Alcan gæti hæglega stækkað álver sitt í Straumsvík upp í 350.000 tonn, miðað við gildandi deiliskipulag þrátt fyrir niðurstöðu íbúakosningarinnar í Hafnarfirði á laugardaginn. Ekki er hægt að útiloka að þetta verði gert segir bæjarstjórinn.
Hafnfirðingar felldu sem kunnugt er um helgina, deiliskipulagstillögu sem gerði ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík upp í 460.000 tonna framleiðslugetu. Nú er árlega hægt að framleiða 180.000 tonn af áli í Straumsvík í þremur kerskálum. Í tveimur hinna eldri er hægt að framleiða 55.000 tonn í hvorum skála en 70.000 tonn í þeim nýjasta. Tillagan sem kosið var um á laugardaginn gerði ráð fyrir að hægt yrði að reisa tvo nýja kerskála og í hvorum um sig mætti framleiða 140.000 tonn á ári. Samtals stóð því til að tvöfalda framleiðslugetuna, upp í 460.000 tonn. Samtals áttu því skálarnir að verða fimm.
Hins vegar á Alcan enn leik á borði sem er að rífa tvo elstu skálanna, sem samtals framleiða um 110.000 tonn, og reisa í staðinn þá skála sem til stóð að bæta við þar sem samanlögð framleiðslugetan er 240.000 tonn. Þannig gæti því framleiðslugeta álversins í Straumsvík farið upp í 350.000 tonn án þess að samþykkja þurfi nýtt deiliskipulag. Þegar er fyrirliggjandi starfsleyfi fyrir allt að 460.000 tonna verksmiðju og umhverfismatið liggur líka fyrir þótt kannski þurfi að gera á því lítilsháttar lagfæringar.