Í dag er Ísland láglaunaland í samanburði við nágrannalöndin. Tímakaup á Íslandi er svipað og í Slóveníu. Héðan streyma læknar stríðum straumum með þeim afleiðingum að það ríkir neyðarástand á lyflækningasviði Landsspítalans. Í Noregi er staðan allt önnur. Þar eru laun svo há að ódýra vinnuaflið kemur meðal annars frá Svíþjóð (og Íslandi). Velmegun Noregs byggir að miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda. En við Íslendingar búum líka yfir miklum náttúruauðlindum. Raun búum við líklega yfir verðmætari náttúruauðlindum per íbúa en Norðmenn. Hvað er eiginlega að á Íslandi?
Einn stór munur á Íslandi og Noregi er að á Íslandi nýtur almenningur ekki góðs af nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar nema að litlu leyti. Við seljum til dæmis stærstan hluta af þeirri raforku sem við framleiðum til nokkurra álvera á tombóluverði (um 30 bandaríkjadali á Mwstund). Til samanburðar eru stjórnvöld í Bretlandi tilbúin að kaupa endurnýjanlega orku á sex til átta sinnum hærra verði. Lagning sæstrengs til Bretlands gæti skilað þjóðinni tugum milljarða í hreinan hagnað og farið langleiðina með að gera okkur ríkari en Norðmenn.
Svipaða sögu er að segja í sjávarútvegi. Þar fá eigendur útgerðarfyrirtækja nýtingarrétt yfir sjávarauðlindinni án þess að þurfa að greiða nema lítið brot af raunverulegu markaðsvirði þessara réttinda. Um er að ræða tugi milljarða sem gætu runnið til almennings í formi lægri skatta eða bættrar þjónustu. Fyrir afsláttinn sem útgerðarmenn fá af eðlilegu leiguverði af auðlindinni væri unnt að leysa vanda Landsspítalans og gott betur. Hvaða vit er í því að útgerðarmönnum sem hagnast um tugi milljarða árlega sé veittur 80% afsláttur af nýtingarrétti yfir sjávarauðlindinni á meðan 6 deildarlæknar sinna 25 stöðugildum á Landsspítalanum? (Hvaða vit er í því yfirleitt.)
Varðhundar núverandi ástands hafa teflt fram ótal falsrökum gegn því að þjóðin njóti arðsins af auðlindunum: Rafmagnsreikningur heimila mun hækka. (En einungis um brotabrot af ágóðanum af sölu orkunnar.) Hvað með störfin sem ekki skapast? (En hvað er hægt að búa til mörg störf fyrir þá tugi milljarða sem við myndum hagnast?) Fyrirtæki í sjávarútvegi munu fara á hausin. (Einstaka lítil fyrirtæki sem eru með allt niðrum sig frá því fyrir hrun.)
Við megum ekki láta minni hagsmuni verða meiri hagsmunum yfirsterkari. Og við megum ekki láta varðhunda núverandi ástands drekkja okkur í smjörklípum af þessu tagi. Ísland er láglaunaland að verulegu leyti vegna þess að við kjósum að gefa frá okkur verðmætustu náttúruauðlindir þjóðarinnar. En þetta þarf ekki að vera svona.