Leita í fréttum mbl.is

Hvað kosta tafir á frágangi Icesave okkur?

Þessi spurning vaknaði enn og aftur hjá mér þegar ég las bréf sem Egill Helgason birtir á síðunni sinni í dag. Þar stendur m.a.

"Seinni greinin endar svona: “Íslenska þingið hefur enn ekki samþykkt lagabreytingu um hvernig ríkið skuli endurgreiða Hollandi og Bretlandi útgjöld vegna innistæðutrygginga sem þessi tvö lönd tóku á sig vegna taps þúsunda sparifjáreigenda  í hruni íslenska bankakerfisins fyrir rúmu ári”.

Útlendingar eru ekki að leika Íslendinga grátt, heldur var því þver öfugt farið, íslenskir bankar sviku útlendingana.  Hrunið var ekki útlendingum að kenna – það er mikilvægt að horfast heiðarlega í augu við þá staðreynd.

Hinu stórskemmda orðspori landsins verður ekki reddað snögglega, hins vegar getur það vaxið að nýju en ekki á meðan Icesave lausnin er tafin."

Og það vekur spurningar um hvað kosta þessar tafir okkur.

t.d.

  • Hversu margar milljarðar fara í greiðslur af nýjum lánum í hærri vexti vegna þess að við föllum í ruslflokk?
  • Hversu margir milljarðar fara í vexti af lánum þar sem að við fáum ekki lán nema á afar kjörum?
  • Gætu það verið hundruð eða þúsundir næstu áratugi vegna þess að þjóðir heims hafa misst alla trú á okkur og allt traust?
  • Halda menn að einhverjir aðrir kaup þá einkaskýringu okkar að við séum ekkert ábyrg fyrir þessu heldur vondir menn í útlöndum og útrásarvíkingar?

Erlendir menn benda okkur á að við eigum að virða jafnræðisreglu milli innistæðueigenda og því segja þeir það vel sloppið að á meðan við tökum ábyrgð á öllum innistæðum í Íslenskum bönkum nema þeirra sem Bretar og hollendingar eiga. Og því gæti farið svo ef við förum í stríð að við þurfum að greiða innistæður að fullu en þá er skuld okkar um 1.400 milljarðar.

Nú eru líkur á því að þegar við förum að borga af icesave verði skuldin komin niður í 180 til 300 milljarða. Er það þess virði að fórna lánakjörum okkar næstu árin? Lánamöguleikum okkar  næstu ár eða áratugi? Hvernig á þá atvinnulífið að taka við sér ef það getur ekki fengið lán næstu ár nema á afarkjörum? Og hvað þá ef við köllum yfir okkur efnahagsstríð? Er það þess virði?

 


mbl.is Skýr vilji þjóðarinnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki vantar hræðsluáróðurinn hjá samfylkingarpennum þessa lands. Gasprandi um jafnræðisreglu sem þeir varla skilja eða geta gert skil á. Ætli þessi jafnræðisregla eigi þá ekki við um fjárfestingar á sjávarútvegi, gasi fyrir utan strendur Hollands, fjárfestingar í olíuvinnslu við strendur Bretlands?

Ætla samfylkingarpennar ekki að fara að átta sig á að mismunun eftir búsetu er mjög algegn og hefur ekkert með jafnræðisregluna að gera. Hvenar ætla svo þessir leigupennar að átta sig á því að löggjöf sambandsins gerir ekki ráð fyrir því að aðildarríki geti gengist í ábyrgð fyrir innistæðutryggingar og að ástæðan fyrir þeirri löggjöf var til þess gerð að tryggja að aðildarríki mismunuðu ekki bönkum með því t.d. að bjóða hærri tryggingar og betri með ríkisábyrgðum. Hvað kallast það þegar menn fara ekki eftir egin lögum eins virðist vera daglegt brauð í Evrópulandi ESB? Hræsni, kannski.

Það kemur ekki á óvart að kratar þessa lands gaspri eins og höfuðlaus hæsnaher enda stefna þeirra gjaldþrota og ráð þeirra bitlaus.

Landið (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 20:35

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Landid! Í EES samningum um frjálst flæði fjármags eru reglur sem banna að gera upp á milli fjárfesta og innistæðueigenda eftir þjóðerni. Og þar sem Icesave var íslenskt útibú og innistæður því í Íslenskum banka þar sem allar innistæður voru tryggðar skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið ítrekaðar síðan í október í fyrra þá er okkur óheimilt að gera upp á milli þeirra sem eiga þessar innistæður eftir því hvar þeir búa. Þetta gildir almennt um EES samninginn. Þ.e. fólk á að njóta sömu réttinda hvaðan sem þau koma með sína peninga innan EES. Út á það gengur EES samninguirnn. Jafnræði á mörkuðum! Og það á við fjármálamarkaðinn líka.!

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.12.2009 kl. 21:34

3 identicon

Það var ekki gert upp á milli einstaklinga eftir þjóðerni heldur búsetu. Slíkt tíðkast víða innan ESB og er ekki brot á jafnræðisreglu.

Þú segir að okkur sé óheimilt að gera upp á milli innistæðna eftir því hvar fólk býr, hvar eru rökin fyrir því? Lagagreinar takk fyrir.

Ríkistjórnin getur ekki skuldbundið ríkisjóð með einhliða yfirlýsingu að þessu tagi. Í guðanna bænum lestu stjórnarskránna okkar áður en þú ferð að tjá þig um yfirlýsingar. Annars hefur stjórnarskráin ekki verið mikils virði hjá ykkur krötum og ykkur klægjar í fingurnar að skipta henni út fyrir Lisbonsáttmálann.

Landið (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 21:44

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það er nú óvart þannig ef að samskipti milli ríkja eiga að ganga þá verður að vera hægt að treysta á yfirlýsingar stjórnvalda. Og yfirlýsing eins og þess hlýtur að valda því að við erum bundin af henni.

Samkomulag milli Hollands og Íslands um IceSave

11.10.2008

Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans.

Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta.

Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.

Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.

Reykjavík 11. október 2008

 

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.12.2009 kl. 22:57

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Veit hinsvegar að til þess að greiða þetta þarf samþykkt Alþingis. Nú bera menn fyrir sig að óheimilt sé að skuldbinda landið án þess að vita hver upphæðin verður. En það hefur verið gert áður t.d. varðandi "Barnalánið" sem Ragnar Arnalds tók t.d. sem kom svo til greiðslu nú 20 árum seinna sem kúlulán. Það vissi engin i upphafi hve há greiðslan yrði og margir sem spáðu því að við yrðum gjaldþrota þegar það kæmi til borgunar. En það reyndist lítið mál.

Sé ekki hvernig að ríkð getur samið um eitt né neitt ef ekkert er að marka undirskriftir þeirra eða yfirlýsingar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri svona túlkanir. Ert þú þá að segja að öll lönd sem lýstu því yfir að innistæður væru tryggðar séu bara gaspra út í loftið? 

Síðan er það spurning hvort þú heldur virkilega að öll önnur lönd í Evrópu séu bara svona vitlaus að þau skilji ekki hvað er átt við með EES tilskipuninni um innistæðutryggingar og jafnræði fjárfesta óháð búsetu að þau skilji þetta öll vitlaust. Og eins er spurning hvað fólk heldur að taki við ef við neitum að greiða þetta. Við erum kannski að tala um upphæðir sem svara til um 16 þúsund á alla íbúa Breta og Hollendinga sem við vorum búin að lýsa yfir að við mundum borga. Og skrifa undir samkomulag um það. Þessar þjóðir síðan búnar að greiða þessar upphæðir út og síðan ætlum við að neyta að borga. Þetta gæti þýtt að þessar þjóðir þyrftu að hækka skatta. Heldu þú að þær geri ekkert til að innheimta þetta? Heldur þú að þær beit ekk ítrustu aðferðum við það að ná í þessa peninga? Finnst fólk svo einfallt að halda að allir miði við okkar skilning og okkar aðstæður. Það er hver þjóð að hugsa um sinn hag. Og við gætum þurft að súpa seiðið af því.

Plús að ég held að Bretar og Hollendingar mundu ekki sætta sig við að eftir árs vinnu kæmum við eina ferðina enn og vildum semja! Þeir fengju sennilega fullan stuðning EES og ESB að kenna okkur að virða samninga. Það mundum við gera ef einhver kæmi svona fram við okkur.

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.12.2009 kl. 23:12

6 Smámynd: Halldóra Hjaltadóttir

Samkomulag er ekki samningur og engin er lagaleg skuldbinding þjóðarinnar að standa skil á því samkomulagi, sem þróast hefur út í það að vera handónýtt og illa unnið plagg að hálfu ríkisstjórnarinnar.

Eini samningurinn sem hefur verið undirritaður og lögfestur að háflu stjórnvalda var sá samningur sem Alþingi afgreiddi í sumar.

mbk HH

Halldóra Hjaltadóttir, 10.12.2009 kl. 23:15

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Æi ekki bera svona á borð fyrir mig. Ef þjóðir skirfa undir samkomulag þá er það bindandi samningur. Annars væru engir samninga gerðir. Síðan ber ríkisstjórn skuldbindingar undir sitt þing til að fá það samþykkt ef það er ekki samþykkt þá fellur væntanlega stjórnin. Og í kjölfarið kemur önnur stjórn og reynir nýjan samning sem gengur sennilega ekki og hvað þá. Í október í fyrra sáum við einn möguleikan. Þá vantaði nokkra daga að ríkið lenti greiðslufalli.

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.12.2009 kl. 23:49

8 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég skal ábyrgjast það að ef að Steingrímur hefði séð einhverja leið til að komast hjá því að borga Icesave jú eða Jóhanna þá hefðu þau nýtt þá möguleika. Fólk hlýtur að gera sér grein fyrir því að þetta mál hefur veirð í vinnslu nú í 14 mánuði. Þetta er farið að grafa undan möguleikum okkar að vinna okkur aftur traust meðal annarra þjóða. Við erum að verða alræmd sem þjóð sem gat ekki haft eftirlit með stærstu bönkunum sínum. Gaf heimild til bankana að opna útibú í útlöndum og bjóða háavexti og fylgdist svo ekkert með stöðu þeirra. Við erum að verða fræg fyrir það að nú 2 ríkisstjórnir hafa í samþykkt að bera ábyrgð á innistæðutryggingum á þessu reikningum, samþykkja að Bretar og Hollendingar lánuðu okkur fyrir þessum upphæðum og borguðu þær út. Nú svo þegar átti að semja um greiðslur þá gefum við undir fótinn að borga 6,7% vexti og til 10 ára. Þetta átti að vera lán sem ríkið átti að taka. Síðan förum við í samningaviðræður og semjum um 5,55% vexti og lánatíma upp á 15 ár með 1 greiðslu eftir 7 ár. Og eins að þetta lán færi í gegnum innistæðutryggingarsjóð okkar. Og að eignir Landsbankans mundu ganga upp í höfðstólinn um leið og þær innheimtast. Og nú þegar eru þar á annað hundrað milljarðar sem eru tiltækir upp í þetta.  En svo þegar við erum búin að skirfa undir komum við með algjörlega ný atriði sem skilyrði fyrir ríkisábyrgð sem eru ekki samþykkti af gagnaðilum óbreyttir heldur vilja þeir að þetta sé viðbót við samninginn og samþykkja ekki að við einhliða getum bara hætt að borga ef að lánið greiðist ekki up á umsömdum tíma vegna skilyrðia okkar. Svo þegar sá samningur kemur fyrir þing fara allir að tala um að það liggi ekkert á þessu. Hvernig halda menn að Alþingi mundi láta ef að það ætti að loka hér fjárlögum með óvissu um hvort að kannski 100 milljaðrar sem einhver skuldaði okkur mundi borgast eða ekki. Og kannski ekki að fullu. Þetta eru peningar sem Bretar og Hollendingar eru þegar búnir að greiða skv. samningum sem ríkistjórn gerði vð þá. Þetta er því þegar greitt fyrir okkar hönd og þar með skuld okkar. En við hengjum okkur í gölluð ákvæði í EES tilskipun. Á meðan við kvörtum um að Bretar láni sínum innistæðutrygginarsjóð með 1,5% vöxtum. Finnst fólk það ekki einkennilegt ef að innistæðutryggingarsjóðir eiga að vera sjálfstæðir og einkareknir en Bretar og sjálfsagt fleiri sjá þeim fyrir fjármagni. Þetta er nákvæmlega sama og við erum að gera þ.e. við erum ábyrgjast lán fyrir innistæðutrygginarsjóðin okkar.

Magnús Helgi Björgvinsson, 11.12.2009 kl. 00:22

9 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

P.s fékk þetta lánað frá Gauta B Eggertsyni hagfræðing hjá Seðlabanka New Yorke:

„Stundum heyri ég því fleygt að Íslendingar beri ekki ábyrgð á innlánstryggingum vegna icesavereikninganna, því að slík ábyrgð eigi ekki við þegar um 'kerfishrun' er að ræða. Innlánatryggingin íslenska, sem var auglýst bak og fyrir, hafi ekki 'verið hönnuð' fyrir kerfishrun og þetta takmarki okkar ábyrgð. Stjórnvöld þurftu bara að koma á innistæðurtryggum sem að virkuðu undir ´venjulegum kringustæðum´. Þannig eigi að túlka tilskipun ESB sem Íslendingar framfylgdu með lagasetningu á Alþingi árið 1999.

Væntanlega er hugmyndin sú, að ef að einn banki fer á hausinn, þá beri stjórnvöld ábyrgð, en ef margir bankar fari á hausinn, þá sé ábyrgðin engin. Þá séu komnar upp óvæntar aðstæður. Þegar  'allir bankar fari á hausinn' er ekkert að marka trygginguna og íslensk stjórnvöld bera því enga ábyrgð í dag, enda varð auðvitað kerfishrun á Íslandi. Það breytti öllu saman.

Ég hef áður lýst því í þessu bloggi mínu að mér finnst afar veik rök liggja að baki þessara röksemdarfærslu vegna eðli innistæðutrygginga (sjá ýmsar fyrri færslur um icesave).

En á þessu er einnig annar flötur, dulítil hugaræfing, sem ég var að velta fyrir mér í dag, og hef ekki spjallað um áður, og langaði að velta vöngum yfir hérna (athugasemdir velkomnar hér að neðan í færslukerfinu, en þetta eru nú bara vangaveltur).

Mér sýnist þessi hugaræfing vera síðasti naglinn í líkistu röksemdafærslunnar um kerfishrun, amk kosti að því er ég best séð (eflaust hafa margir aðrir bent á þetta áður, og ef svo er, væri gaman að fá ábendingar um það í athugasemdum).

Tökum þessa röksemdafærslu sem gefinni: Kerfishrun getur valdið því að ábyrgð íslenskra stjórnvalda sé minni. Setjum okkur nú í stöðu alþjóðlegra dómstóls sem ættu að skera úr um að hversu miklu marki ábyrgð íslenskra stjórnvalda sé minni í tilfelli icesave í dag vegna sérstakra íslenskra aðstæðna, það er, kerfishrunsins sem að væntanlega reið Trygginarsjóði að fullu.

Það fyrsta sem menn myndu velta upp er væntanlega þessi einfalda hugaræfing: Setjum sem svo að það hafi ekki orðið kerfishrun á Íslandi heldur aðeins eftirfarandi: Landsbankinn fór á hausinn. Kaupþing og Glitnir væru enn í fullu fjöri, og því bersýnilega ekkert kerfishrun.

Hefði þetta einhverju breytt? Kemur kerfishrunið málinu yfirleitt eitthvað við? Mér sýnist ekki, því að útlendar innistæður Glitnis og Kaupþings voru tryggðar erlendis og því hafði hrun þeirra lítið að segja fyrir Tryggingarsjóð. Tryggingasjóður Innistæðueigenda á Íslandi hefði samt sem áður farið lóðbeint á hausinn, því að hann átti nánast enga sjóði til þess að standa undir risavöxnum innlánum hundruðum þúsunda grandalausra breskra og hollenskra ríkisborgara vegna icesave.

Tryggingarsjóður virðist í raun ekki hafa getað staðið við nánast neins konar þroti banka af stærðargráðu Glitnis, Kaupþings, eða Landsbanka. Hann hefði kannski getað ráðið við Sparisjóð Norður-Múlasýslu? Ef það hefði ekki verið kerfishrun, hefði það aðeins breytt því að í staðinn fyrir að Tryggingasjóður Innistæðueigenda ætti örfáa milljarða uppí icesave, hefði sjóðurinn í staðinn átt örfá milljarða plús örfáa milljarða viðbót, það er, eftir sem áður örfáa milljarða uppí um tröllvaxna 700 milljarða kröfu.

Með öðrum orðum: Mér sýnist að vandinn vegna icesave hafi aldrei verið kerfihrun á Íslandi. Vandinn var að íslensk stórnvöld, Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið, létu Landsbankann (sem virðist í raun hafa verið orðinn tæknilega gjaldþrota) safna hundruðum milljarða innlána árin 2007 og 2008 frá grandalausum almenningi í Bretlandi og Hollandi í krafti auglýsingar um íslenska 'innlánstryggingu' með gæðastimpli frá ESB (auglýst -- nóta bene -- bak og fyrir í margverðlaunaðri auglýsingaherferð og predikuð af talsmönnum ríkisstjórnar Íslands í bresku útvarpi, blöðum og sjónvarpi). Þessar tryggingar virðist enginn hafa ætlað að borga ef illa færi, enda engar sérstakar ráðstafanir gerðar til slíks. Þessu fé sem safnaðist var svo eytt í að halda spilaborginni uppi örlítið lengur, og í mjög áhættusamar fjárfestingar, í þeirri von að þetta myndi 'bara reddast'.

En vandinn var alltaf þessi: Það voru litlar eignir til að bakka þetta upp hjá Landsbankanum, og því er ákaflega erfitt að borga kröfuhöfum neitt til baka. Það var skylda stjórnvalda að hafa eftirlit með að einhverjar eignir lægju að baki ævintýrinu, amk nægar til að tryggja þær lágmarks skuldbindingar sem ríkið hafði kvittað undir þegar það tók tilskipum ESB í gildi, ef allt færi á versta veg. Þetta var ekki gert.

Nú er komið að skuldardögum. Því miður hygg ég að rök um kerfishrun hafi aldrei komið okkur neitt áfram í viðræðum við erlendar þjóðir af þeirri einföldu ástæðu sem að ofan er getið og kerfishrun hefði líklega ekki haft heldur neitt að segja fyrir alþjóðlegum dómstólum af sömu ástæður (og ýmsum öðrum!). 

Í stuttu máli er meginn gallin á 'kerfishrun röksemdinni' sá að þótt aðrir bankar hefðu ekki farið á hausinn hefði icesavereikningurinn eftir sem áður verið fjallhár og Tryggingarsjóður eftir sem áður pínu pínu lítill, og eignir Landbankans til að standa undir skuldbindingum sínum alltof litlar ..  (Innskot: Eignirnar voru of litlar jafnvel fyrir lágmarksskuldbindingar bankans. Það gleymist stundum í umræðunni að þegar talað er um að 90 prósent fáist uppí icesave, eru þetta allt forgangskröfur, sem ég hygg sé einungis sáralítill hluti heildarskulda bankans. Með öðrum orðum, þótt 90 prósent fáist uppí þessar forgangskröfur eru þúsundir milljarða sem eftir standa óbættir, enda um að ræða eitt af stærstu gjaldþrotum heimssögunnar, hvorki meira né minna!).

PS. Mér sýnist raunar vandinn ekki aðeins hafa verið nánast tómur Tryggingarsjóður. Ekki síst var vandinn sú löggjöf sem á bak við hann er. Trygginarsjóðurinn hefði átt að hafa forgangskröfu á eignir Landsbankans líkt og Federal Deposit Insurance Corporation(FDIC) gerir hér í Bandaríkjunum að því er mér best skilst. Það voru afdrifarík mistök að þetta var ekki gert þegar lögin voru samþykkt árið 1999, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnar þess tíma. Næstu mistök voru þegar neyðarlögin voru sett 2008 og enn og aftur var ekki gengið úr skugga um að Tryggingarsjóður hefði forgangskröfu á þrotabúið, né heldur að rekstrarkostnaður hans vegna bankahruns, svo sem vaxtakostnaður, væri krafa á þrotabúið. Ef lögin hefðu verið smíðuð með þessu móti í upphafi, má leiða líkum af því að skaðinn af icesave hefði verið lítill sem enginn (amk ef eignir Landsbankans eru einhvers virði yfirleitt!). Eins og ég hef þó fjallað um áður, kann það að hafa verið orðið full seint um rassin gripið í Neyðarlögunum setja slíkar breytingar inn, en þó hefði e.t.v. mátt láta reyna á það. "

Magnús Helgi Björgvinsson, 11.12.2009 kl. 00:40

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Rakst á eftirfarandi hjá Jóhanni Haukssyn blaðamanni:

Við Ögmund, sem ég ber virðingu fyrir, vil ég segja eftirfarandi:A)    Tryggingarsjóðurinn er ríkisstofnun, byggður á lögum frá Alþingi og undir stjórn efnahags- og viðskiptaraðherra. Þótt bankarnir eigi fulltrúa í stjórn hans eru þeir einnig skipaðir af ráðherranum.B)  Samkvæmt lögum skal Tryggingasjóður innstæðueigenda fjármagnaður með lántökum , eins og nú er reynt að gera. Peningaleysi sjóðsins leysir hann ekki undan ábyrgð frekar en aðra peningalausa.C.)  Opinberir aðilar hafa við ýmis tækifæri marglýst því yfir að ríkið ábyrgist sjóðinn. Þótt ekkert annað kæmi til en einmitt þetta nægir það til ábyrgðar.Vangaveltur um það hvort kerfið sé vont eða óréttlátt skipta því miður ekki máli í þessu samhengi. Hinar döpru óumflýjanlegu staðreyndir eru þessar:Landbankinn tók 1.000 milljarða að láni hjá hollenskum og breskum sparifjáreigendum. Honum var það kleift aðeins vegna þess að hann naut til þess fulltingis íslenska ríkisins. Þetta var dæmigerður íslenskur pilsfaldakapitalismi eins og Ögmundur þekkir hann. Nú er því miður komið að skuldadögum. Greinargerð Ögmundar með atkvæði hans gegn Icesave  á þingi í vikunni er órökrétt, óskynsamleg og óskiljanleg og eykur hættuna á glundroða.

Magnús Helgi Björgvinsson, 11.12.2009 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband