Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að annað hvort samþykkja eða hafna samningnum. Í DV í dag er rætt við nokkra sérfræðinga og þeir fengnir til að lýsa skoðunum sínum. Guðmundur er einn þeirra.
Ég sá að eitthvert félag, sem kallar sig Gamma, taldi að áhættan af þessum samningi væri allt að 223 milljarðar króna. Þetta er hrein lygi. Þarna er því haldið fram að verðminni króna hækki skuldina þegar hið rétta er að veikar krónur verða fleiri en skuldin stendur óhögguð í evrum eða pundum. Þessir menn gera ráð fyrir 2 prósenta veikingu krónunnar á ársfjórðungi, eða 8,24 prósenta verðbólgu, áratugum saman, segir Guðmundur og bætir við að gengisáhættan sé engin og hugsanlega okkur í vil.
Þetta er svona eins og að gefa sér það fyrir fram að landið verði gjaldþrota innan skamms. Skuldirnar eru aftur á móti háðar gengi evru og punds og það hefur áhrif á skuldina. Það eru allar líkur á því að gengi punds og evru dali hægt og bítandi eins og verið hefur raunin með flesta gjaldmiðla. Þannig eru allar líkur á því að gengisáhættan sé engin og jafnvel okkur í vil. Þetta stafar af því að verðbólga er í öllum löndum. Þannig er langlíklegast að skuldin lækki vegna þess að evra og pund veikist lítillega. Þetta er óskiljanlegt rugl og alvarlegt að menn skuli nota lygar málstað sínum til framdráttar.