Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Málflutningur Sigmundar Davíðs gengur ekki upp!

Mér svona datt það að þegar fólk er að hlusta á Sigmund Davíð tala um gríðalegt tækifæri að lækka lán heimila á kostnað vogunarsjóða sem eiga kröfur á bankana, - af hverju spyr engin hvernig það megi vera þegar að verðtryggð lán skiptast svona:


Verðtryggð lán til fasteignakaupa

Eignasafn Íbúðalánasjóðs : 950milljarðar (69,3%)

Lífeyrissjóðirnir: 175milljarðar (12,8%)

Innlánsstofnanir Bankar og fjármálafyrirtæki.: 245milljarðar (17,9%)


Þ.e. að bankarnir eiga ekki nema um 18% af þessum verðtryggðu lánum. Íbúðalánsjóður (ríkistryggður) og Lífeyrissjóðir sem borga í dag um 60% af framfærslu eldriborgara og flestra öryrkja eru með 82% af lánunum. Því er ljóst að niðurfærsla á þessum lánum lendir beint eða óbeint á skattgreiðendum. Því bara sé ég ekki hvernig að vogunarsjóðirnir hans Sigmundar Davíðs koma inn í þetta dæmi.
Og ég sé ekki hvernig í ósköpunum að við getum leiðrétt um 82% af þessu verðtryggðu lánum sem eru jú annað hvort á ábyrgð okkar eða sjóða í eigu allra þeirra sem greiða í lífeyrissjóði verði leiðrétt nema að skattar verði hækkaðir eða bætur og þjónusta verið skorinn niður um 50% og fólki gert að ala önn fyrir sjúkum og öldruðum ættingjum sínum sjálf. Og börnin að greiða megnið af skólakosnaði í framhalds og háskólum. En þannig er það náttúrulega í fyrirmyndaríkjum Sjálfstæðisflokksins og sennilega Framsóknar.


Fólk er farið að gleyma heldur betur! Það eins og sumir trúi því í dag að hér hafi ekki verið neitt hrun.

Flott samantekt hjá Illuga Jökulssyni. Takið sérstaklega eftir því að menn eru að reyna að færa hér allt í gamla horfið fyrir hrun. Sömu mennirnir og sömu flokarnir vilja komast í völdin( tók hann í heild sinni af eyjan.is:

Það sem slagurinn stendur um

Já, ég var að horfa á Hamfarakenninguna eftir Naomi Klein í sjónvarpinu í gær.

Lítið á hana hér – myndin fjallar í stuttu máli um hvernig auðvaldið og krókamakarar í samfélaginu nota sér krísur af öllu tagi til að kasta út græðgisneti sínu, sem kennt er við frjálshyggju.

Sem og til að kveða niður alla sem ógna gróðasókn hinna fáu með kröfum um að fleiri fái að njóta.

Og ef það vantar krísur, þá búa peningaöflin þær bara til. Þótt það kosti jafnvel stríð.

Því þá hefur almenningur um annað að hugsa en verjast framgangi þeirra.

Fyrir hátt í fimm árum reið mikil krísa yfir Ísland.

Þótt við eigum ekki að dvelja um of í fortíðinni, þá er hollt að muna hvernig var þá spáð fyrir okkur.

Málsmetandi menn hvísluðust á um það í skúmaskotum (til að hræða ekki almenning um of) að búast mætti við að tugþúsundir manna flýðu land, jafnvel allt að fimmtungur þjóðarinnar.

Þeir sem eftir sætu væru einfaldlega of fátækir til að koma sér burt.

Búast mætti við 20-30 prósenta atvinnuleysi næstu tvo áratugina.

Og matarskorti, einangrun þjóðarinnar, nær algjöru hruni innviða samfélagsins og svo framvegis.

Kannski voru verstu spádómarnir allan tímann heldur ýktir. En það er samt enginn vafi á því að þetta hefði getað farið mjög illa.

Vissulega var þessi krísa ekki skipulögð af auðvaldsöflunum, þótt þau bæru alla ábyrgð á henni.

En þau fóru samt að reyna að viða að sér vopnum sínum – til að notfæra sér hana í sína þágu.

Byrjuðu smátt – tóku upp gamalt baráttumál um að selja brennivín í matvörubúðum, svo við hefðum þó eldvatn á kvöldin til að hugga okkur við.

Sem betur fer tókst að ýta peningaöflunum úr brúnni á þjóðarskútunni þar sem hún hafði sogast í brimgarðinn …

Og síðastliðið haust, fjórum árum eftir hrun, virtist blasa furðu jákvæð mynd við.

Eftir langa og erfiða niðurleið var stöðugleika náð. Gylfi Zoëga lýsti því yfir að kreppunni væri lokið.

Auðvitað ekki í þeim skilningi að aftur væri runninn sá tími frá 2007 þegar við höfðum það sem „best“. Það er að segja þegar sápukúlurnar flugu sem fagurlegast.

Heldur í þeim skilningi að þaðan í frá lægi leiðin aftur upp á við.

Kannski hægt, en samt ótvírætt upp á við.

Fólksflótti hafði þá stöðvast. Og atvinnuleysið minnkað mikið frá því það var mest, þótt enn sé það vissulega töluvert meira en okkur þykir hæfa.

En ýmsar framkvæmdir á döfinni, svo vonir voru skikkanlegar um að brátt fækkaði atvinnulausum enn.

Skjaldborg hafði verið reist um hag hinna verst settu. (Já, ég þori að taka mér þetta orð í munn!)

Vissulega voru margir fastir í erfiðum skuldum – en ýmis úrræði voru til, og altént virtist hafa tekist að kveða niður áköfustu áköllin á töfralausnir.

Og ríkisstjórnin vann – þrátt fyrir massífan andróður – að einu haldbæru leiðinni í hinum aðkallandi gjaldmiðilsmálum sem ennþá hefur verið bent á, vilji menn hætta að reiða sig á rotnandi hræ krónunnar.

Það er að segja upptöku evru gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Menn þurfa ekkert að fá í hnén yfir ESB, en aðrir flokkar hafa einfaldlega ekki lagt fram neina trúverðuga stefnu í gjaldmiðilsmálum, svo það er sjálfsagt að reyna þó þessa leið til þrautar og sjá hvert hún liggur.

Gríðarleg áróðursherferð sægreifanna gegn auknu réttlæti í sjávarútvegsmálum virtist þá runnin út í sandinn – já, það var eiginlega bara hlegið að þeirri herferð undir lokin.

Og í október lýstu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu yfir því að stjórnarskrárfrumvarp sem ríkisstjórnin hafði beitt sér fyrir skyldi verða grundvöllur að nýrri og betri stjórnarskrá Íslands.

Þetta leit sem sagt allt tiltölulega bærilega út.

Verst var að ríkisstjórnin hafði gefið fjármálakerfinu of lausan tauminn við endurreisn bankanna, en það mátti kannski vona að þessi síðasti vetur kjörtímabilsins yrði eitthvað notaður til að setja nokkrar skorður þar á.

En já – þótt margt væri óleyst enn eftir „sjáiði-ekki-veisluna“ sem peningaöflin og pólitískir armar þeirra héldu hér og fór svo rækilega úr böndunum, þá virtist margt stefna heldur í rétta átt.

En núna hálfu ári seinna er öldin önnur.

Núna erum við skyndilega aftur orðin sannfærð um að allt sé í kaldakoli.

Og það sé allt ríkisstjórninni að kenna.

Silfurskeiðarstrákarnir sem stýra pólitískum örmum peningaaflanna standa nú á miðju gólfi þar sem lúið hreingerningafólkið er komið langleiðina með að þrífa eftir partíið og argar að ennþá sjáist ryk útí hornum og slettur á veggjum.

Skuldavandi heimilanna!

Heilbrigðiskerfið í rúst!

Dýrmætum tíma eytt í gæluverkefni eins og nýja stjórnarskrá – fuss, fuss!

Jú, heimilin glíma mörg við óhæfilegar skuldir. Brýnt er að finna frekari úrræði á því sviði. En flokkur sem nú virðist sópa að sér fylgi út á loforð um að „leysa skuldavanda heimilanna“ – hverjar eru hans lausnir? Jú – hann ætlar að stofna starfshóp sem á að taka hálft ár í verkefnið.

Það er nú allt og sumt.

Heilbrigðiskerfið – það er vissulega lítt fyrirgefanlegt af ríkisstjórninni að hafa látið grípa sig í bólinu þar. En margt hefur samt verið ofsagt um þau mál síðustu vikur. Heilbrigðiskerfið er EKKI hrunið, og ekki einu sinni að hruni komið.

Og tíminn þennan síðasta vetur stjórnarinnar hefur vissulega ekki verið nýttur í að setja peningaöflunum skorður.

Það hefði átt að nota tímann betur.

En það læðist samt að manni sá grunur að nú sé verið að búa til krísu, leynt og ljóst.

Líkt og Naomi Klein sýndi fram í myndinni sinni að sumir séu svo flinkir í.

Nú á beinlínis að hrópa niður hreingerningafólkið – partígestirnir eru komnir aftur í sparifötin og iða í skinninu.

Nú síðast kemur í ljós að verðbólga hefur tekið stökk í síðasta mánuði af því kaupmenn hafa velt umsvifalaust út í verðlag mjög hóflegum kauphækkunum starfsfólks síns.

Og þá heitir það enn einn naglinn í líkkistu ríkisstjórnarinnar.

En með leyfi, í hvaða lið hefur meirihluti kaupmanna yfirleitt skipað sér?

Er þeim örugglega kappsmál að hjálpa til?

Og þingmenn stjórnarflokkanna eru skammaðir fyrir að ætla að eyða síðustu dögum þingsins í að ræða nýja stjórnarskrá í stað þess að leysa skuldavanda heimilanna.

En þið fyrirgefið – guð forði okkur frá því að þingmenn „leysi skuldavanda heimilanna“ á nokkrum dögum rétt fyrir kosningar!

Það held ég yrði mynd á því!

En nú erum við sem sagt aftur orðin sannfærð um að hér ríki djúp krísa.

Og hverjir munu græða á því?

Og yfir hvað er verið að breiða?

Frá hverju er verið að dreifa athyglinni?

Jú – frá því sem vel hefur verið gert. Og það er verið – jafnvel meðvitað og markvisst – að breiða yfir þau raunverulegu áhyggjuefni sem peningaöflin hafa af náinni framtíð.

Að hér verði sett lög um réttlátara kerfi í sjávarútvegi.

Og ný stjórnarskrá þar sem ákvæði um auðlindir og upplýsingar munu skerða athafnafrelsi peningaaflanna, og ákvæði um aukin réttindi okkar allra munu leggja þeim skyldur á herðar.

Þetta er það sem slagurinn stendur um.

Ég vona að ríkisstjórnin og þingflokkar standist þrýstinginn og afgreiði sín mál.

Og líka að kjósendur standist þrýstinginn.

 


Ágæt úttekt á kosningarloforðum Sjálfstæðis-, Framsóknar- og fleiri flokka.

Fannst þessi facebook færsla ná þessu svo gjörsamlega að ég stal henni og birti hér:

 

um_skatta.jpg

 


Óttalegt bull er þetta í manninum!

Þetta er svona eins og að segja að ef að nú væri kosið um stofnun lýðveldisins 1944 þá hefði það verið annað. Það þýðir ekkert að fást við það að meirihluti fundarmanna í Vg ákvað þetta með kosningum. Alveg ljóst og  þeir sem fóru eða komu ekki á fundin höfðu bara ekki áhuga á þessu máli. Enda vita þau að flokkurinn Vg stendur fast á því eins og fleiri að engin samningur tekur hér gildi milli Íslands og ESB án þess að þjóðinn greiði um það atkvæði.

Og ef ég man rétt hefur hann verið harður andstæður allra samninga sem við höfum gert m.a. EFTA og EES og menn þá héldu því fram að þessir samningar myndu soga allt fjármagn til útlendinga, öll fyrirtæki og jarðir. Ekkert af því stóðst. T.d. var boðað þegar við gengjum í EFTA að allur iðnaður á Íslandi mundi leggjast af. Ekkert af því stóðst. Og um þessa 2 samninga má segja að þeir komu okkur upp úr því að vera með fátækjustu þjóða Vestur Evrópu upp í þá stöðu sem við höfum í dag. 


mbl.is Ragnar stendur við ummæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei nei höfum bara krónuna áfram og komum í veg fyrir alla hugsanlega samkeppni.

Nei nei verum bara með krónuna áfram. Og alls ekki reyna að komast í stöðugra og stærra efnahagsumhverfi og samstarf. Bara alls ekki þetta er svo fínt.

Afnemum bara verðtryggingu og staðgreiðum þetta allt í óverðtryggðu vöxtunum okkar. Komum í veg fyrir að hér geti skapast almennilega samkeppni erlendis frá. Því allt er vont frá útlöndum.

Allir flokkar frá upphafi lýðveldis hafa boðað ábyrga efnahagsstjórn en svona hefur ástandið verið hér stöðugt með nokkra mánaða eða ára hléum þegar hér hefur verið haldið uppi gervistöðu með engri innistæðu. ESB er svo hættulegt að það hálfa væri nóg.

En þetta ástand er svo agalega gott og hefur alltaf verið. Þetta er að minnsta kosti skoðun fólks sem segir í könnunum að það ætli að kjósa Sjálfstæðisflokk og Framsókn.


mbl.is Verðlag hækkar mikið milli mánaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Narta í hælana!

Alveg ljóst öllum sem villast hingað inn að ég fylgi Samfylkingunni að málum. Ekki það að ég sé svo heilagur í trúnni á að allt sem Samfylkingin leggur til sé bestu lausnir en í höfuð atriðum er ég sammála þeim leiðum sem Samfylking leggur til.  Og þar til að aðrar leiðir hafa verið rökstuddar þannig að ég trúi á þær þá leyfi ég mér að vera gagnrýnin á þær. Ég þoli ekki að hér séu bæði gamlir og nýir flokkar að boða leiðir sem bjargi hér öllu án þess að þær séu rökstuddar þannig að ég trúi á þær.

Leiðir svona eins og gríðarfjárfestingar á stuttum tíma fara í taugarnar á mér. Þó ég muni sumt ekki stundinni lengur man ég þó þegar verið var að ákveða að frá í Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál þá var rætt um að því myndi fylgja verðbólguskot. Jafnvel metið að það þýddi um 3% viðbótarverðbólgu í 3 ár. Og þetta myndi líka mynda þenslu sem Seðlabanka var ætlað að slá á með stýrivöxtum. Þá áttaði ég mig á að við erum lítið hagkerfi og hver svona framkvæmd myndi kalla hér á verðbólgu og þenslu og gervigengi á krónunni á meðan að erlendir aðilar væru að flytja hingað byggingarefni, fólk og peninga. Og viti menn það stóðst. Hér hækkaði gengi á krónunni og verðbólga fór af stað. Hér varð til aukin neysla, aukin skuldsetning (með hjálp gengislána) og fólk fékk allt í einu aukin kaupmátt. En þetta var allt bæði án innistæðu og tímabundið. Og viti menn svo hrundi krónan.

Leiðir svona eins og lækka öll lán. Fer í taugarnar á mér líka. Þegar það er sett svona upp að ríkið geti bara leikandi létt reddað þessu. Ég er nú hluti af þeim sem þetta hlýtur að lenda á sem og allir aðrir skattgreiðendur. Sem og á hverjum á þá að lenda þegar fólk fer að lenda í vandræðum með óverðtryggðu lánin. Eða vegna þess að það lækkar íbúðaverð vegna þess að fólk getur vegna greiðslubirgði af nýjum óverðtryggðum lánum ekki tekið há lán af því leiðir verðlækkun sem leiðir til þess að allir sem eru með nýleg lán skulda meira en virði íbúða. 

Svona gæti ég haldið áfram. Því mun ég fram að kosningum hvar sem ég kemst til þess gagnrýna svona óvandaðar hugmyndir. Það er verið að sýsla með hag allrar þjóðarinnar. Og það er bara ekki hægt að rjúka í aðgerðir sem svo sýna sig að valdi okkur kannski óbætanlegu tjóni.  T.d. nú er ljóst að breytingar á Íbúðalánasjóð sem gerðar voru 2002 gera það að verkum að hann getur ekki borgað upp lán sem honum hvíla þó hann ætti fyrir þeim. Og svo getum við talað um 90% lánin og fleira og fleira. 

Svo ég verð í athugasemdum á ýmsum stöðum í enn meira mæli en ég hef verið


Mundi maður ekki segja að fylgistap Sjálfstæðismanna væri mest áberandi.

 Framsókn fer jú upp um um 2% rúmlega sýnist mér en Sjálfstæðisflokkur niður um hvað 4% og .þetta var fyrir Landsfund sem þessi könnun var gerð. Þ.e. 19 til 21 febrúar. En líka skrítið að þessi könnun var tilbúin fyrir Landsfundinn og furðurlegt að hún hafi ekki verið birt á föstudeginum. Að minnsta kosti hefði Bjarni Ben orðið að breyta ræðu sinni um alla nýju þingmennina sem væru að koma inn á þing fyrir flokkinn.  Um Samfylkinguna má segja að þetta er vonandi botninn. Eins er þess að geta að þetta er byggt á svörum um 800 manns sem er ekki mjög mikið og eins þá var þetta könnun þar sem er þráspurt um hvaða flokk óákveðnir eru myndu hugsanlega kjósa. Hef aldrei haft trú á þeirri aðferð. 

 

mmr.jpg

 

framsoknidag.jpg

 


mbl.is Framsókn bætir enn við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur atriði varandi höftin og snjóhengjuna sem ég næ ekki!

  • Nú hefur verið talað um og nú siðast Bjarni Ben á Landsfundi að það þurfi að afskrifa megnið af snjóhengjunni sem eru bara krónueignir útlendinga hér.  En hvernig verður það gert um leið og við erum að reyna að fá fjárfesta hingað inn? Þ.e. meðan við erum með krónur.  Því gætu þeir ef þeir eru að hugsa um stórar fjárfestingar ekki hræðst að lenda í því að við eigum ekki gjaldeyrir þegar þeir vilja fara út síðar meir?
  • Nú segjum að þeir sem eiga þessar krónur sem vilja fara héðan út verði látnir afskrifa þær að mestu eða þær skattlagðar þá kostar það okkur samt einhvern hluta af gjaldeyrisvaraforða okkar sem við við erum eð mest að láni. En þá kemur spurningin.  Eigum við þá eftir gjaldeyrir til að borga fyrir fjárfestingarvörur t.d. vegna virkjana og stóriðju? Og eins til að borga af lánum og svo náttúrulega fyrir neysluvörum? Ekki getum við reiknað með að geta tekið frekar ilán til að byggja þann sjóð upp aftur?
  • Og er þá ekki líklegt að þó við næðum að vinna á snjóhengjunni þá værum við samt enn í þeim vanda að gjaldeyrir yrði enn dýrari og krónan enn veikari?
  • Sorry sé þetta ekki ganga upp með krónunni á næstu árum eða áratugum. 
  • Auk þess að harðar aðgerðir gegn fjárfestum og þeim sem eiga fé hér myndi að mínu mati fæla alla aðra frá. Nema að þeim verði gefinn orka og ódýrt vinnuafl. Eins og við höfum gert hingað til.  Og hverju skilar það okkur til lengdar? Nokkur hundruð störfum hver virkjun.  Og hún bara rétt sendur undir sér.

Vissuð þið þetta? Þetta eru blaðamenn hér ekki að upplýsa!

Já ég hlustaði í morgun aðeins á umræður um efnahags og viðskiptamál á netinu í dag frá Landsfundi Sjálfstæðismanna.

Þar kom upp ræðumaður sem bað menn að fara varlega í breytingar. Hún Sigrún Þormar bjó/býr í Danmörku. Þar eru um 40% heimila með hærri lán en andvirði íbúðahúsnæðis sem það býr í. Hún sagði einnig sem dæmi um að hún hefði árið 2007 eða 8 sett húsið sitt á sölu á 1200 þúsund dkr. Og á því heðfi hvílt um 800 þúsund dkr. lán. Í dag væri húsið enn á sölu en verðið á því komið niður í 500 þúsund dkr. en skuldin á því 800 þúsund áfram. Eins benti hún á að húsnæðiseigendur í Írlandi væru felstir með lán með um 5,5% vöxtum og þar væri eignaverð hrunið og þvi skulduðu flestir meira en þeir ættu. 

Held að engin fjölmiðill hafi skoðað þetta. Heldur gleypt það hrátt sem að fólk hefur haldið fram að hér séu heimili sérstaklega pýnd þar sem að eignamyndun sé ekki eins og annarstaðar.   Hún bað fólk að passa sig áður en það fullyrti að við værum í sérstaklega slæmri stöðu.

Sá þetta líka haft eftir henni:

Sigrún Thormar hagfræðingur var sama sinnis. Hún sagðist andvíg „jólasveinahagfræði“. Hún hefði misst húsnæði sitt 1984 þegar vísitala launa og lána var aftengd og aftur í Danmörku þegar stýrivextir fóru í 11% á þeim tíma þegar danska krónan var tengd þýska markinu svo uppfylla mætti Maastrict-skilyrðin. Það hefði verið gert í þágu stöðugleika.

En eins og venjulega komu þarna líka fólk sem virðist ekki átta sig á því þegar það segir að Lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður eigi að taka á sig þessar hækkanir lána, að ríkið og lifeyrissjóðir eru fjármagnaðir af okkur bæði í sköttum og greiðslum og því þýðir þetta að taka peninga úr vösum allra og dreifa á færri sem reyndar þurfa að borga það líka með hærri sköttum. 

 


mbl.is Leggjast gegn afskriftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var þetta stórmannlegt hjá konu sem boðar ný vinnubrögð í stjórnmálum.

Það er nú ekki eins og Hanna Birna hafi riðið feitu hrossi frá Borgarstjóraferli sínum í Reykjavík. Og það er ekki stórmannlegt hjá henni að byrja feril sinn í stjórnmálum á landsvísu að ráðast með frösum að núverandi stjórnvöldum. Svona merkingarlausir frasar sem einhver hefur stungið að henni.

Svona til að byrja með að kenna stjórnvöldum um vinnubrögð í stjórnmálmu er náttúrulega bráð fyndið. Svona í ljósi framkomu félaga hennar í Sjálfstæðisflokknum þetta kjörtímabil.

Og að hlusta á þjóðina það er nú ekki beint hægt að segja að félaga hennar hafi gert það. Hvað t.d. með 

  • Nýja Stjórnarskra
  • Veiðigjald
  • Kvóta og fiskiauðlindina okkar.
  • Rammaáætlun

Og fleira og fleira. 

Það er líka eins og hún hafi ekki áttað sig á því að hér varð hrun og ríkissjóður var í upphafi þessa kjörtímabils rekin með um 200 milljarða halla.

Þetta ættu kannski hún og félagar hennar að skoða þegar þeir fara að útfæra þessi loforð sem þeir eru búnir að gefa síðustu daga og hljóða upp á að lækka skatta á efstu tekjur og væntanlega að færa þann þunga yfir á þá sem lægst hafa launin. Og eins hvernig þeir ætla að afnema veiðigjöld, skatta og gjöld á fyrirtæki og samt að skaffa milljarðatugi í að borga afslátt á tekjuskatta til skuldara. Þetta væri voða flott ef þeir hafa einhverja leið til að skaffa peninga. Því að aukin fjárfesting skilar engum auknum peningum til ríkisins fyrr en í fyrsta lagi á næsta eða þar næsta ári. 


mbl.is Fólk öðlist trú á framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband