er að ná enn sterkari tökum á bæði þreyttum verkalýðnum og öllum helstu stofnunum og fyrirtækjum landsins, og byrja yfirtöku sína yfirleitt fyrst á Ríkisfjölmiðlum.

Og ég er ekki hér til þess þess að benda á þá augljósu staðreynd, að þeir sem með valdið fara nú eru að mestu leyti strengjabrúður og málpípur öflugra sérhagsmunahópa, sem er algerlega sama um eitthvert lýðræði og einhvern jöfnuð milli manna, og gefa ekki eina krónu fyrir þau orð í tungumálinu sem byrja á SAM – einsog t.d. samfélag, sameign, samvizka, sameiginlegir hagsmunir... að undanskildu orðinu “Sam-herji” - en hefja hinsvegar til lofs og virðingar öll orð sem byrja á SÉR, EIGIN og EINKA: einkafélag, einkaeign, einkavæðing og sérhagsmunir.

Ég er heldur ekki hér til þess að segja við þá sem kusu þetta yfir okkur, látið ykkur þetta að kennningu verða! Því við kunnum ekki að hugsa einsog sjálfstæð þjóð, við erum enn föst í einhverri þrælslund til þeirra sem söðluðu undir sig völd og kvóta, undirlægjur stórbænda og sjávar fursta...þekkjum ekkert annað en barlóm og sjálfsvorkunn og bíðum bara eftir því að fá kannski að narta í einhverja afgangsmola á uppskeruhátíð þessara afar ólýðræðislegu skuggavalda.

Ég er ekki hér til þess að hvetja ákveðna ráðherra að mæta nú í þingsal, til þess að takast á við þetta stórmál, um áframhaldandi ESB viðræður, mál sem þeir lofuðu kjósendum afdráttarlaust fyrir kosningar að þeir myndu fá að kjósa um. Því dag eftir dag virðast þessir sömu aðilar hvergi sjáanlegir í þingsal þegar umræður eiga sér stað. Því væri vert að spyrja, hvað eru þessir menn í sannleika sagt að hugsa?

En hví skyldi ég þá vera hér?

Jú, ég er hér til þess að heiðra hana móður mína, sem mætir hingað niðurá á Austurvöll daglega, konu sem er fædd árið 1936 og hefur því séð tímana tvenna og tvísýna, á landi voru en aldrei sem nú. Konu sem hefur unnið erfiðisvinnu allt sitt líf , fyrst í fiski svo í umönnunarstörfum, en aldrei fengið yfir 200.000 krónur í mánaðrlaun, en hefur samt einhvernvegin haft ráð á því að styðja við nám barnabarna sinna. Ég er hér í dag fyrir móður sem ól upp 5 ágæt börn, því hún kenndi þeim strax í byrjun að náungakærleikur, örlæti og heiðarleiki væru ekki bara góð gildi, heldur lífsnauðsynleg - að fátt væri verra en að ljúga og stela. Ég er hér, því þessi kona trúir svo innilega á skynsemina og lýðræðið - ekki bara fyrir sjálfa sig og sín eigin börn, heldur til hagsmuna og hamingju fyrir allt samfélagið.

Ég er hér, því að henni var logið, því hún á það á engan hátt skilið. Af því að allt sem hún hefur unnið að í þessu lífi sem heiðarlegur borgari, er verið að berja niður með offorsi og yfirgangi. Ég er hér henni til heiðurs því hún vill ekki trúa að peningahagsmunir og jafnvel voldugar glæpaklíkur geti náð yfirráðum í okkar frábæra auðuga landi sem getur á allan hátt orðið stórkostleg fyrirmynd í grænni orku og sjálfbærni ef rétt er á taumunum haldið.

Það er munur á gremju og réttláttri reiði - og við erum mörg hver okkar seinreitt til reiði. En er ekki mælirinn orðinn fullur? Okkur vantar traustvekjandi leiðtoga sem verða ekki þjóð okkar sýnkt og heilagt til ævarandi skammar á alþjóðavettvangi, fólk með sterka siðgæðisvitund, reynslu og heilindi til þess að stýra okkur áfram inní 21stu öldina. Sú stórn sem nú situr hefur nákvæmlega ekkert umboð til þess rústa þeim stoðum og innviðum sem byggðir eru á erfiðisvinnu formæðra og feðra okkar, á fólki einsog henni móður minni.

Íslendingar þekkja í raun ekkert annað en verzlunareinokun – og því höfum við engu að tapa með því að skoða hvað býr í þessum samningi fyrir okkur. Ég mæli því með tvennu: að ríkjandi stjórn sýni í verki að hún er okkur samboðin með því að annað hvort leyfa okkur að kjósa sem allra fyrst, og hætti þessum innatómu útúrsnúningum og fyrirslætti - ellegar stígi til hliðar umsvifalaust og leyfi nýju fólki að taka við völdum.

Takk fyrir.

Finnur Beck:

Ágætu fundarmenn
Það er sannarlega heiður að fá að ávarpa ykkur hér þennan þriðja laugardag sem við komum saman til ítreka kröfuna um að kjörnir fulltrúar standi við gefin fyrirheit.

Mig langar að byrja á játningu. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé full ástæða fyrir Íslendinga að kanna hvort ekki sé hægt að ná hagstæðum aðildarsamningi við ESB. Samningi sem geri okkur kleift að bæta hér stórkostlega lífskjör til lengri tíma litið, fá aukinn efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti og losna við verðtryggingu, allt í þágu fólks og fyrirtækja. Þetta væri gríðarlega mikils virði rétt og því tel ég rétt að kanna þennan möguleika og hvort að þessu verði náð fram án þess að fórna grundvallarhagsmunum þjóðarinnar.

Ég er ekki í stjórnmálaflokki og tek því ekki þátt í flokksstarfi þó ég hafi mikinn áhuga á þjóðmálum. Eins og svo margir fylgist ég með stjórnmálum úr fjarlægð og ber virðingu fyrir þeim sem helga sig pólitísku starfi fyrir litla umbun.

Ég held að það sé svipað ástatt með mig og svo marga aðra í þjóðfélaginu. Við höfum í nógu að snúast við að sinna vinnu, ala upp börn eða sinna öðrum hugðarefnum. Við látum öðrum eftir stjórnmálin og segjum fátt jafnvel þó furðuatvik komi upp á vettvangi stjórnmálanna.

- Þannig sagði ég t.d. ekki neitt þó í ljós kæmi að formaður
stjórnmálaflokks kannaðist ekki við undirskrift sína á bréfi sem sent var ungum flokksmönnum um stefnu flokks hans í ESB málum fyrir
kosningar.

- Ég lét mér í léttu rúmi liggja þó upprennandi stjórnmálamaður og síðar formaður stjórnmálaflokks boðaði á sínum tíma í heilsíðuauglýsingu raunhæfar leiðir í átt að upptöku Evru en hefði svo snúið stefnu sinni 180 gráður í kosningum nokkrum árum síðar.

- Og hversu oft hefur maður ekki bara slökkt á sjónvarpinu í stað þess að segja eitthvað þegar þingstörf eða umræður á Alþingi ganga fram af manni.

En það er ekki hægt að sitja hljóður undir því að stjórnmálaflokkar sem lofuðu þjóðinni að halda á kjörtímabilinu þjóðaratkvæðagreiðslu ætli að svíkja það blákalt. Ætlið þið að sitja hljóð undir því?

Augljóst er að djúp gjá hefur myndast milli þings og þjóðar, sem endurspeglast í ítrekuðum mótmælum og undirskriftum 50.000 Íslendinga eða um fimmtungi atkvæðisbærra manna. Og sökin er ekki þjóðarinnar heldur þeirra flokka sem nú mynda meirihluta á Alþingi.

Það er mjög alvarlegt, þegar kjörnir alþingismenn, tala opinskátt um það, að þeir hafi aldrei ætlað sér að fylgja eftir yfirlýsingum sem þeir gáfu kjósendum um þjóðaratkvæðisgreiðslu. Það ætti bara við ef viðræðum yrði haldið áfram en ekki ef þeim ætti að slíta! Með óskiljanlegum orðaleikjum er reynt að þvæla málið á harðahlaupum undan eigin yfirlýsingum.

Þeir sem halda því fram að orð í kosningabaráttu skipti engu mál vega að grundvallarstoð stjórnskipan okkar um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Frá henni er valdið sprottið. Það er hún sem felur hinum kjörnu valdið á grundvelli orða frambjóðenda. Þannig er vilji þjóðarinnar kallaður er fram í hverjum kosningum til Alþingis og þingmenn sitja í umboði kjósenda.

Alþingismönnum ber siðferðisleg skylda til að fylgja orðum sínum og stefnu.

Þennan grundvallarþátt í lýðræðinu er mér ekki kunnugt um að nokkur siðuð þjóð hafi talið þörf á að skrifa í sín lög. Almennt er bara gengið út frá því meðal lýðræðisþjóða að forystumenn í stjórnmálum séu menn orða sinna.

Allt stjórnmálakerfið er reist á trúnaðarsambandi stjórnmálamanna og kjósenda. Ef orðum stjórnmálamanna í aðdraganda kosninga væri ekki að treysta, þá væri heldur enginn tilgangur með því að kjósa.

Fólkið í landinu er ekki fífl. Við vitum vel að þeir flokkar sem mynda með sér ríkisstjórn þurfa að koma sér saman um stjórnarstefnu með málamiðlunum. En þegar stjórnmálamenn boða það skýrt, að þeir telji rétt að þjóðin kjósi sérstaklega um aðildarviðræður við ESB þá geta þeir ekki horfið frá því. Með yfirlýsingum um þjóðaratkvæðagreiðslu í aðdraganda kosninga lýstu viðkomandi frambjóðendur því yfir að þeir sæktust ekki eftir umboði kjósenda til að ákveða framhald viðræðna. Þvert á móti tóku þeir skýrt fram að ef þeir hlytu kosningu yrði ákvörðunin í höndum þjóðarinnar. Því er eina skylda þeirra í þessu efni nú, að undirbúa nú þegar í stað almenna þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort að viðræðum við ESB eigi að halda áfram.

Þetta er ekkert flókið, það er engin ómöguleiki, enginn óframfylgjanleiki, varnagli eða ekki varnagli. Gerið bara það sem þið lofuðuð, þar liggur ykkar skylda.

Ein mikilvægustu rökin fyrir því að þjóðin greiði atkvæði um viðræður við ESB eru að mínu mati þau að íslenska flokkakerfið hefur ekki ráðið við þetta mál.

Nær allir hinir rótgrónu flokkar eru þvert klofnir um það, þó það sé mismikið.

Við höfum öll séð flokkana vandræðast með málið um árabil, leita málamiðlana milli stríðandi fylkinga og reyna að flækja málið eða fresta því. Kannski ekki endilega alltaf vegna þess að því að það þjóni hagsmunum Íslands best, heldur til að halda friðinn innan flokka.

Hafið þið ekki heyrt frasana? „þessi spurning er ekki tímabær“, „við þurfum að meta stöðuna“ eða „við þurfum að kanna aðra kosti betur“.

Um það leyti sem íslenska hagkerfið hrundi undir lok ársins 2008 taldi maður augljóst að stjórnmálaflokkarnir myndu móta sér skýra stefnu.

Krónan hafði sýnt sig að vera afleitur gjaldmiðill, einn sá minnsti í heimi sem enginn vildi taka við. Í áratugi hafði hún reynst íslenskum fyrirtækjum og almenningi fjötur um fót.

En vitið þið hvað? Nú, tæpum sex árum síðar hefur ekkert breyst og landið er stefnulaust í gjaldmiðlamálum – planið liggur ekki fyrir.

Á tímabilinu frá hruni höfum við hins vegar höfum við horft á hver fjöldasamtökin á fætur öðru vinna í málinu og það er nær sama hvern þú spyrð: Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráð. Öll hafa gefið skýrt til kynna mikilvægi þess að klára aðildarviðræður og sjá hverju þær skila.

Mér hefur oft virst eins og lykilfólk í samfélaginu t.d. úr fræðasamfélaginu og atvinnulífinu fari eins og köttur í kringum heitan graut í tengslum við ESB málið.

Eins og til að dragast ekki inn flokkspólitíska baráttu eða innanflokksátök.

Og munum eftir óþægilegri frásögn Ólafs Stefánssonar handboltamanns sem um síðustu helgi lýsti því hér að eftir 17 ára dvöl erlendis hefði það komið honum í opna skjöldu að þegar fólk talaði um ríkisstjórnina þá hvíslaði það, rétt eins og einhver væri að hlera.

Við þá sem vilja fá að kjósa um framhald viðræðna, vilja að staðið verði við loforð og þá sem vilja klára aðildarviðræður en hafa hingað til setið á sér til að forðast sprengjusvæði stjórnmálaumræðunnar segi ég, þið þurfið að berjast fyrir málinu og láta í ykkur heyra! Þetta er ekki einkamálstjórnmálaflokkanna.

Tillagan sem fyrir liggur á Alþingi um viðræðuslit er sett fram í trausti þess að það heyrist ekki í ykkur.

Að það heyrist ekki forstjórum fyrirtækja sem klóra sér í skallanum yfir rekstri í flóknum frumskógi reglna haftakerfis með gjaldeyri.

Að það heyrist ekki í frumkvöðlum sem finna ekki erlenda fjárfesta og þurfa að reiða sig á eitt dýrasta lánsfjármagn í heimi.

Að það heyrist ekki í almenningi sem á hverjum degi greiðir háa vexti og verðtryggingu sem eru bein afleiðing af íslensku krónunni.

Ágætu fundarmenn.

Það er ekki hægt að segja annað en framganga oddvita ríkisstjórnarinnar, sem báðir tilheyra nýrri kynslóð forystumanna valdi manni miklum vonbrigðum. Hvers vegna sama gamla offorsið? Hvers vegna var engin umræða áður en ákvörðun um slit var tekin? Af hverju var ekkert samráð við aðila vinnumarkaðar og atvinnulíf... og ég spyr þá, afhverju í ósköpunum ætlið þið að svíkja skýrar yfirlýsingar um að þjóðin yrði kjörtímabilinu spurð um hvert stefna skyldi með aðildarviðræður?

Ég skil það ekki og við oddvita ríkisstjórnarinnar þá Bjarna og Sigmund langar mann að segja í anda Margrétar Pálu og Hjallastefnunnar „Kæru vinir, nú eruð þið að ruglast, þetta er ekki í boði“

Og svo er eins og vitleysan sem sett er fram sem rök gegn
þjóðaratkvæðagreiðslu verði meiri eftir því sem hinar sviknu yfirlýsingar er leiknar oftar í sjónvarpinu. Ef sú fyrsta virkar ekki þá er prófað eitthvað nýtt.

Það er sagt að þeir ríkisstjórnin gæti ekki fylgt þeirri óheppilegu niðurstöðu ef þjóðin kysi áframhaldandi viðræður. Og hvað með það! Þá yrði þjóðþingið bara að finna bara leið. Ekki fer þjóðin að segja af sér vegna þess að vilji hennar samræmist ekki stefnu þingmeirihlutans.

Síðan er sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki á dagskrá þingsins...

Af hverju er þá bara ekki lögð fram tillaga um það?

Að lokum er sagt að þetta sé ekki hægt því kosning geti ekki verið bindandi...

Og hvað með það? Af hverju gefið þið ekki bara út að þessir flokkar muni hlíta niðurstöðu meirihluta þjóðarinnar.

Ágætu fundarmenn.

Hvernig komum við þessum skilaboðum áleiðis til stjórnarflokkanna. Hvernig fáum við þá til að hlusta og skilja að þessi ræða, mæting ykkar eða hinar 50 þúsund undirskriftir eru ekki hluti af loftárásum, ekki hluti af stærstu fjölmiðlaherferð sögunnar og enn síður eru skilaboð okkar sprottin af illum hug gagnvart fólkinu á Alþingi eða flokkunum þeirra. Þetta er afstaða venjulegs fólks óháð flokkum sem vill að kosningaloforð séu virt og kanna til hlítar samfélagslegan ávinning af því að Ísland gangi í ESB og upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils.

Þess vegna skorum við á ríkisstjórnina að finna leið. Það er enn þá möguleiki fyrir stjórnarflokkana að komast frá þessu máli og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu með góðum fyrirvara án þess að það þurfi að hafa áhrif önnur áhersluverkefni hennar sem hún var sannarlega kjörin út á.

En að fenginni niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu er ekkert til sem heitir pólitískur ómöguleiki. Ríkisstjórnin hefur þá einfaldlega val um að vinna samkvæmt niðurstöðu þjóðarinnar eða fela verkefnið öðrum.

Hins vegar – og það er ótrúlegt að maður þurfi að taka þetta fram – en ef svo ótrúlega færi, að einhverjir alþingismennn teldu sig geta skellt skollaeyrum við niðurstöðu meiri hluta þjóðarinnar í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst þá kæmi líklega upp pólitískur ómöguleiki... Og hann fælist í því að þeir þingmenn sem að því stæðu yrðu næsta örugglega aldrei kjörnir aftur.


mbl.is Rúmlega 2.000 mótmæltu á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú gengur nýyrðabylgja yfir okkur frá Ríkisstjóninni. Vildi bæta aðeins við

Við höfum heyrt m.a. "Framfylgjanlegur" og svo náttúrulega klassíkina "óframkvæmanleiki"

En svona í ljósi síðustu vikna þá langar mig að sletta fram nýju sem er: "Framsóknarlygi" Það t.d. gæti átt við þegar menn ljúga upp á fyrri ríkisstjórnir, ljúga hvað aðrir menn hafa sagt og jafnvel hvað þeir sjálfir hafa sagt, gert eða skrifað undir.  Eins og fólk sé þá er merkingin nokkuð "teygjanleg"


Hvað segja formaður og varformaður fjárlaganefndar og meðlimir í hagræðingahópnum núna?

Finnst nú í ljósi margra viðtala og ræðna um að það þurfi að taka til í ríkisrekstri og setja nákvæmt eftirlit og aðhald sem þau hafa flutt síðan í haust, þá finnst mér furðulegt að þau hafi ekki farið fram á þessa rannsókn sjálf! Að ráðherra sé á útopnu að fjármagna framkvæmdir hér og þar án þess að almenningur sjá nokkra reglu í þessu er furðulegt!

Ekkert að segja að þessi ver séu ekki þörf. En er búið að forgangsraða menningarverðmætum með tilliti til þess hvaða verkefni séu brýnust? Voru það þessi? Eru kannski á meðan önnur verðmæti sem koma til að að eyðileggjast alveg af því að það þurfti að hygla fólki í kjördæminu?

En í ljósi orða Vigdísar og Guðlaugs og ýmislegan niðurskurð sem var í fjárlögum þá hafði maður ætlað að eitt fyrsta verk væri að forgangsraða af sérfræðingum hvaða menningarverðmætum væri nauðsynlegt að sinna en það væri ekki ráðherra að gera það.


mbl.is Vilja rannsókn á styrkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin starfi sínu vaxin?

Svona miðað við að núna styttist í að þessi stjórn sé búin að vera við völd í ár, finnst mér leitun á málum sem hún hefur komið í framkvæmd. Og eins eru mörg mál sem hún hefur klúðrað.

Svona fyrir utan að hún afnám veiðigjöld að hluta og ætlar að breyta þeim, afnám auðlegðargjöld. Þá man ég bara ekki eftir neinu. Helst kannski að Egló hafi lagfrært að hluta kjör öryrkja og ellilífeyrisþega. 

En öll stórumálin eru enn í vinnslu og við heyrum ekkert af þeim.

Hvað með skuldamálin?

Hvað með gjaleyrishöftin

Hvað með allt annað sem þau ætluðu að gera. 

Annað hvort segja þau málin í vinnslu og því meira sem við heyrum því minni verða þessar boðuðu aðgerðir. 

Segir mann ýmislegt að þeir leggi áherslu á að slíta ESB viðræðum vitandi að þær myndu skapa deilur. Annars ef maður hugsar þetta frekar þá hafa þeir eytt allri sinni orku í að reyna að stroka út allar breytingar sem hér hafa orðið eftir hrunið.  Og helst held ég að þau vilji ef þau vita það sjálf að hlutirnir verði eins og 2006


Af hverju eru hér ekki erlendir bankar í biðröðum að hefja hér starfsemi?

Smá hugleiðing!

Svona miðað við orð allra hér um að bankar á Íslandi séu orkurlánastofnanir og tryggðir með beltum og axlaböndum þá furða ég mig á einu:

Nú í sjálfu sér held ég að EES samningur tryggi að erlendir bankar sem það vildu gæti komið hingað og hafði starfssemi í samstarfi við aðra eða einir og sér. Hefur engin velt fyrir sér af hverju þeir gera það ekki? Gæti það verið vegna þess að hér er króna, óstöðugt efnahagslíf og höft. Ef að bankar eru svona gróðavegur og okurstofnanir þá skil ég ekki af hverju hér eru ekki biðraðir af bönkum að hefja hér störf og græða á okkur. !


« Fyrri síða

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband