Frændi minn fór út á land með fyrirtækið sitt fyrir nokkrum árum þar sem ég var skráður stjórnarformaður. Hann safnaði peningum meðal heimamanna og lofaði þeim að ávaxta þá ríkulega og skila til baka með góðum vöxtum.
Við bæjarstjórinn þekkjumst ágætlega og hann spurði mig nokkrum sinnum hvort frænda væri treystandi. Ég hélt það nú, fullyrti kannski aðeins of oft að allt væri í himnalagi hjá honum, hann væri traustur maður og engin ástæða væri fyrir bæjarbúa að hafa áhyggjur af peningunum sínum. Ég vissi reyndar að hann var á hvínandi kúpunni, í tómu rugli og myndi sennilega tapa góðum hluta peninganna.
En ég gat nú ekki verið að segja þeim það. Enda naut ég þess nú ágætlega þegar hann var að raka saman peningum.
Þegar þeir gengu á mig fullyrti ég meira að segja að ég myndi ganga í ábyrgðir og gera upp ef frændi gæti ekki staðið við stóru orðin. Enda væri ég nú stjórnarformaður í fyrirtækinu hans og við værum með góðar tryggingar.
Svo fór frændi auðvitað á hausinn og skildi eftir sig slóð gjaldþrota. Bæjarbúar voru reiðir og bæjarstjórinn hringdi saltvondur í mig.
Ég sagðist auðvitað munu borga og fór þrisvar til að semja um að taka á mig lítinn hluta af þessu. Fékk alltaf betri og betri samning.
En ég er að hugsa um að hætta við. Hvað kemur mér þetta við? Þeir eiga enga formlega kröfu á mig. Ekkert skriflegt. Skráningin á fyrirtækinu var ekki alveg samkvæmt ströngustu lögum. Og við höfðum gleymt að greiða iðgjöldin af tryggingunum.
Best að byrja að staglast á stórkarlalegum yfirlýsingum. Ég læt nú ekkert vaða yfir mig. Ég lúffa sko ekkert. Enginn undirlægjuháttur hér á bæ. Og þó þetta séu kannski 2-3 mánaða tekjur ætla ég að byrja að væla að verið sé að hneppa börnin mín í þrældóm.
Og svo ætlast ég auðvitað til að fá góða þjónustu og fyrirgreiðslu næst þegar ég heimsæki bæinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.