Leita í fréttum mbl.is

Jóhanna hefði átta að flytja fleiri ræður eins og þessa:

Virðulegi forseti.

Ég vil þakka hæstvirtum þingmanni, Bjarna Benediktssyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu og efna þannig til umræðu um störf ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar- Græns framboðs.

Fyrstu meirihlutastjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks á Íslandi. Fyrstu ríkisstjórnina sem ekki er bundin á klafa sérhagsmuna í atvinnulífi og forréttindastétta.

Það þarf engan að undra að það gusti um slíka ríkisstjórn, ekki síst þegar haft er í huga að verkefni hennar í efnahagslegri- og félagslegri endurreisn landsins eru einnig fordæmalaus.

Fram til þessa hefur ríkisstjórnin fyrst og fremst þurft að glíma við þær alvarlegu afleiðingar sem hrun bankakerfisins, hrun íslensku krónunnar og hrun bóluhagkerfisins, sem áratugur Davíðs Oddsonar í Stjórnarráði Íslands og Seðlabankanum orsakaði. Með stórfelldum hagstjórnarmistökum, spillingu og þjónkun við hagsmuni stóreignafólks og frjálshyggjutrúboð. Öllum ber nú saman um að vanhæfari ríkisstjórnir hafi vart starfað á Íslandi eins og á umræddum áratug undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Um afleiðingarnar er hægt að lesa í vandaðri og ítarlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Það er til vitnis um kaldhæðni örlaganna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt fram vantrauststillögu sína á eins árs afmæli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Menn eru fljótir að gleyma á þeim bænum.

Nú þegar allir greiningaraðilar og sanngjarnir stjórnmálarýnar viðurkenna og lýsa því yfir að Ísland sé komið yfir erfiðasta hjallann og nú geti hagur landsmanna aftur farið að vænkast eftir þrengingar hrunsins, þá stíga forystumenn Sjálfstæðisflokksins fram og hrópa: “Nú get ég !”

Heyr á endemi !

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einu sinni enn þann dag í dag beðið þjóðina afsökunar á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem flokkurinn leiddi yfir þjóðina í stjórnartíð sinni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn gert upp styrkjamál sín, styrkjamál frambjóðenda sinna eða axlað ábyrgð á þeirri spillingu sem viðgekkst í Stjórnarráðinu undir þeirra stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einskis iðrast og hefur enn ekkert lært. Sjálfstæðisflokkurinn á enn ekkert erindi í ríkisstjórn eða forystuhlutverk í íslenskum stjórnvöldum.

Virðulegi forseti

Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir erfiðar aðstæður og þær margþættu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þurft að grípa til vegna hrunsins, sem lítt eru til vinsældir fallnar, blasir góður árangur ríkisstjórnarinnar hvarvetna við.

Þetta á við um efnahagsmálin, þar sem einu mesta efnhagshruni allra tíma hefur verið snúið við, stöðugleiki tryggður og grunnur lagður að nýju hagvaxtarskeiði, sem þegar er hafið.

Þetta á við um mörg önnur mál svo sem lýðræðisumbætur, endurskoðun stjórnarskrárinnar, endurskipulagningu stjórnkerfisins, endurskipulagningu fjárhags heimila og fyrirtækja, varnarbaráttu fyrir velferðarkerfið og fjölmörg réttlætis-og mannréttindamál.

Við höfum komið heildarendurskoðun þjóðarinnar á stjórnarskrá Íslands á dagskrá í fyrsta sinn. Umgjörð um starfsemi og fjármál stjórnmálaflokkanna hefur einnig verið tekin í gegn og þar er Ísland komið í fremstu röð meðal þjóða heims í stað þess að dvelja í skammarkróknum með þjóðum þar sem spillingin þrífst, eins og viðgekkst í valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Við höfum stokkað upp starfshætti og skipulag Stjórnarráðsins og stofnanakerfis ríkisins þar sem lærdómar rannsóknarskýrslunnar og krafan um aukið hagræði og skilvirkara starf hafa verið innleiddir. Umfangsmestu stjórnkerfisbreytingar ríkisins í sögu lýðveldisins eru staðreynd og flokkspólitískri spillingu hefur verið úthýst við ráðningar í æðstu embætti stjórnsýslunnar og dómstóla landsins.

Við höfum unnið á öllum vígstöðvum að endurskipulagningu fjárhags heimila og fyrirtækja, sem vegna hrunsins og gríðarlegrar skuldsetningar stóðu frammi fyrir skuldafangelsi eða gjaldþrotum ef ekkert yrði að gert. Með stórfelldum skuldaniðurfellingum, tugum milljarða í auknar vaxtabætur og algerri umbreytingu á réttarstöðu skuldara hafa þúsundir heimila og hundruð fyrirtækja náð að aðlagast aðstæðum og leysa úr vandanum.

Við höfum háð mikla varnarbaráttu fyrir velferðarkerfið og kjör þeirra verst settu enda eru útgjöld til velferðarmála hærri nú en þau voru á hátindi góðærisins árið 2007, bæði sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og í krónum talið. Kaupmáttur hinna lægst launuðu er einnig hærri nú en hann var á þessum árum og skattbyrðin lægri.

Við höfum unnið markivsst að ýmsum réttlætis og mannréttindamálum sem jafnaðarmenn og félagshyggjufólk hefur lengi barist fyrir. Ég nefni hér afnám forréttinda alþingismanna og ráðherra til lífeyrisréttinda, bann við vændiskaupum, ein hjúskaparlög, sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á heimilum fyrir börn, baráttuna gegn kynferðislegu ofbeldi og mansali, aukinni þátttöku kvenna í ríkisstjórn, stjórnkerfinu og stjórnum fyrirtækja en margt fleira mætti hér nefna.

Virðulegi forseti.

Við tókum við þrotabúi frjálshyggju og græðgi eftir eitt mesta efnahagshrun allra tíma. Verkefni ríkisstjórnarinnar hefur verið að vinda ofan af hruninu og skapa forsendur fyrir framfarir. Ég fullyrði að á því sviði hefur árangur náðst.

En ég er ekki ein um það því eftir árangri okkar hefur verið tekið víða um heim. Ég nefni ummæli Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Í grein í New York Times í sumar kallaði Krugman þróunina hér á landi efnahagslegt kraftaverk í kjölfar hrunsins. Eins má vitna til mjög jákvæðra ummæla Joseps Stiglitz, sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, OECD og ýmissa greiningarfyrirtækja. Ég nefni hér ummæli danska hagfræðingsins Lars Christiansen sem sagði í erindi sínu í gær að vorið væri svo sannarlega að ganga í garð í íslensku samfélagi.

Já, skjótt skipast veður í lofti. Íslenska þjóðin og stjórnvöld stóðu frammi fyrir risavöxnu verkefni. Það varð að bægja frá þjóðargjaldþroti og treysta hinn efnahagslega grundvöll og það hefur ríkisstjórnum mínum svo sannarlega tekist að gera.

Okkur hefur tekist að hemja óðaverðbólguna. Verðbólgan hefur lækkað um sextán prósentustig í tíð minna ríkisstjórna. Stýrivextir hafa lækkað um 14 prósent og gengi krónunnar er stöðugt.  

Skuldatryggingarálag hefur lækkað um 800 punkta, skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað úr  210%  af landsframleiðslu  2008 í 57-82% við árslok 2010.  Stærri þjóðir með fullt hús stiga er varðar lánshæfismat geta raunar ekki státað af betri skuldastöðu.

Afgangur af viðskiptajöfnuði hefur aldrei verið meiri sem mun gera okkur auðveldara að losa um gjaldeyrishöftin.

Atvinnuleysið er vissulega enn of mikið en þó mun minna en spár sögðu til um og fer nú enn minnkandi.

Samdrátturinn hefur verið stöðvaður og greiningaraðilar eru einum rómi um að hagvaxtarskeiðið sé hafið.

Virðulegi forseti.

Það hlaut að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar sem fékk hrunið í fangið og með græðgisárin að baki að leiðrétta rangláta tekjuskiptingu og verja kjör þeirra sem minnst mega sín. Þrátt fyrir stóraukið atvinnuleysi vegna hrunsins voru hlutfallslega færri undir lágtekju- eða fátæktarmörkum 2010 en árið 2007. Kaupmáttur lægstu launa hefur vaxið um 4% frá febrúar 2009.

Ríkisstjórnin hefur náð gífurlegum árangri í efnahags- og atvinnumálum. Allt sem ég hef tilgreint hér að framan er til vitnis um það. Framundan eru krefjandi verkefni í þeim efnum sem ríkisstjórnin er vel í stakk búinn til að leysa. Að því er nú róið öllum árum að ná saman í kjaraviðræðum milli launþega og atvinnurekenda.

Ríkisstjórnin er að vinna að fjárfestingar- og hagvaxtaráætlum í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem gæti aukið hagvöxt hér á landi um u.þ.b. 2 prósentustig þannig að við gætum verið að horfa á hagvöxt á bilinu 4-5%. Vonir standa til að auka megi fjárfestingar upp í um 20% af landsframleiðslu, eða um allt að 200 milljarða á næstu þremur árum og koma atvinnuleysinu undir 5%. Staðreyndin er sú að margvísleg verkefni eru ýmist farin í gang eða  í góðum undirbúningi. En þetta veltur vitaskuld á fjármögnun og því hvernig tekst til að lágmarka áhrifin af Icesave málinu.  

Virðulegi forseti

Árangur ríkisstjórnarinnar undanfarin rúm tvö ár er óumdeilanlegur. Vantraust á ríkisstjórnina vegna hans er ekki hægt að rökstyðja af nokkurri sanngirni. Ég get hins vegar vel skilið að Sjálfstæðisflokkinn og gömlu valdablokkirnar og hagsmunaaðilana þyrsti að komast til valda á ný til þess að koma í veg fyrir að ýmis stór umbótaverkefni sem ríkisstjórn mín vinnur nú að komist til framkvæmda.  

Það hefur ekki farið á milli mála að ýmsum hagsmunaöflum í samfélaginu líkar illa að verið sé að breyta leikreglum samfélagsins í þágu almannahagsmuna og leggja nýjar áherslur í umhverfis- og auðlindamálum um sjálfbæra nýtingu og skilyrðislausa kröfu um að arðurinn af auðlindum renni til þjóðarinnar sjálfrar.

Er kannski staðreydnin sú Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að koma ríkisstjórninni frá til þess að koma í veg fyrir að endurskoðun þjóðarinnar á stjórnarskránni nái fram að ganga? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn virkilega að knýja fram kosningar nú, sömu daga og stjórnlagaráð er að hefja vinnu sína við að endurskoða stjórnarskrána?

Er það kannski líka svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að koma ríkisstjórninni frá áður en hún leggur til grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu með almannahagsmuni að leiðarljósi?

Er staðreyndin sú Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að koma ríkisstjórninni frá áður en vinnu við rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarmasvæða verði lokið og ný lagaumgjörð um orkuauðlindir og vatn nái fram að ganga ? Þarf bláa stóriðju- og virkjanahöndin að komast að stýrinu án tafar ?

Er ástæða kröfunnar um að ríkisstjórnin fari frá ef til vill sú að nú sjá allir að erfiðasti hjallinn er að baki, sársaukafyllsti niðurskurðurinn og óhjákvæmilegu skattahækkanirnar um garð gengnar og framundan jafn og stöðugur hagvöxtur með auknum kaupmætti og bættum hag almennings ? Vilja nú hundurinn og svínið gæða sér á brauðinu sem litla gula hænan bakaði ein ?

Virðulegi forseti

Við stöndum á tímamótum. Hrunið er að baki og við erum að opna nýjar dyr til móts við nýja og betri tíma og vorið sem danski hagfræðingurinn lagði áherslu á að væri framundan í íslensku efnahagslífi.

Það er mikið umhugsunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vilja efna til kosninga nú þegar þjóðin þarf að þétta raðirnar til lausnar á Icesave-málinu. Er þetta nú uppbyggilegt innlegg í þá stöðu sem við erum í? Er það þetta sem við þurfum á að halda til að ávinna okkur traust alþjóðasamfélagsins? Þurfum við virkilega á að halda pólitískri upplausn ofaní efnahagslega óvissu? Telur Sjálfstæðisflokkurinn það virkilega vera réttu skilaboðin nú til umheimsins?  

Getur verið að til þessar vantraustumræðu sé stofnað til þess að breiða yfir þá óeiningu og það sundurlyndi sem nú blasir við í Sjálfstæðisflokknum?

Hæstvirtur forseti.

Ég hef lagt á það áherslu nú þegar þjóðin hefur klofnað í afstöðu sinni til Icesave-málsins að við sameinum um að taka málið úr átakafarvegi í sáttafarveg.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir að greiða atkvæði um gerir það svo sannarlega ekki.

Þeir sem bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þeir sem vilja sjá breytingar á stjórnarskránni með aðkomu þjóðarinnar, nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, réttláta nýtingu allra auðlinda og jöfnuð og velferð á öllum sviðum samfélagsins hljóta að sameinast um að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins. Flokksins sem mesta ábyrgð ber á því hruni sem við erum nú loksins að sjá fyrir endann á.


mbl.is Þurfa að færa fórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband