Á síðustu fjórum árum hafa ýmis mistök verið gerð. En að mínu viti blikna þau í samanburði við þann árangur sem náðst hefur. Ég ætla að rifja upp nokkrar staðreyndir:
1. Ríkisstjórnin hefur náð fjárlagahallanum úr 216 milljörðum niður í 3,6 milljarða.
2. Þegar stjórnin tók við nam atvinnuleysið 9,3 prósentum. Í dag er það 4,7 prósent.
3. Þegar ríkisstjórnin tók við var verðbólgan 18,6 prósent en í dag er hún um 4 prósent.
4. Seinni hluta kjörtímabilsins hefur hagvöxtur á Íslandi verið með því besta sem gerist í Evrópu.
5. Á útrásarárunum var Ísland í hópi þeirra þjóðfélaga sem bjuggu við mesta misskiptingu auðs og tekna. Í dag skipar Ísland sér í hóp þeirra ríkja þar sem jöfnuður er mestur.
6. Líklega hefur engin ríkisstjórn barist jafn ötullega gegn kynbundnu ofbeldi og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Austurríska leiðin, sem veitir lögreglu heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum, hefur loksins verið lögfest. Kaup á vændi hafa verið bönnuð. Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi hefur verið fullgiltur og að sama skapi samningur Evrópuráðsins um baráttu gegn mansali. Þar að auki hefur verið gripið til margvíslegra úrræða til að stemma stigu við kynferðisofbeldi.
7. Fyrst nú hefur ríkið tekið að sér að niðurgreiða almennar tannlækningar barna.
8. Ríkisstjórnin hefur hækkað veiðigjald til að tryggja almenningi aukna hlutdeild í gróðanum í sjávarútvegi. Áætlað er að veiðigjaldið skili ríkissjóði 15 milljörðum á þessu ári sem nýtast munu til fjárfestinga af ýmsu tagi.
9. Bókhald ríkisins hefur verið gert opnara og gegnsærra en það var, meðal annars með nýjum upplýsingalögum.
10. Eftirlaunaforréttindi þingmanna ráðherra og æðstu embættismanna hafa verið afnumin.
11. Ríkisstjórnin skipaði nýjan forstjóra Landsvirkjunar sem hefur gjörbreytt stefnu fyrirtækisins í þá átt að hámarka verðið (og þar með arðinn) sem við fáum fyrir auðlindina. Fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar neitaði Landsvirkjun af einhverjum ástæðum að upplýsa almenning um orkuverð til stóriðju. Öll umræða um skynsemi stóriðjuframkvæmda var af þeim sökum út og suður. Þessu var strax breytt eftir að ný forysta tók við. (Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla: http://www.visir.is/nytur-rikisstjornin-sannmaelis-/article/2012709069963)
12. Davíð Oddsson var rekinn úr Seðlabankanum.
13. Ráðuneytum hefur verið fækkað úr 12 niður í 8.
14. Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sent Ísraelsríki fingurinn.
15. Fyrir hrun bjuggu Íslendingar við flatan tekjuskatt og eitt hægrisinnaðasta skattkerfi í Evrópu. Á síðustu árum fyrir hrun var skattkerfið orðið þannig að þeir sem mestar tekjur höfðu greiddu lægra hlutfall tekna sinna í skatt en meðaljóninn. Þessu hefur núverandi ríkisstjórn breytt. Fyrir vikið hafa skatthlutföll lækkað hjá stærstum hluta þjóðarinnar, skrifar Jón. Ásakanir stjórnarandstöðunnar og hægrimanna um skattpíningu vanhæfu vinstristjórnarinnar eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Tekjuskattar eru ennþá lægri hér en víðast hvar á Norðurlöndunum og fyrirtækjaskattur einn sá lægsti í heiminum.
16. Útgjöld til þróunarmála hafa verið aukin til muna en á árum áður stóðum við samanburðarlöndum okkar langt að baki í þessum málaflokki.
17. Fyrst nú hafa ein hjúskaparlög verið lögfest.
18. Tekist hefur að hlífa heilbrigðis- og menntakerfinu í mun meira mæli en annars staðar í Evrópu. Samkvæmt einu virtasta tímariti heims um heilbrigðismál er Ísland gott dæmi um ríki sem tókst að skera rækilega niður í ríkisrekstri án þess að það kæmi verulega niður á heilbrigðiskerfinu. Í tíð sitjandi ríkisstjórnar hafa framlög til tækjakaupa á Landspítalanum og fjórðungssjúkrahúsunum verið aukin.
19. Sótt hefur verið um aðild að Evrópusambandinu, enda bendir margt til þess að innganga í sambandið geti bætt lífskjör hér á landi. Aðildarsamningurinn verður borinn undir þjóðina þegar hann liggur fyrir.
20. Ríkisstjórnin hefur staðið sem klettur gegn ævintýralegum þrýstingi um almenna skuldaniðurfellingu. Slík skuldaniðurfelling hefði haft afleitar afleiðingar, skrifar Jón. Hún hefði kostað ríkið hundruð milljarða og því í raun þýtt miklu hærri skatta í áratugi. Þá hefði hún gagnast stóreignafólki mest og lágtekjufólki minnst. Í stað almennrar niðurfellingar hefur ríkisstjórnin staðið fyrir aðgerðum sem beinast sérstaklega að þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda.
21. Fyrst nú hefur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verið lögfestur.
22. Í stað þess að halda bönkunum í greipum ríkisins og stunda fyrirgreiðslupólitík á borð við þá sem tíðkaðist á Íslandi á árum áður, einkavæddi þessi fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar tvo af bönkunum þremur á skömmum tíma án spillingar. Það verður að teljast talsvert afrek.
23. Árið 2012 skipaði Ísland fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttismála í heiminum. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða taka gildi á þessu ári og hlutur kynjanna í ríkisstjórn og í æðstu embættum ríkisins hefur að fullu verið jafnaður. (Stjórnarráðið: http://www.stjornarrad.is/rikisstjorn/frettir/nr/502)
24. Gerð hefur verið skýrsla um eflingu græna hagkerfisins og grænna starfa.