Leita í fréttum mbl.is

Um hvað á að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Tók eftirfarandi bréf af siðu Egils Helgasonar:

"Vegna umræðu um ISESAVE og hugsanlega synjun forseta er ég mjög efins um að allir geri sér grein fyrir um hvað þjóðin ætti að kjósa ef svo bæri undir. Mér sýnist að leggja yrði fyrir þjóðina spurningu um fyrirvara. Hafa verður í huga að það er ekki spurning um að þjóðin geti hafnað að greiða ICESAVE-reikninginn enda var samningur gerður og fyrirvarar lögfestir sl. sumar með lögum nr 96/2009. Þjóðin hefur því nú þegar samþykkt að borga reikning óráðsíumanna, spurning er bara hvernig það er útfært og hversu lengi. Synjun forseta nú þýddi að kjósa yrði milli nýju fyrirvaraútgáfunnar og þeirrar gömlu. Mismunurinn liggur í efnis- og orðalagsbreytingum á þremur greinum og brottfalli tveggja greina. Kjörseðillinn myndi hugsanlega þurfa að innihalda báðar útgáfur fyrirvaranna til að fólk áttaði sig á því hvort segja ætti já eða nei:

Hvorn kostinn í eftirfarandi fjórum greinum laga nr. 96/2009 telur þú heppilegri á fyrirvörum Alþingis til uppgjörs á ICESAVE-skuldbindingum Íslands?

Lög nr. 96/2009 (breytingar nú í des. eru skáletraðar)

1. gr. Ríkisábyrgð á Icesave-lánasamningunum.
Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, með þeim fyrirvörum sem fram koma í lögum þessum og gildir til 5. júní 2024.
Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur að lánveitendur samkvæmt þeim lánasamningum sem greinir í 1. mgr. viðurkenni að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum.
Ríkisábyrgðin afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna og fyrirvörum þeim sem koma fram í lögum þessum. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.

Breyting á 1.gr. í þjóðaratkvæði:

1. gr. laganna orðast svo:
Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna skuldbindinga sjóðsins sem stafa af lánum hans frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 og viðaukasamningum 19. október sama ár til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Þessi heimild takmarkast ekki af öðrum ákvæðum laganna. Ábyrgðin, sem í samræmi við lánasamningana gengur í gildi 5. júní 2016, ræðst einvörðungu af ákvæðum samninganna
.

2. gr. Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar.
Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar samkvæmt lögum þessum eru:
1. að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið sem samþykkt voru 14. nóvember 2008 á milli Íslands, Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkja, þannig að tekið verði tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Í þessu felst m.a. að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra,
2. að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. Sama á við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, sem njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar,
3. að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins og rétti handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.

Breyting á 2. gr í þjóðaratkvæði

Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.
Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif slík úrlausn kunni að hafa á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim.

3. gr. Efnahagsleg viðmið.
Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka þannig að Íslandi verði gert kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á samningunum skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 IV. greinar úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Að auki verði í úttektinni lagt mat á þær breytingar sem orðið hafa miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.
Við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum skal einnig tekið tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verði sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku.
Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er miðuð við hámark á greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hámark miðast á árabilinu 2017–2023 við 4% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og 2% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Hlutföll þessi verða helmingi lægri árin 2016 og 2024. Greiðslur skulu endurskoðaðar um leið og endanlegar tölur um verga landsframleiðslu liggja fyrir.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skv. 3. mgr. skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á árabilinu 2016–2024 annars vegar í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og hins vegar í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Útreikningur á greiðslum skv. 3. mgr. skal byggjast á meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.
Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr. Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

4. gr. Lagaleg viðmið.
Ekki hefur fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland þótt það hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr þessu álitaefni skorið. Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að slík ábyrgð hvíli ekki á Íslandi eða öðrum aðildarríkjum EES-samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.
Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum miðast við það að um úthlutun eigna við uppgjör Landsbanka Íslands hf., eða þrotabús hans, fari samkvæmt íslenskum lögum eins og þau voru 5. júní 2009, þ.m.t. lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Ábyrgðin takmarkast við að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Verði niðurstaðan á þann veg skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um það hvernig farið skuli með eignir úr búi Landsbanka Íslands hf. og áhrif þess á samningana og skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
Fari ekki fram viðræður skv. 1. eða 2. mgr. eða leiði þær ekki til niðurstöðu getur Alþingi takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum í eðlilegu samræmi við tilefnið.

Brottfall 3. og 4. gr. í þjóðaratkvæði

5. gr. Endurskoðun lánasamninganna.
Ákvörðun um að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra skal tekin með samþykki Alþingis. Við þá ákvörðun skal m.a. byggt á forsendum ríkisábyrgðarinnar og viðmiðum samkvæmt lögum þessum. Meta skal hvort óska skuli endurskoðunar eigi síðar en 5. október 2015 og skal niðurstaða þess mats lögð fyrir Alþingi fyrir lok þess árs.

Breyting á 5. gr í þjóðaratkvæði:

Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á lánasamningunum, sbr. endurskoðunarákvæði þeirra, skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 IV. greinar úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Að auki verði í úttektinni lagt mat á þær breytingar sem orðið hafa miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.
Við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum skal einnig tekið tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verði sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku.
Ákvörðun um að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra skal tekin með samþykki Alþingis. Meta skal hvort óska skuli endurskoðunar eigi síðar en 5. október 2015 og skal niðurstaða þess mats lögð fyrir Alþingi fyrir lok þess árs.

Greinar 6-9 í lögunum frá sl. sumri eru óbreyttar og færu því ekki í þjóðaratkvæði.

Mér finnst að við höfum gert okkur nú þegar að nógu miklu athlægi erlendis til að fara nú ekki að setja svona hluti í þjóðaratkvæði, því það breytir engu um kvöð okkar á að greiða þennan ICESAVE-hrylling. Við værum einungis að fresta uppbyggingunni og skaða okkur sjálf enn frekar en orðið er"

 

Athugið að Blá og skáletraða er það sem þarf að kjósa um.

Alveg er ég hjartanlega sammála bréfritara


mbl.is Undirskriftir gegn Icesave vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þá skalt þú borga!

Sigurður Haraldsson, 3.1.2010 kl. 09:25

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það er enginn að fara greiða atkvæði um að borga eða ekki borga. Sigurður! Það er spurnng hvort við ætlum að borga eftir lögum frá því ágúst eða eftir þessum lögum sem nú eru hjá forseta.

Svo hættu þessari vitleysu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 09:31

3 Smámynd: Sigurjón

Borga eftir ágústlögunum.  Ekki spurning!

Sigurjón, 3.1.2010 kl. 09:38

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Og hvað er betra við þau Sigurjón ? Indefence sagði þá að fyrirvaraleiðin væri afleit vegna þess að hún stæðist ekki fyrir dómi.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 09:41

5 Smámynd: Sigurjón

Hún er skárri en uppgjöf.  Þá þyrftu alla vega ESB að sækja þetta fyrir dómi og það gæti nefnilega orðið vesen fyrir þau.  Það er ýmislegt hægt að tína til sem gæti orðið Bretum óþægilegt fyrir dómstólum, sem hefur þeim ekki orðið óþægilegt fyrir þeirra fulltrúum á Alþingi.

Sigurjón, 3.1.2010 kl. 09:56

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta eru nú dálítið kjánalegar pælingar. Ljóst er að þó forsetinn staðfesti ekki þessa lagasmið, er ekki verið að fara í nýja lagasmíð í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar getur ekkert annað verið valkvætt en að samþykkja eða hafna umræddum lögum, sem heild, óháð innihaldi einstakra greina.

Mig undrar stórlega hversu mikinn ótta menn bera í brjósti gagnvart höfnun þeirra afarkosta sem felast í þessum lögum. Mér sýnist augljóst að hefðuð þið og ykkar líkar verið uppi þegar landhelgisbaráttan stóð yfir, væru Bretar enn að veiða hér uppi í fjöruborði.

Það þarf kjark til að standa sjálfstæður í stormi efnahagsmála heimsins, einkanlega þar sem raunverðmæti eru ekki til fyrir allri þeirri umsetningu sem vestræn efnahagsútþennsla hefur tekið á sig undanfarna áratugi. Við verðum að vera okkur meðvituð um að annað hvort stöndum við í fæturna og verðjum réttarstöðu okkar gagnvart auðlindum okkar, eða lendum í fátæktargildru, eins og öll önnur undirmálslönd, sem búið hafa yfir miklum auðlindum, sem þau fengu einskis að njóta af.

Það er löngu orðið ljóst að utan Íslands eru engin stjórnvöld eða sterkir áhrifahópar, sem munu bera okkur á höndum sér út úr þeim ógöngum sem við sjálf höfum komið okkur í. Virðing okkar, út á við, mun fara eftir því hvot við látum kúga okkur til samninga sem munu leiða til yfirtöku annarra ríkja á helstu auðlindum landsins, eða hvort við höfum kjark til að berjast til sigurs og sjálfstæðis, líkt og fyrri kyslóðir þessa lands.

Guðbjörn Jónsson, 3.1.2010 kl. 10:04

7 identicon

Ef það er svona flókið að kjósa þarf þá ekki að birta lög allra stjórnmálaflokkanna og stefnuskrá hvers einstaks þingmanns í öllum málum við þingkosningar?  Flækjufótur!

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 10:15

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Kjánaskapur er ekki fólginn í því að hugsa aðeins fram fyrir nefbroddinn Guðbjörn Jónasson. Hugleiðingar Magnúsar og Egils Helgasonar eru í hæsta mála mjög eðlilegar og raunhæfar. Fáið í kring um ICESAVE  er með ólíkindum og fólk teymt áfram á fölskum forsendum. Málið snýst ekki um þjóðahag, frekar en það snýst um símastaur. Valdaklíkurnar eru að missa völdin og eru í áróðursherferð til að halda völdum.

Málið er einfalt - peningar - völd - peningar - völd.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.1.2010 kl. 11:32

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Kjánaskapur er ekki fólginn í því að hugsa aðeins fram fyrir nefbroddinn Guðbjörn Jónasson.

Hugleiðingar Magnúsar og Egils Helgasonar eru í hæsta máta mjög eðlilegar og raunhæfar. Fárið í kring um ICESAVE  er með ólíkindum og fólk er algjörlega teymt áfram á fölskum forsendum.

Málið snýst ekki um þjóðahag, frekar en það snýst um símastaur. Valdaklíkurnar eru að missa völdin og eru í áróðursherferð til að halda völdum.

Málið er einfalt - peningar - völd - peningar - völd.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.1.2010 kl. 11:33

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er einfalt. Þjóðin myndi eiga um sömu þrjá kosti að velja og hver alþingismaður. Samþykkja, synja eða taka ekki afstöðu.

Því miður vantar ákvæði um lágmarksþáttöku en vegna þeirrar nýlundu og þeirrar stærðar sem þetta mál er af er varla hætta á að hún verði of lítil.

Ómar Ragnarsson, 3.1.2010 kl. 13:59

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

En Ómar er ekki nauðsynlegt að dæmið sé sett upp þannig að fólk taki upplýsta afstöðu? Ég held t.d. að stórhluti fólks haldi að það sé að hafna því að borga. Og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað er lítill munur á fyrri lögum og þessum. Og spurning hvort að fólk mundi ef það vissi það vera tilbúið í að fella þessi lög með tilheyrandi stjórnarskiptum og deilum við umheiminn.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 16:24

12 identicon

Málflutningur stuðningsaðila IceSave samningsins hefur fylgt eftirfarandi þrepum:

Fyrst kom grímulaus hræðsluáróður ("Ef við borgum ekki verðum við Kúba norðursins! Ef við borgum ekki þá verða settar á okkur viðskiptaþvinganir!")

Þegar það virkaði ekki, þá var reynt að koma inn samviskubiti og efasemdum hjá þjóðinni með því að tala um hvað hún væri vitlaus ("Þjóðin er svo heimsk! Hún veit ekki um hvað málið snýst! Hana vantar upplýsingar! Þið eruð svo vitlaus að þið skiljið þetta ekki!")

Þegar þetta virkaði ekki heldur, þá var reynt að gera Indefense undirskrifasöfnunina tortryggilega ("Þetta er marklaust! Það getur hver sem er skráð Mikka Mús! Tveggja ára frændi minn skráði sjálfan sig og alla krakkana á leikskólanum! Þetta er frat!")

Ekkert af þessu hefur virkað, og nú er komið að lokaútspili spunakarla og -kerlinga: Að halda því fram að það sé marklaust að vísa þessu til þjóðarinnar af því að það sé ekkert ljóst um hvað eigi að kjósa, þetta sé svo flókið og snúið að þjóðin fatti þetta ekki o.s.frv. o.s.frv.

Örvæntingarfullar tilraunir, allt saman. Ekki vanmeta þjóðina - það hafa margið farið flatt á því. Ég hygg nefninlega að þjóðin sé töluvert betur upplýstari um þetta mál en þið haldið, og þið bakið ykkur bara en meiri fyrirlitningu með því að ýja að því að þjóðin ráfi um, sinnulaus og slefandi, og viti ekkert í sinn haus.

P.S.: Ég get ekki annað en lýst yfir aðdáun minni yfir því að "jafnaðarmenn" skuli nú hópast inn á bloggið og skrifa langar ræður um nauðsyn þess að fram fari "upplýst umræða".

"Upplýst umræða" ?

Bíddu við ... eruð það ekki þið sem vilduð í upphafi knýja samninginn í gegn án þess að leyfa þingmönnum að svo mikið sem lesa hann? Eruð það ekki þið sam hafið ítrekað orðið uppvís að því að leynda mikilvægum gögnum og stinga undir stól? Voruð það ekki þið sem stöðvuðuð flæði upplýsinga frá erlendum lögmannsstofum til Alþingis á síðstu metrum umræðunnar og þvinguðuð svo í gegn atkvæðagreiðslu áður en alþingismenn fengu þau gögn sem beðið var um?

Segðu mér: hvernig skilgreinir þú hugtakið "upplýst umræða"?

Birgir Finnsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 17:40

13 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það stóð aldrei til að láta samningin fara óséðan í gegnum þingið. Það átti hinsvegar að afgreiða málið hratt. Alþingi hefði ekki hleypt samningnum í gegn óséðum.

Heyrðu Birgir: Upplýst umræða varðandi þetta er t.d.

- Að fólk viti um hvða það er að kjóst. Þ.e. að það er ekki að kjósa um hvort eða ekki eigi að borga Icesave, heldur eftir hvað lögum við tökum ábyrgð. Þessum nú eða þeim sem samþykkt voru í Ágúst.

- Að gögn sem nú eru á www.island.is verði takin saman af fagfólki þannig að þeir sem nenna ekki að lesa þessar þúsundir síðana sem þar eru fái málið einfaldað til að sjá möguleika í stöðunni.

-Skýran samanburð á lögunum frá því í ágúst og þessum sem nú eru hjá forseta.

Bendi þér svo á Birgir að ég hef fylgst með stjórnmálum síðan fyrir 1980. Og aldrei ég endurtek aldrei hefur almenningur haft aðgeng að svo miklum gögnum sem nú. Maður hefur aldrei heyrt minnst á minnisblöð embættismanna, tölvupósta og þannig göng áður í tengslum við nokkuð mál. T.d. Þegar við gengum í EES eða í EFTA. Aldrei hefur fólk fengið aðgang eins og það hefur að þessum gögnum inn www.island.is

Svo má benda þér á villu þíns vegar að við erum ekki lengur að hafna því að borga Icesave. Það er bara hverning við ætlum að borga það. Og þá eru bæði lögin frá Ágúst og svo nýju lögni mjög lík.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 18:01

14 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

En ég hef líka talað fyrir því að ríkisstjórnin hefði frá upphafi haldið úti útvarps- og/eða sjónvarpsþáttum þar sem ráðherrar og/eða upplýsingarfulltrúar hefðu vettvang til að upplýsa þjóðina um hvað er verið að gera, hvert er stefnt og af hverju þessar leiðir séu valdar. Kannski svona vikulega. Finnst með ólíkindum að þessi leið hafi ekki verið valin. Nóg fyrir þetta fólk að ræða um. Og einmitt að matreiða upplýsingar þannig að fólk skilji hvað verð er að gera

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 18:09

15 identicon

Ég vill reyndar benda þér á Magnús þar sem þú ert svona helvíti mikið klárari heldur en restin af fólkinu, að við erum ekkert að fara að kjósa um hvort við borgum ágúst samninginn eða þennan nýja. Við erum einfaldlega að fara að kjósa um hvort við séum reiðubúin að borga þann nýja. Við skulum muna að Bretar og Hollendingar eru enn ekki búnir að samþykkja fyrirvara samninginn, svo hann stendur eins og er ekki.

Ef nýji "samningurinn" er felldur þarf ríkisstjórnin að gera upp við sig hvernig þau vilja sækja málið, því það er fullt af leiðum í stöðunni. Ég persónulega tel að ríkisstjórnin dragi málið til baka og fari ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklegast sem ég tel er að þau fari út og þrýsti á að fá samþykki á ágúst samningnum, því það er skársti kosturinn þeirra í stöðunni án þess að stugga Bretum og Hollendingum of mikið.

Gunnar (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 19:06

16 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Stjórnin segir eðalilega af sér Gunnar ef að málið verður fellt. Stjórnin er búin að segja að hún komist ekki lengra með málið þannig að hún segir af sér. Þá gefst snillingunum í Indefence í skjóli nýrra stjórnvalda tækifæri á að sýna snilli sína í ´samningagerð og eins að sýna okkur að þetta hafi engar slæmar afleiðingar. Væntanlega verður það stjórn Sjálfstæðis- framsóknar, hreyfingarinnar og nokkrir þingmenn Vg sem sjá þar leið til að hætta við aðildarviðræður við ESB. Eða þá að það verða kosningar eftir þjóðaratkvæðagreiðslana.

Held að ef það væru fullt af leiðum sem við hefðum í þessu máli þá hefðu stjórnvöld farið þær leiðir frekar en að berja í gegn má sem þau varla höfðu meirihluta fyrir. Finnst með afbrigðum að menn haldi að stjórnvöld hafir skoðað alla aðra kosti en þetta lán.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 19:16

17 identicon

Verd ad taka undir med Hólmfrídi:

Málið er einfalt - peningar - völd - peningar - völd.

Og verd ad baeta vid:  Íslendingar eru thad nautheimskir ad thridjungur theirra vill kjósa Spillingarflokkinn.

Íslendingar hafa ÖRUGGLEGA laegstu medalgreind allra thjóda. 

Jói (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 19:23

18 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Skrítið að engin hér hefur talað um samanburð á þessu lögum sem er í raun verið að fjalla um í þessari færslu. Ef fólk skoðar þetta þá er í raun verið að mestu að færa inn í samning fyrirvarana sem samþykktir voru í ágúst. Nema að nokkra og þá helst að 2024 fellur ríkisábyrgð ekki sjálfkrafa niður. Enda voru nú flestir á að það þætti viðsemjendum okkar óaðgengilegt. Þó stóð í fyrri lögunum um fyrirvara að ef að lánið væri ekki að fullu greitt þá ættu aðilar að setjast niður og semja um framhaldið. En sumir þingmenn svo gjörsamlega úr veruleikasambankdi að þeir tölud að þá mundi bara eftirstöðvar vera afskrifaðar. Auðvita yrði samið um framhalds greiðslu 2024 með ríkisábyrgð.

Veit að flestir skuldarar væru ánægðir með að geta lengt lán sín einhliða án þess að þurfa að gera annað en að tilkynna það. Þannig er það í nýju lögnum.

Þá er inn í nýju lögunum fullvissa um að ekki verði gengið að helstu eignum ríkisins.

Og svo er annað atriði að vexti á alltaf að greiða en höfðustóllin ræðst af greiðslugetu okkar skv. vöxti á hagvexti.

Önnur atrið eru eins og fyrirvaranir nema að nú eru þeir í formlegum samningi.

En fólk fer yfirleitt út í allt annað og þá helst með slagorðum sem Höskuldur, Indefence og Sigmundur Davíð hafa prentað inn í þjóðina án þess að fólk hugsi út í hvað það þýðir í raun og veru.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 19:43

19 identicon

Magnús: Hvað áttu við með "Svo má benda þér á villu þíns vegar að við erum ekki lengur að hafna því að borga Icesave" ?? Það kom HVERGI fram í mínu innleggi að ég héldi það. Líkt og meirihluti þjóðarinnar þá er ég fyllilega meðvitaður um að búið er að samþykkja (síðasta haust) lög um greiðslu á Icesave; það sem við erum að mótmæla og viljum ekki samþykkja eru þessi síðari lög, sem fella úr gildi afar mikilvæga fyrirvara sem voru í fyrri lögunum.

Ekki leggja mér orð í munn eða gefa mér að ég sé heimskur. Leyf mér að endurtaka það sem ég skrifaði áðan: þið (þ.e. Icesave-samþykkjendur) bakið ykkur bara en meiri fyrirlitningu með því að ýja að því að þjóðin ráfi um sinnulaus, slefandi og fávís, bara af því að hún er ekki sammála ykkur.

Og "Jói"" sem skrifaði kl. 19:23: "Íslendingar hafa ÖRUGGLEGA laegstu medalgreind allra thjóda. " - Takk fyrir að staðfesta allt sem ég skrifaði hérna fyrr í dag um málefnafáttækt Icesave-sinna: mér sýnist þú vera kominn yfir hræðsluáróðurs-stigið og vera núna fastur á "Oh! Þjóðin er ekki sammála mér! Hún er svo heiiiimsk!" stiginu.

Veistu: talandi um meðalgreind þjóðarinnar þá gæti ég trúað að hún tæki töluverðan kipp upp á við ef fólk eins og þú flytti úr landi.

Birgir (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 19:43

20 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Af því að þú kallaði mig og okkur sem viljum ljúka þessu:"Málflutningur stuðningsaðila IceSave samningsins hefur fylgt eftirfarandi þrepum." Og þar sem ekki er verið að tala um Icesave samninginn sjálfan þá snertir afgreiðsla þessara laga ekki neitt nema ríkisábyrgð. En málflutningur þeirra sem vilja ekki samþykkja ríkisábyrgðina eins og hún er í þessum nýju lögum er alltaf að þar með séum við laus undan greiðslum á lánum sem við samþykktum að Bretar og Hollendingar veittu okkur og greiddu innistæðueigendum í sínum löndum. Svo leyfa menn sér að segja að þeim muni ekkert um þetta. En ég sló á það að þetta eru um 17.þúsund krónur á alla íbúa þessara landa. Held að þeir verð ekki glaðir ef að skattarnir þeirra verða hækkaðir út af sviknum lofrðum okkar.

Vona að seinnihlutinn hjá þér hafi verið til hans Jóa.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.1.2010 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband