Leita í fréttum mbl.is

Kannski rétt að benda Atla og fleirum á ágæt skrif Eiríks Bergmanns um þetta mál.

Eiríkur segir m.a.

Ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja:

Í fyrsta lagi er þessi Landsdómur algjör bastarður. Hann brýtur til að mynda mannréttindasáttmála Evrópuráðsins því úrskurði hans er ekki hægt áfrýja – hann er því líkast til ólöglegur hvort eð er. Og kannski verðum við gerð afturreka með þetta allt saman. 

Í öðru lagi er stjórnskipanin öll komin á flot þegar þingmenn fá allt í einu ákæruvald yfir öðrum stjórnmálamönnum. Og réttarríkinu snúið á hvolf þegar við bætist að stjórnmálamennirnir velja sjálfir fulltrúa í dómstólinn. Þrískipting ríkisvaldsins er hér máð út og að engu gerð.

Í þriðja lagi er bullandi hætta á að ákvörðunin sé fremur byggð á lýðskrumi heldur en réttlæti. Skoðum þetta atriði rétt aðeins: Daginn langan eru þingmenn samkvæmt skilgreiningu þjakaðir af endurkjörsskjálfta og þrátt fyrir að sumir þeirra verði heilagir í framan þegar þeir hástemmdir lýsa yfir að þeir stjórnist aðeins af sannfæringu sinni þá vitum við auðvitað betur: Þingmenn leitast við að þóknast kjósendum sínum til að tryggja sjálfum sér endurkjör. Það er bókstaflega innbyggt í kerfið. Litli lýðskrumarinn blundar í þeim flestum og því er hér augljós hætta á því að ákvörðunin um að ákæra aðra stjórnmálamenn til þessa Landsdóms – jafnvel pólitíska andstæðinga – byggi ekki endilega aðeins á þeim grunni að þjóna réttlætinu. Þá er orðið stutt í pólitískar ofsóknir. 

Í fjórða lagi er svolítið erfitt að taka mark á dómstól sem dregur Árna Matthiesen (og jafnvel Björgvin G. Sigurðsson sem markvisst var haldið frá upplýsingum og ákvarðanatöku) á sakamannabekk fyrir efnahagshrun Íslands á meðan arkítektar hins hrunda efnahagskerfis, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, eru stikkfrí sökum einstaklega heppilegra fyrningareglna.

Síðan má bæta við hvort það verður þá normið eftir hverjar kosningar að fyrri ríkisstjórn sé kærð fyrir störf sín og hugsanleg mistök. Þannig að það verði þannig að fyrst séu kosnigar svo Landsdómur skipaður af meirihluta á Alþingi að mestu. Og svo koll af kolli. Og ekki held ég að þetta hvetji menn til að taka þátt í stjórnmálum ef við þeim blasir fangelsi ef að næsti meirihluta dettur það í hug.


mbl.is Telur ákæru standast mannréttindareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Það brýtur ekki gegn MSE að úrskurði sé ekki hægt að áfrýja. MDE fjallaði ítarlega um það í máli Erik Ninn-Hansen gegn Danmörku, en þar hafði Rigsretten (sambærilegur við Landsdóminn okkar) sakfellt Ninn-Hansen fyrir hið svokallaða Tamil-mál. (Mál Ninn-Hansen: http://cmiskp.echr.coe.int/tkp197/view.asp?item=2&portal=hbkm&action=html&highlight=erik+|%20ninn-hansen&sessionid=59126794&skin=hudoc-en)
2) Í máli Coëme et al gegn Belgíu reyndi m.a. á ákæruvaldið, en í Belgíu (eins og á Íslandi) ákæra þingmenn ráðherra vegna embætisverka þeirra. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi þennan þátt í góðu lagi (þótt vissulega hafi hann skammað belgíska ríkið fyrir aðra hluti). Þessi ákærumeðferð þekkist líka víða annars staðar, t.d. í bandaríkjunum, þar sem þingið getur ákært forsetann. Þrískipting ríkisvaldsins er sem sé hvergi fullkomin. (Mál Coëme: http://cmiskp.echr.coe.int/tkp197/view.asp?item=1&portal=hbkm&action=html&sessionid=59126794&skin=hudoc-en)
3) Ef skoðun meirihluta almennings og stjórnmálamanna fer saman, er það þá sjálfkrafa flokkað sem "lýðsskrum"? Auk þess sýnist mér sem þessi hætta, að stjórnmálamenn með kalli saman Landsdóm til að ná sér niðri á andstæðingum sínum, afskaplega lítil. Nægir að nefna að Landsdómur hefur aldrei í yfir 100 ára sögu sinni verið kallaður saman.
4) Það má vel vera að DO og HÁ séu arkitektar hrunsins - en þeir sem nefndir eru í grein Eiríks hafa mjög líklega brugðist embættisskyldum sínum á ögurstundu. Það væri í raun fáránlegt að láta þá sleppa bara af því að það eru til "miklu verri menn" en þeir. Það væri svona eins og að segja að það sé ekkert mark takandi á héraðsdómi eða Hæstarétti, því þeir dómstólar dæma fyrir kynferðisbrot sem framin eru árið 2008 en dæma ekki fyrir kynferðisbrot framin fyrir 10, 20 árum því þau brot eru fyrnd.
 

Lesandi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 15:16

2 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sæll "Lesandi". Ég ætlaði að skoða Ninn-Hansen málið en hlekkur þinn leiddi mig ekki þangað. Ég fann úrskurðinn hins vegar hér: http://cmiskp.echr.coe.int/tkp197/view.asp?item=9&portal=hbkm&action=html&highlight=tamil&sessionid=59126794&skin=hudoc-en

MDE vísaði málinu frá þar sem málagrundvöllurinn var bersýnilega ekki talinn geta falið í sér brot á MSE. Ég sé þó ekki að reynt hafi á það atriði að dómurinn hafi ekki verið áfrýjanlegur. Sá ekki áð lögmenn Ninn-Hansens hafi byggt á slíku né að rétturinn hafi fjallað um það. því er dómurinn varla fordæmi um hvort skortur á áfrýjanleika refsiákvörðunar sé mannréttindabrot það nema mér hafi yfirsést eitthvað við þessa skoðun.

Oddgeir Einarsson, 13.9.2010 kl. 16:38

3 identicon

Mér finnast skrif Eiríks um Landsdóm síður en svo merkileg.

Lesandi bendir á að máli Ninn-Hansens var vísað frá. Að mig minnir var talið að hér væri um stjórnarskrá í lýðræðisríki og því ekki galli að ekki væri hægt að vísa málinu til æðra dómstóls.

Í öðru lagi þá er eðlilegt að þegar réttað er yfir einum handhafa ríkisvaldsins sé það gert af hinum handhöfunum, í þessu tilviki alþingi og hæstarétti. Þetta er ævaforn aðferð, Karl fyrsti Englandskóngur var afhausaður með þessari aðferð og forsetar í Bandaríkjunum hafa verið settir af með þessari aðferð. Þetta leiðir af því að enginn einn handhafi ríkisvaldsins er settur yfir annan.

Í þriðja lagi er engin sérstök hætta á að 15 manna Landsdómur verði fyrir meiri áhrifum að lýðskrumi en t.d. Hæstiréttur. Röksemdafærsla Eiríkis er hins vegar gaga, þingmenn sitja ekki í dómnum heldur fólk úti í bæ sem kosið er af þinginu, auk löglærðra manna.

Í fjórða lagi er það engin ástæða fyrir því að ákæra ekki mann að einhver annar hafi notið fyrningar. Ef þetta væri ástæða ákæruleysis væri ekki t.d. hægt að sækja nokkurn mann til saka fyrir t.d. skattsvik.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband