Tveir pennar á eyjan.is, þau Stefán Ólafsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, deila um hugmyndir XB um leiðréttingu á skuldastöðu heimilanna með krónueignum úr vasa erlendra kröfuhafa í þrotabú Glitnis og Kaupþings.
Þar sem ég tel hugmyndir XB vera RUGL þá vil ég leggja orð í belg og útskýra þær peningafræðilegu forsendur sem endurspeglast óbeint í umsögn minni, en ættu að vera ljósar öllum sem hafa hugleitt málið.
Forsendurnar má setja fram í stuttu máli sem hér segir:
- Allar krónueignir kröfuhafanna eru bókhaldsstærðir en ekki raunstærðir (t.d. gull).
- Í bókhaldsstærðunum býr óvirkur kaupmáttur en ekkert raunvirði.
- Krónueign kröfuhafanna er 400 ma. af ríkisskuldabréfum og reiðufé.
- Framsal til ríkisins á 300 ma. myndi lækka hreina skuldastöðu ríkisins um 300 ma.
- Heimilisskuldir eru bókhaldsstærðir hjá lánastofnunum.
- Lækkun heimilisskulda um 300 ma. fer fram með millifærslu af bókhaldsstærðum.
- Við millifærsluna hækkar hrein skuldastaða ríkisins um 300 ma.
- Í bókhaldi lánastofnana verður engin breyting á hreinni eignastöðu við millifærsluna.
- Millifærslan gerir óvirkan kaupmátt virkan til hagsbóta fyrir skuldsett heimili.
- En ríkið er jafn skuldsett eftir sem áður.
- Að öllu öðru óbreyttu hefur virkur kaupmáttur lánastofnana aukist um 300 ma.
- Aukning virks kaupmáttar (peninga í umferð) um 300 ma. er verðbólguhvati.
- Aukning virks kaupmáttar um 300 ma. yfir 20 ár dreifir verðbólguhvatanum.
- Dreifingin verður í mynd 300 milljarða ríkisskuldabréfs sem greiðist á 20 árum.
- Almenningur ber kostnaðinn af leiðréttingu heimilisskulda í báðum tilfellum.
Hugmyndir XB um leiðréttingu heimilisskulda með krónueignum úr vasa erlendra kröfuhafa samræmist ekki niðurstöðunni í lið 15.