Það er sannarlega athyglisvert að lesa endurskoðað svar Vísindavefsins um hugsanlegan kostnað vegna Icesave. Kostnaðurinn vegna Svavarssamningana kominn niður í mest 140 milljarða, en líkast til frekar 90 milljarðar vegna Ragnars Hall ákvæðisins svokallaða. En jafnvel minna en það. Bucheit-samningurinn hefði kostað í heildina um 66 milljarða, en þar af hefðu 20 milljarðar verið greiddir úr Tryggingasjóði innistæðueigenda (sem var jú greidd út hvort eð er) og mest 46,5 milljarðar fallið á ríkið.
Það sem gleymist hins vegar alltaf í umræðunni um Icesave er hvers vegna verið var að reyna að semja? Jú, einfaldlega til að takmarka áhættu. Hver var áhættan? Hún sneri annars vegar að ríkisábyrgð strax á lágmarkstryggingu, sem hefði þýtt að íslenska ríkið hefði þurft að fjármagna greiðslu lágmarkstryggingar strax 2009 (670 milljarða í erlendum gjaldeyri) á þáverandi lánakjörum á markaði (sem voru í reynd vonlaus Ísland hefði aldrei getað annað en treyst á lán frá ríkissjóðum Hollands og Bretlands og IMF). Hins vegar sneri áhættan að mismunun á grundvelli þjóðernis og var það í raun mun hættulegra mál en ríkisábyrgðin ein og sér og það sem velflestir lagasérfræðingar voru hræddastir við.
Ef Icesave-dómurinn hefði fallið þannig að aðferðafræði íslenskra stjórnvalda við 100% innistæðutryggingu innlendra lögaðila hefði falið í sér mismunun á grunvelli þjóðernis voru tæpir 1350 milljarðar í erlendum gjaldeyri í húfi (plús vextir, vaxtavextir og veruleg gengisáhætta). Hugsanlegur heildarreikningur upp á 1700 til 2000 milljarða hefði allur fallið á ríkissjóð. Ríkissjóður hefði hugsanlega getað endurheimt vænan hluta þess engu að síður úr þrotabúi Landsbankans, en áhættan sem hér var staðið frammi fyrir var augljóslega gígantísk. Þess vegna m.a. reyndu menn fram í rauðan dauðan að semja.
Í ljósi þess hversu verulega var búið að takmarka áhættuna í kjölfar Bucheit-samningsins er athyglisvert að bera saman áhættuna sem staðið var frammi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunum:
Icesave I, II og III: Góður dómur 0 krónur (samt einhverjir milljarðar frá TIF, plús eitthvað fleira); samningar 46, 90 eða140 milljarðar, tap fyrir dómi á mismunum á grundvelli þjóðernis 1350 milljarða fjármögnun strax, vaxtagreiðslur í ofanálag, ríkið í ábyrgð fyrir öllum pakkanum, endurheimtur einhverjar, en endanlegur beinn kostnaður ríkissins líkast til á bilinu 500 1000 milljarðar. Þegar Bucheit samningurinn liggur fyrir er vegna 46,5 milljarða fyrirsjáanlegs reiknings í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að taka áhættu sem hefði getað endað með 500 -1000 milljarða reikningi á ríkið!
Enn og aftur, þessi áhætta var raunveruleg, og greinilega talin veruleg líka af þeim sem höfðu talað fyrir dómstólaleið og því að fella samninga í þjóðaratkvæðagreiðslum. Bæði núverandi Forseti Íslands og núverandi forsetaframbjóðandi Davíð Oddsson voru dagana fyrir dómsuppkvaðningu farnir að baktryggja sig fyrir slíkri niðurstöðu með því að tala fjálglega um að Ísland yrði ekkert endilega bundið af niðurstöðu dómsins ef hann yrði óhagstæður. Aldrei heyrðist slíkur málflutningur frá Bretum og Hollendingum, að þeir myndu ekki virða niðurstöðu dómsins, þó þeir hefðu ekki einu sinni beina aðkomu að honum.
Sá misskilningur virðist ríkja og hafa ríkt að tap fyrir dómi myndi í versta falli leiða til þess að hægt væri að ganga að fyrri samningum sem vísum á ný. Það var hrein tálsýn.
Enn, sem betur fer vannst málið. Á undraverðan hátt. Með nýstárlegum dómi EFTA-dómstólsins sem m.a. sótti rök fyrir sýknu út fyrir gögn málsins. Því skal ætíð fagna. Það skiptir máli að hafa fengið fyrir alþjóðlegum dómstól þá niðurstöðu að ríki hafi verulegt svigrúm til að tryggja efnahagslega lífsbjörg sína. Tímanum sem fór í samningaviðræður var líka vel varið, því tíminn vann með Íslandi. Samúð og skilningur jókst og það gaf m.a. líka upphaflega norska dómara EFTA-dómstólsins svigrúm til að tjá sig með þeim hætti að hann varð að víkja sæti (hann vildi að Ísland bæri ábyrgð og borgaði reikninginn ef ég man rétt).
Annar kostnaður vegna tímatapsins var líkast til óumflýjanlegur Icesave var ekki eina ástæða þess að alþjóðlegur lánamarkaður hélt að sér höndum gagnvart Íslandi lengi vel væntanleg uppgjör þrotabúa skipti þar líka máli, svo og almenn endurreisn efnahagslífsins. Við sluppum svo sannarlega með skrekkinn.
En að reyna að semja var skynsamlegt og rökrétt. Samningaviðræður voru hvergi á skalanum óskiljanlegar til landráð sama hvað sumir vilja halda fram. Sérstaklega er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar í einhverjum hópum þjóðfélagsins hefur myndast nokkurs konar berufsverbot stemning gagnvart þeim sem studdu það að samningaleið yrði farin og niðurstaða þeirra samþykkt.