Í umræðuþætti á Stöð2 í gær lét Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að því liggja að gagnrýni mín á tillögu XB um leiðréttingu á heimilisskuldum sem endemis rugl byggðist á pólitískri hentistefnu þar sem ég væri í framboði í kosningunum á morgun.
Hann á auðvitað rétt á því að beita sér í sinni pólitík, bætti hann við.
Hér er um skipulega hagræðingu á staðreyndum að ræða.
- Ég er ekki í framboði.
- Ég tala ekki gegn betri vitund um hagfræðileg málefni.
- Ég hef gagnrýnt glórulausa peningahagfræði um langt árabil.
I skoðanaskiptum við forystumann í Hagsmunasamtökum heimilanna fyrr í dag vegna málsins setti ég fram eftirfarandi samantekt um viðfangsefnið:
Ef markmiðið er að leiðrétta húsnæðisskuldir þannig að greiðslubyrði vegna þess lendi ekki á ríkissjóði/almenningi þá er um þrjá kosti að velja.
- Að láta lánveitendur borga brúsann.
- Að leggja skatt á gjaldeyriseignir þrotabúanna.
- Að skipta út peningum í umferð fyrir nýkrónur að hætti Vestur-Þjóðverja eftir síðari heimsstyrjöld.
Síðastnefnda leiðin myndi væntanlega kosta Sigmund Davíð og Bjarna Ben dágóðan skilding og lánastofnanir/lífeyrissjóðir munu njóta stuðnings XB og XD í andstöðu gegn fyrstu leiðinni. Eftir stendur því leið 2 að leggja skatt á gjaldeyriseignir þrotabúanna.
Markmið mitt með skrifum um hugmyndir XB hefur miðað að því einu að sýna fram á að þær ganga ekki upp og sýna þannig að ekki verður um villst að Efnahagsteymi XB er ekki í stakk búið til að takast á við skuldavanda heimila og þjóðarbús á næsta kjörtímabili.