Leita í fréttum mbl.is

Kannski rétt að skoða nýju kosningaloforð framsóknar í ljósi þess hvernig síðustu eru að enda núna!

Nú 2003 voru gefin kosningaloforð af hendi framsóknar um 90% lán. Og þessu var hrint í framkvæmd og allir flokkar tóku þátt í að útfæra þetta 2004 án þess að kynna sér viðvörunarorð og hugsanlega afleiðingar.

Nú erum við með gríðaleg loforð upp á hundruð milljarða í farvatninu. Framsókn tekur ekkert marg á viðvörunum og hlustar ekki á skammstafanir. Ætla að vona að aðrir láti þá ekki leika sér með hagsmuni okkar sem þjóðar. Bendi t.d. á færslu Gunnars Tómassonar um loforð Framsóknar:

Leiðréttingarleið XB ógnar stöðugleika

„Það er furðulegt hversu víða birtist þrá um að Framsóknarmenn hverfi frá einbeittum vilja til að koma til móts við íslensk heimili. Þeim sem vilja koma því til leiðar mun ekki verða að ósk sinni.” (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Afnám og leiðrétting. Þetta er einfalt, 15. marz 2013.)

Í þingsályktunartillögu Alþingis um málið er fjallað um einn valkost í þessu sambandi:

„Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána. Ef bið verður á því að samningar náist við kröfuhafa væri mögulegt að setja á fót leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána til að aðgerðir í þágu lántaka komist fyrr til framkvæmda og til að tryggja gagnsæi og eftirlit með leiðréttingunum. Ekki er gert ráð fyrir að peningamagn í umferð aukist með tilkomu slíks sjóðs.”

Hér verða leidd rök að því að leiðréttingarsjóðsleiðin myndi ógna fjárhagslegum og efnahagslegum stöðugleika.

Sviðsmynd.

1. Gera skal 25% leiðréttingu á 1.200 ma. verðtryggðum húsnæðislánum í gegnum leiðréttingarsjóð (LS).

2. Íbúðalánasjóður (ÍLS) á 800 ma. af heildinni en aðrir aðilar 400 ma.

3. Seðlabanki Íslands (SÍ) veitir LS 1.200 ma. vaxtalaust stofnfjárlán með færslu á reikning LS við SÍ.

4. LS innleysir útistandandi lán með 1.200 ma. millifærslu á óverðtryggða bundna reikninga ÍLS og annarra aðila við SÍ.

5. Lánin eru leiðrétt í 900 ma. óverðtryggð lán með 4% ársvöxtum og 45 ma. ársgreiðslum yfir 20 ár.

6. Á fyrsta ári innheimtir LS samtals 81 ma. af lánunum (45 ma. afborganir og 36 ma. vextir).

7. Á fyrsta ári eru neikvæð áhrif á sjóðstreymi ÍLS um 76 ma. miðað við (a) enga verðbólgu, (b) jafnar afborganir af 800 ma. höfuðstól og (c) 4% ársvexti (40 ma. afborganir og 36 ma. vextir).

8. Á fyrsta ári eru neikvæð áhrif á sjóðstreymi annarra aðila um 38 ma. (20 ma. afborganir af 400 ma. höfuðstól og 18 ma. vextir).

9. Á fyrsta ári eru því neikvæð áhrif á sjóðstreymi ÍLS og annarra aðila samtals 114 ma. (76 + 38 = 114 ma.)

10.  Þensluverkandi áhrif leiðréttingarinnar á peningamagn í umferð eru því 33 ma. (114 – 81 = 33 ma.).

11. „Ekki er gert ráð fyrir að peningamagn í umferð aukist með tilkomu slíks sjóðs”, segir í þingsályktun Alþingis um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

12. Á ofangreindum forsendum stríðir leiðréttingarleiðin gegn þessu markmiði.

„Teymi fagaðila leggi fram tillögur um fjármögnun sjóðsins, sér í lagi aðkomu ríkissjóðs og aðkomu lánveitenda auk greiðsluflæðis”, segir einnig í þingsályktun Alþingis.

Sviðsmyndin er grunnmynd sem endurspeglar helztu breytistærðir sem teymið hefði úr að spila til að ná fram markmiði ríkisstjórnarinnar varðandi áhrif LS á peningamagn í umferð.

Sjálf grunnmyndin er óraunhæf þar sem verðbólga er ekki tekin með í reikninginn. Ef ársverðbólga væri t.d. 5% myndi raunvirði innstæðna ÍLS og annarra aðila hjá SÍ rýrna um samtals 60 ma. á fyrsta ári.

Án aðgerða á tekju- og/eða útgjaldahlið fjárlaga – skattahækkana eða niðurskurðar útgjalda – getur ríkissjóður ekki bætt ÍLS og öðrum aðilum þá rýrnun án innlendrar eða erlendrar skuldsetningar upp á 60 ma.

Leiðréttingarsjóðsleiðin ógnar því fjárhagslegum og efnahagslegum stöðugleika.

Ríkisstjórn XB og XD hefur því um tvennt að velja:

(a) Að koma ekki til móts við íslenzk heimili.

(b) Að koma til móts við íslenzk heimili eftir öðrum leiðum.

 


mbl.is Fingraför Framsóknar víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Vilji maður stela elskan mín, sagði presturinn, þá á maður fyrir guðs skuld aldrei að stela frá þeim ríku. Ríkur maður á hundrað móköggla, svo veit hann ekki fyr til en það eru eftir níutíu og níu: einum hefur verið stolið. Hann mun ekki einu sinni gleyma því á sinni banastund. Fátækur maður á aðeins einn móköggul og er jafnfátækur þó honum sé stolið. Hann er búinn að gleyma því á morgun. Sá ríki kemur þér undantekningarlaust í bölvun ef þú stelur frá honum, sá fátæki nennir ekki einusinni að minnast á það. Þessvegna hafa allir sannir þjófar vit á að stela frá þeim fátæku. Það eina sem er verulega hættulegt á Íslandi er að stela frá þeim ríku og það eina sem er verulega arðbært á Íslandi það er að stela frá þeim fátæku, elskan mín".

Halldór Kiljan Laxness

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.7.2013 kl. 17:50

2 identicon

Hættan við lýðræðið og lýðræðislegar kosningar er að þá er sú hætta fyrir hendi að hreinir bófa- og fasistaflokkar komist til valda vegna lýðskrums og óframkvæmanlegra loforða. Þetta hefur sagan kennt okkur og þjóðverjar og fleiri þjóðir brenndust illilega á fyrri hluta síðustu aldar með hrikalegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina. Sem betur fer eru íslendingar fámennir og óvopnaðir og því er ekki hætta á viðlíka afleiðingum hér þótt framsóknarbófarnir komist í ríkisstjórn, en efnahagslegu afleiðingarnar eru skelfilegar. Það er óhjákvæmilegt að maður velti fyrir sér hvernig stóð á því að Íbúðalánasjóðskýrslan skyldi ekki koma út fyrir kosningar. Það hefði breytt miklu, trúi ég. En hafandi komið með þennan vinkil á stjórnmál og þjóðmál þá neyðist maður líka til að velta fyrir sér hvað á að koma í staðinn fyrir lýðræðið fyrst það hefur svona hrikalega galla. Með því að koma með þær fullyrðingar að "sérfræðingar" og "embættismenn" eigi að annast stjórnun stofnana samfélagsins, móta reglur um skatta og skyldur o.s.frv., vegna þess að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar séu í fæstum tilvikum færir um það erum við jafnframt að gefa okkur að slíkt fólk sé laust við þá galla, sem stjórnmálamenn eru haldnir, að því er virðist. En er það svo? - Sá sem þetta ritar hefur trú á því, að með því að við göngum í bandalag Evrópuþjóða, þar sem meginreglur eru skýrar og hver hefur eftirlit með öðrum og sósíaldemokratísk hugsun er það leiðarhnoða, sem stýrt er eftir, yrði okkur meira til góðs en fólk almennt geri sér grein fyrir hér á landi. Það þarf að hætta að hugsa um aðild eða ekki aðild út frá þröngum sérhagsmunum gróðapunga togaraútgerðar og rollurassapólitík. Það hlýtur að skipta þjóðina megin máli hvað verður um arðinn af auðlindinum, ekki hver dregur fiskinn úr sjó.

E (IP-tala skráð) 4.7.2013 kl. 08:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband