Forráðamenn Sólheima í Grímsnesi eru komnir út á afar hálan ís þegar þeir fullyrða við heimilisfólk Sólheima að heimilið verði lagt niður vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga (sjá hér). Hótuninni til áréttingar hafa þeir kallað til áfallateymi til þess að aðstoða skjólstæðingana til þess að komast yfir þessar fréttir, sem þó eru engar fréttir heldur ýkjur og ofmæli sem þyrlað hefur verið upp til þess að skapa þrýsting á stjórnvöld.
Þetta er ótrúleg framkoma við fólk við skjólstæðinga.
Það er ekkert sem réttlætir það að skapa annað eins óöryggi og ótta hjá heimilismönnum Sólheima. Vistfólk á Sólheimum á það síst skilið að vera notað með þessum hætti í deilu forsvarsmanna heimilisins við stjórnvöld.
Málið snýst um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir sama fjármagni til heimilisins og verið hefur undanfarin ár. Sú alvarlega staða sem forsvarsmenn Sólheima tala um í fréttum er stormur í vatnsglasi og sé hún jafn alvarleg og þeir vilja meina, þá er lágmark að málið sé rætt á vitrænum forsendum hjá þeim sem hafa raunverulega um framtíð heimilisins að segja. En að beita fyrir sig varnarlausu fólki og misnota tilfinningalíf þess með þeim hætti sem hér er gert, það er ekki boðleg aðferð.
Því miður hefur það stundum tíðkast í íslenskri samfélagsumræðu að hóta fólki atvinnumissi og húsnæðisleysi til þess að kalla fram niðurstöðu. Það er ljótur leikur ég tala nú ekki um þegar um er að ræða samfélagshóp á borð við fatlaða vistmenn Sólheima.
Sólheimar í Grímsnesi voru stofnaðir með göfugt markmið á sínum tíma. Það væri óskandi að menn einbeittu sér nú að hinum háleitari markmiðum starfseminnar.