Hrunið á Íslandi var einstakt. Mörg met voru slegin. Stærsta bóluhagkerfi sögunnar brast og við tók stærsta fjármálahrun sögunnar, með nokkrum stærstu gjaldþrotum sögunnar (sjá um það hjá Þorvaldi Gylfasyni).
Eitt metið sem Íslendingar settu hefur þó ekki farið hátt á metorðalistum þjóðanna. Hér varð meiri kjaraskerðing fyrir heimilin en sést hefur annars staðar í kreppunni, raunar fyrr og síðar. Við getum þakkað íslensku krónunni fyrir það.
Hér eru tvær myndir sem sýna gögn um ráðstöfunartekjur heimila á mann á Íslandi, fyrst með samanburði við hin Norðurlöndin 2003 til 2010, en síðari myndin nær til allra Evrópuríkjanna 2007 og 2010. Tölurnar eru frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og eru í Evrum.
Mynd 1: Ráðstöfunartekjur heimila á mann frá 2003 til 2010. Norðurlönd og meðaltal ESB. Mælt í Evrum. (Heimild: Eurostat).
Hér má sjá að við vorum á róli með Noregi frá 2005 til 2007, en síðan hrynjum við niður 2008 og 2009. Við fórum úr hæstu meðaltekjum á Norðurlöndum niður í þær lægstu. Vorum samt yfir meðaltali ESB-ríkja 2010. Krónan var of hátt skráð fyrir hrun og ýkti ráðstöfunartekjur okkar þá en svo refsaði hún okkur svo um munaði.
Það er athyglisvert hvernig ráðstöfunartekjurnar í Noregi vaða áfram uppávið í gegnum kreppuna. Samkeppni okkar og annarra Norðurlanda við Norðmenn er vægast sagt erfið við þessar aðstæður. Undrunarefni að brottflutningur þangað skuli ekki vera enn meiri en raun ber vitni. Hann er þó talsverður.
Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur að kreppan lækkar almennt ekki ráðstöfunartekjur heimilanna í Evrulöndunum 17, enda hefur Evran haldið virði sínu í gegnum kreppuna, þrátt fyrir skuldavanda einstakra aðildarríkja.
Evran er augljóslega traust og ver heimilin vel gegn kjaraskerðingum. Þetta má sjá enn betur á næstu mynd sem sýnir stöðuna fyrir kreppu (2007) og svo aftur árið 2010.
Mynd 2: Ráðstöfunartekjur heimila á mann árið 2007 og 2010 í Evrópuríkjum. Mælt í Evrum. (Heimild: Eurostat).
Hér má sjá að Ísland var með hæstu ráðstöfunartekjurnar að jafnaði á árinu 2007, sjónarmun ofar en Noregur. Hrun okkar var þannig hrun úr hæstu hæðum. Þegar við berum okkur saman við tölur ársins 2007, sem voru líklega ósjálfbærar, verður hrunið afar mikið (um 41%), mælt í erlendum gjaldmiðli (Evrum). Mælt í krónum eða með kaupmáttarsamræmingu gjaldmiðla er það minna (um 20% að jafnaði), en mikið samt.
Af myndinni má sjá að hvergi í Evrópu var kjaraskerðingin meiri en hér á landi. Við hrundum úr efsta sæti niður í tólfta sæti. Flestar ESB þjóðirnar hafa haldið ráðstöfunartekjum sínum að mestu leyti og margar hafa aukið þær. Atvinnuleysið er stærsti vandi evrópskra heimila. Aðrar þjóðir sem eru með umtalsverða lækkun tekna heimilanna eru Bretland, Írland, Spánn og Lettland. Eftir 2010 hefur staðan versnað á Írlandi, Spáni,Portúgal og í Grikklandi. Ef miðað er við kaupmáttarleiðrétt gengi er það einungis Lettland sem er á svipuðu róli og Ísland í umfangi kjaraskerðingar.
Við getum þakkað krónunni þetta met, sem virðist án fordæma í yfirstandandi kreppu. Það var gengisfall íslensku krónunnar sem gat af sér stærstu kjaraskerðingu kreppunnar. Gengisfelling krónunnar færir umtalsverðan hluta þjóðarteknanna frá heimilunum til atvinnulífsins.
Ríkisstjórnin gat mildað kjaraskerðinguna fyrir lægri og milli tekjuhópa. Hún varð samt mikil fyrir flesta. Skuldir heimilanna eru nú að jafnaði svipaðar og var fyrir hrun (2006-7) og mikil hækkun vaxtabóta léttir skuldabyrðina. Hins vegar eru ráðstöfunartekjurnar enn miklu lægri en var fyrir hrun. Þess vegna er þetta enn svona erfitt fyrir heimilin.
Íslensk heimili eru leiksoppar þeirra afla sem hafa hag af viðhaldi krónunnar. Gengisfellingarkrónunnar.
Við höfum svo fengið hækkun ráðstöfunartekna á árinu 2011 og 2012, en það er enn alltof lítið miðað við umfang kjaraskerðingarinnar.
Boltinn er hjá aðilum vinnumarkaðarins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.