Leita í fréttum mbl.is

Held að sumir skilji ekki alveg EES samninginn!

Svona til að byrja með erum við ekki í ESB og því er furðulegt að skrifa forseta ESB þetta bréf. Siðan er efni bréfsins svona kafli út af fyrir sig.

Hvað vilja þau að forseti ESB geri? Við erum ekki í ESB

Hvað eiga þau við að Landsbankanum hafi borið að vera með Icesave undir bresku og hollensku innistæðutrygginarkerfi. Það vita allir að það þurfti hann ekki skv. EES þar sem um útibú var að ræða. Þá má nefna að Kaupþing Edge var dótturfélag og því giltu innistæðutrygginarkerfi Breta og Hollendinga þar. Bretar og Hollendingar reyndu nú tölvert að fá Landsbankan til að gera slíkt hið sama en fengu ekki næga aðstoð frá Íslenskum stjórnvöldum til þess.

Hvaða réttlæti sér þetta fólk að Íslenskur banki sem starfar undir lögum og eftirliti okkar, fari með leyfi eftirlitsstofnana okkar til annaralanda með sín útibú og taki við innistæðum. Flaggi góðum orðum FME og fleiri stofnana hér sem og vilyrðum fyrir því að innistæðutryggingarkerfi okkar yrði stutt af stjórnvöldum til að standa við skuldbindingar sínar ef til þess kæmi.

Hvað á fólk við með að innistæðutryggingar hafi orðið að taka á sig fall 90% af bönkum landsins? Það hefur óvart ekkert lent á Innistæðutryggingarsjóð nema Icesave.

Fólk virðist líka gleyma því að innistæðutrygginarkefi Breta og Hollendinga hafa greitt fólki vegna Icesave eftir sínum lögum varðandi lágmarkstryggianr þeirra landa. Sem er langt yfir það sem við erum rukkuð um. Það er verið að rukka okkur um þá upphæðir sem okkar lög kveða á um að við eigum að tryggja.

Síðan er ágætt að benda þessu fólki að skuldir og innstæður allra banka á Íslandi hafa kostað Íslenska ríkð. Það er ekki eins og þessar innistæður séu þær einu sem lenda á okkur. T.d. kostuðu innistæður gamla Landsbankans um 300 milljarða sem nýji Landsbankinn verður að greiða þeim gamla.


mbl.is Sendu bréf til forseta ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Hvað vilja þau að forseti ESB geri? Við erum ekki í ESB

Bretar og Hollendingar eru í ESB, það er málið.

Fólk virðist líka gleyma því að innistæðutrygginarkefi Breta og Hollendinga hafa greitt fólki vegna Icesave eftir sínum lögum varðandi lágmarkstryggianr þeirra landa. Sem er langt yfir það sem við erum rukkuð um.

Ef litið er til eigna gamla landsbankans þá erum við að borga það sem bretar og hollendingar eru að bæta umfram lágmarkstryggingu, þú gleymir víst að með Icesave þá fáum við 51% af sölu eigna og bretar og hollendingar 49% af sölu eigna.

Hvaða réttlæti sér þetta fólk að Íslenskur banki sem starfar undir lögum og eftirliti okkar, fari með leyfi eftirlitsstofnana okkar til annaralanda með sín útibú og taki við innistæðum. Flaggi góðum orðum FME og fleiri stofnana hér sem og vilyrðum fyrir því að innistæðutryggingarkerfi okkar yrði stutt af stjórnvöldum til að standa við skuldbindingar sínar ef til þess kæmi.

Þetta er það sem ég myndi kalla auglýsinga svik, ekki af ríkinu heldur af þeim sem upp settu Icesave, þetta kemur ríkinu og almenningi ekki við.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 21.3.2011 kl. 10:04

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

LÍ hefði aldrei geta gert þetta nema með samþykki og blessun ríkisins og viðkomandi stofnanna þess.  Halló.  Vakna.

Ríkið íslenska bakkaði þetta upp og studdi fram á síðustu sekúndu.

Síðan td. ef opinber afstaða á að vera af Íslands hálfu núna eftirá, að ríkinu hafi aldrei komið þetta við o.s.frv. líkt og sumir eru að babúa um eins og kjánar - að þá þýðir það einfaldlega að Ísland sé að segja:  Hah!  Þarna plötuðum við ykkur B&H almenningur og náðum að stela af ykkur!  Og gott á ykkur!!  O.s.frv. það er = Vörusvik.  Að íslenska ríkið hafi stundað blekkingar og vörusvik.  Og eigi batnar nú hagur Eyjólfs við það.

Held það sé nefnilega kominn tími á að partur af íslendingum fullorðnist eða þroskist öllu heldur.  Held það. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2011 kl. 10:20

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Það kemur svo mikil vanþekking fram í athugasemdum Magnúsar Helga, að ég set þær hérna in sem heild og set athugasemdir mínar með rauðu letri inn á milli, þar sem þær eiga við.

-------------- 

Svona til að byrja með erum við ekki í ESB og því er furðulegt að skrifa forseta ESB þetta bréf. Nei það er ekki furðulegt því EES samningurinn er á milli EFTA og ESB og ESB er framkvæmdaaðili samnigsins. Auk þess eru deiluaðilar okkar innan ESB.

Siðan er efni bréfsins svona kafli út af fyrir sig. Hvað vilja þau að forseti ESB geri? Við erum ekki í ESB Nei við erum í EFTA og þeir sem við deilum við eru í ESB. Við eigum að gera kröfu til ESB að þeir láti ekki viðgangast að bretar og hollendingar brjóti, á tvöfaldan máta, grundvallarreglur EES samningsisn um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði.

  Hvað eiga þau við að Landsbankanum hafi borið að vera með Icesave undir bresku og hollensku innistæðutrygginarkerfi. Það vita allir að það þurfti hann ekki skv. EES þar sem um útibú var að ræða. Frá jafnréttislegu sjónarmiði, um rekstrarstöðu á markaði, skiptir engu hvort bankastofnun Landsbankans í London var útibú eða sjálfstæð stofnun. Útbúið þurfti að fara eftir öllum sömu reglum og aðrir bankar á sama markaði.

 Þá má nefna að Kaupþing Edge var dótturfélag og því giltu innistæðutrygginarkerfi Breta og Hollendinga þar. Þar átti Landsbankinn líka að vera með sínar tryggingar á innlánum í Bretlandi og Hollandi, því enginn aðstöðumunur var í daglegum rekstrarþáttum þessara fyrirtækja. Munurinn fólst fyrist og fremst í því að bretar og heollendingar gátu skattlagt hagnað hjá Kaupþing Edge, en Landsbankinn gerði upp sem sjálfstæð deild fyrirtækis á Íslandi. Hagnaður af rekstri deildarinnar fluttist því til aðalstöðvanna og skattlagðist þar, en ekki í hinum löndunum. 

 Bretar og Hollendingar reyndu nú tölvert að fá Landsbankan til að gera slíkt hið sama en fengu ekki næga aðstoð frá Íslenskum stjórnvöldum til þess. Þeir þurftu enga aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum. Allar reglur sem fara átti eftir við rekstur banka á Bretlandi og Hollandi voru reglur hvers lands fyrir sig. Með framkvæmd þeirra reglna hafði íslensk ríkissjórn ekkert að gera. Og þar sem Landsbankinn var sjálfstætt hlutafélag, ekki í ríkiseign, hafði ríkisstjórnin enga lögformlega aðkomu að ferlinu, nema diplomatíska tilmælaleið, ef hins erlendu ríki hefðu óskað slíkrar aðstoðar.

  Hvaða réttlæti sér þetta fólk að Íslenskur banki sem starfar undir lögum og eftirliti okkar, fari með leyfi eftirlitsstofnana okkar til annaralanda með sín útibú og taki við innistæðum. Þegar banki á EES svæðinu opnar útibú eða sjálfstæða bankastofnun í öðru landi, fer öll starfsemi útibúsins fram eftir reglum þess lands sem starfsemin frer fram í. Meginregla EES, um jafna stöðu aðila í sama rekstri á sama markaðssvæði, gerir það að verkum að óheimilt er að fyrirtæki starfi eftir öðrum reglum en reglum viðkomandi lands.

 Flaggi góðum orðum FME og fleiri stofnana hér sem og vilyrðum fyrir því að innistæðutryggingarkerfi okkar yrði stutt af stjórnvöldum til að standa við skuldbindingar sínar ef til þess kæmi. Í óðagotinu sem varð við hrunið og fyrst eftir það, var margt sagt sem ekki stenst vengjubundin samskipti eða lög og reglur. Því er best að vera ekki að elta ólar við allt það rugl sem þá var í umferð.

  Hvað á fólk við með að innistæðutryggingar hafi orðið að taka á sig fall 90% af bönkum landsins? Stóru bankarnir þrír voru taldir 90% fjármálastofnana í landinu. Þegar bankarnir hrundu, myndaðist krafa innlánseigenda á tryggingasjóð innistæðueigenda hér, vegna innlána í þessu landi. Alþingi og ríkisstjórn tóku ákvörðun um að leggja fram fjármagn til að tryggja allar innistæður á Íslandi. Þess vegna reyndi ekki á sjóðinn, sem hafði litla peninga.

 Það hefur óvart ekkert lent á Innistæðutryggingarsjóð nema Icesave. Fólk virðist líka gleyma því að innistæðutrygginarkefi Breta og Hollendinga hafa greitt fólki vegna Icesave eftir sínum lögum varðandi lágmarkstryggianr þeirra landa. Eftir því sem ég best veit voru það ríkissjóðir breta og hollendinga sem greiddu út Icesave, langt umfram þær fjárhæðir sem var viðmiðunarupphæð ESB reglna. 

Sem er langt yfir það sem við erum rukkuð um. Það er verið að rukka okkur um þá upphæðir sem okkar lög kveða á um að við eigum að tryggja. Þetta er ekki rétt. Það er ekkert í okkar lögum, ESB eða EES reglum sem kveða á um að ríkssjóður viðkomandi lands skuli greiða af skattfé almennings vegna hruns á sjálfstæðri bankastofnun. Þess vegna eru kröfur breta og hollendinga með öllu ólögvarðar, vegna þess að engin lög styðja kröfur þeirra.

Síðan er ágætt að benda þessu fólki að skuldir og innstæður allra banka á Íslandi hafa kostað Íslenska ríkð. Það er ekki eins og þessar innistæður séu þær einu sem lenda á okkur. T.d. kostuðu innistæður gamla Landsbankans um 300 milljarða sem nýji Landsbankinn verður að greiða þeim gamla. Þú þarft greinilega að kynna þér málin af meiri nákvæmni Magnús minn. það var ríkissjóður sem gaf út skuldabréf vegna innistæðna í gamla Landsbankanum.

Guðbjörn Jónsson, 21.3.2011 kl. 11:57

4 identicon

Steikt að heyra þig tala. Þú þjáist augljóslega af Stockholms syndrome á háu stigi. Það þarf greinilega að fara að búa til hugtakið "Sjálfshatandi Íslendingurinn". Ekki það að ég telji viðeigandi að líkja svona plebba við heimsins greindustu þjóð.

Jarl (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 12:17

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er allt löngu rætt og komið fram.

Skuld íslands snýr að lágmarki er ríki skuldbundu sig að viðkomandi aðilar fengu ef á reyndi.

það hefur þegar fallið dómur þessu viðvíkjandi.  Gerðadómur.  Og Áminngarbréf ESA staðfestir það að íslan skuldar þennan aur og á að borga.

Kynna sér mál.  Síðan tala framsóknargemlingar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2011 kl. 12:18

6 identicon

Og best að útskíra það fyrir treggáfuðum viðmælendum mínum, að ég vísa þá til gyðinga, ekki þjóðar plebbans, sem þó er að meðaltali góðu gáfnafari gædd, og plebbinn langt, langt langt undir meðalafurð hennar hvað það varðar.

Jarl (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 12:19

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Skilja ekki EES samninginn" ???

Fyrir þá sem kunna einfaldega að lesa stendur þetta afskaplega skýrt í tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar:

Úr inngangskafla: "Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán..."

Úr 3. gr.: "kerfið má ekki felast í tryggingu sem aðildarríkin sjálf eða héraðs- og sveitarstjórnir veita lánastofnun"

Getur verið að síðuhöfundur glími við lesblindu?

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2011 kl. 13:40

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nú nú.  Byrjar þetta nú aftur og enn.  Ok. skulum fara yfir þetta og ef einstaklingar eiga í vanda með skilning þá skýrir esa þetta út fyrir fólk vandlega. 

,,sem ábyrgjast innlán"

... sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun."

"kerfið má ekki felast í tryggingu sem aðildarríkin sjálf eða héraðs- og sveitarstjórnir veita lánastofnun"

Nei, enda er tryggingasjóður eða kerfið sem komið er upp ekki lánastofnun.

Geisp.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2011 kl. 15:12

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ómar Bjarki, þú setur fram tvo punkta ef ég skil rétt. Annars vegar virðist þú telja að Ísland hafi ekki uppfyllt skilyrði tilskipunarinnar. Hins vegar virðistu hengja þig á það tækniatriði að þar sem samningurinn sé við TIF en ekki Landsbankann sjálfan þá sé ekki um að ræða lánastofnun. Ég skal reyna að leiðrétta þennan misskilning, þó ég hafi reyndar reynt það oft án árangurs má aldrei gefa upp vonina um að hægt sé að ná framförum.

1) Enginn véfengir að innstæðutryggingasjóðnum hafi verið skylt að tryggja allt að 20.888 EUR. Með ráðstöfun eignasafns gamla Landsbankans er það auðveldlega hægt og skilyrðin væru því uppfyllt fullkomlega. Þær tafir sem orðið hafa á þessu uppgjöri stafa hinsvegar öðru fremur af hindrunum og þvingunaraðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda, en ekki viljaskorti Íslendinga til að leysa málið skynsamlega (sbr. staðfest. "Brüsselviðmið").

Það eina sem vísað hefur verið til svart á hvítu um að íslenska innstæðutryggingakerfið hafi ekki uppfyllt skilyrði er illa rökstutt álit ESA þar að lútandi sem á meira skylt við pólitík en lögfræði. Í því kemur fram að það eina sem brotið hafi í bága við skilyrðin sé að ekki skuli hafa verið til 20.888 EUR í tryggingasjóðnum daginn sem bankinn féll, en eins og áður sagði hefði þrotabúið getað staðið undir því og gott betur ef óvinveittar aðgerðir breskra yfirvalda hefðu ekki hindrað eðlilegt uppgjörsferli.

Í raun og veru var íslenska innstæðutryggingakerfið uppbyggt á nákvæmlega sama hátt og hliðstæð kerfi í Evrópu. Þess vegna spyrjum við einmitt herra Van Rompuy í bréfinu hvort eitthvað land á evrópska efnahagssvæðinu hafi komið sér upp innstæðutryggingakerfi sem geti staðið undir því ef 90% af viðkomandi bankakerfi myndi hrynja? Við vitum svarið en gaman væri að fá það staðfest.

2) Eins og áður sagði myndi ráðstöfun eignasafns Landsbankans duga til að uppfylla öll skilyrði samkvæmt bæði tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar sem og túlkun ESA á henni. Það er hinsvegar ekki þannig sem IceSave-III samningurinn hljóðar, heldur snýst hann um það sem kann að vanta að vanta upp á fulla endurheimtu allra innstæðna eftir að skilanefnd Landsbankans hefur úthlutað upp í skýlausa forgangskröfu TIF. En sá mismunur er bara alls ekkert krafa á TIF eftir að hann hefur uppfyllt skyldu sína heldur á þrotabú Landsbankans sem er sko bara víst lánastofnun (reyndar gjaldþrota en það er sama). Með því að skrifa undir ábyrgð á þessum mismun væri íslenska ríkið að ábyrgjast skuldbindingu lánastofnunar í formi kröfu á hendur henni. Eins og fram kemur í textanum sem við Ómar Bjarki vitnum báðir í, þá er þetta klárlega óheimilt. Þessi regla er í fullu samræmi við þau grundvallarsjónarmið EES samningsins um frjálsa samkepnni, sem vísað er til umræddu bréfi.

Að samþykkja IceSave-III samningana myndi þannig fela í sér skýlaust brot á EES samningnum, en þeir sem vilja fara dómstólaleiðina skulu samt endilega kjósa JÁ þann 9. apríl.

Hinir sem vilja fara eftir EES samningnum kjósi NEI. Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2011 kl. 16:13

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,hengja þig á það tækniatriði"

Haa? Eg er að segj þér hvað stendur þarna!  Halló.  þarna stendur að ríki verði ábyrg ef lágmarkið er ekki greitt!  Eigi flókið.

,,Í því kemur fram að það eina sem brotið hafi í bága við skilyrðin sé að ekki skuli hafa verið til 20.888 EUR í tryggingasjóðnum daginn sem bankinn féll"

Nei.  Í því kemur fram að að einstaklingar eigi lagalegan rétt á lágmarksbótum og Ísland skuli sjá til að þær bætur skuli greiddar.  Auk þess sem bent er á að Ísland hafi mölbrotið Jafnræðisregluna og fótum troðið hana. 

en eins og áður sagði hefði þrotabúið getað staðið undir því og gott betur ef óvinveittar aðgerðir breskra yfirvalda hefðu ekki hindrað eðlilegt uppgjörsferli."

Ísland á að þakka Brown&Darling alveg kærlega fyrir vasklega framgöngu í þágu íslensku þjóðarinnar, því með Frystingarlögum  (ekki hryðjuverkarlögum.  það er mýta og vitleysa) þá stoppuðu þeir sjalla af sem voru í óða önn að tæma allt sem hægt var að tæma og koma því undan.  Vasklega framganga Darligs&Brown verður til þess að sennilega fellur lítið sem ekkert af þessari skuld á landið.  Og á að veita þeim félögum Fálkaorðuna fyrir framgönguna og öll íslenska þjóðin á síðan að faðma þá að sér og þakka persónulega fyrir sig.

,,Í raun og veru var íslenska innstæðutryggingakerfið uppbyggt á nákvæmlega sama hátt og hliðstæð kerfi í Evrópu."

Augljóslega ekki samkvæmt ykkar útleggingu. þið eruð að segja að kerfið hafi átt að vera þannig,  að bætur hafi aðeins átt að greiðast með því sem fannst í umræddum sjóði -  sem þýddi þá að það væri í raun engin trygging.  þannig virkar það ekki útí henni evrópu.  þar er litið svo á að bætur verði alltaf greiðast og ef eignir dugi ekki komi til lántaka o.s.frv.  Þessvegna heitir þetta líka tryggingarkerfi.  Scheme.  þetta er alveg eins fjármagnað eftirá.   Ríkjum er í sjálfsvald sett hvernig þau framkvæma þetta. 

,,Eins og áður sagði myndi ráðstöfun eignasafns Landsbankans duga til að uppfylla öll skilyrði samkvæmt bæði tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar sem og túlkun ESA á henni."

Eh augljóslega ekki!.  Eða hafa B&H almenningur fengið umrædda neytendavernd uppfyllta af hálfu íslands??  Er ísland búið að greiða bætur núna tæpum þrem  (3) árum eftir atburðinn?  Ha??  Ísland hefur ekki greitt eitt einast andskotas pund drengur!

,,Með því að skrifa undir ábyrgð á þessum mismun væri íslenska ríkið að ábyrgjast skuldbindingu lánastofnunar í formi kröfu á hendur henni."

Halló einhver heima? þetta er skuldbinding tryggingarsóðs!  Skuldbinding sem ríki á EES hafa undirgengist um að einstaklingar hafi lagalegan rétt á lágmarksbótum ef á reynir og skuli koma upp einu eða fleiri kerfum sem standa undir þeim skuldbindingum - og greiði bætur!

Það er alveg ótrúlegt að eftir þessa umræðu alla, þá hafið þið ekkert lært.  Ekki neitt.  þið lesið ekki einu sinni áminningarbréf ESA.  Og ef þið lesið það, þá skiljið þið ekki baun.   Og eruð nú að reyna að gera ísland að fífli með einhverju hálfvitabréfi.  Dragið þetta bréf strax til baka og biðjist afsökunnar!  Strax!!

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2011 kl. 16:55

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Kidda fólk sem hefur engan áhuga á að vinna með meirihlutanum á ekkert að vera að fela það heldur bara hypja sig. Ef að þau eru ekki sátt við það sem stendur í stórnarsáttmála þá áttu þau aldrei að samþykkja það. Hafði reynar meiri trú á Atla. En held að hann sé hvort eð er að hætta.  Lilja aftur hefur skoðanir sem mér líka ekki. Hún talar máli sérlundaðar hagfræðinga og sérfræðinga sem hafa sett hitt og þetta fram en það hefur hvergi verið reynt. Hún nefir oft Argentínu sem dæmi sem þar er bara ekki allt í lagi. Þú getur ýmyndað þér hvernig framsókn gengi ef að það væru alltaf nokkri þingmenn sem væru reglulega að tala gegn Sigmundi Davíð og væru að að reyna að breyta flokknum í t.d. últra hægriflokk. Og væru svo alltaf reið ef að meirihluti flokksmanna vildu ekki hlusta á þau. Held að framsókn væri þá í mikill krísu og gæti ekki unnið sig áfram.

Magnús Helgi Björgvinsson, 21.3.2011 kl. 17:12

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við nánari lestur sést að misskilningur síðuhöfundar stafar líklega af öðru en lesblindu. (Vona að þú fyrirgefir Maggi enda var það alls ekki meint þér til neinnar vanvirðu.) Ég skal reyna að bæta fyrir það með því að útskýra betur helstu vafaatriði sem ég sé að eru útistandandi hér.

"furðulegt að skrifa forseta ESB þetta bréf"

Það er alls ekkert furðulegt. Bretar og Hollendingar eru veigamikil ríki í ESB. Reglurnar sem gilda um innstæðutryggingar eru settar af ESB og innleiddar hér samkvæmt ákvæðum EES samningsins sem gerður var milli EFTA ríkjanna og ESB. Starfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi (innan  ESB) grundvallaðist líka á reglugerðum sem innleiddar voru á sama hátt. Herra Van Rompuy situr einmitt á toppnum á þessum strúktúr. Með því að stíla bréfið á hann (ásamt fleirum) erum við einfaldlega að "take it to the man" svo ég leyfi mér að vitna í N-Amerískt kvikmyndaslangur.

"Hvað vilja þau að forseti ESB geri?"

Við viljum einfaldlega að hann svari þeim spurningum sem tíundaðar eru í bréfinu, eða eins og segir í niðurlagi þess: "Virðingarfyllst og með ósk um góð svör". Það eina sem er furðulegt er ef þetta fer á milli mála. Ég geri ráð fyrir að menn hljóti að lesa bréfið áður en þeir taka til við að gagnrýna það.

"Hvað eiga þau við að Landsbankanum hafi borið að vera með Icesave undir bresku og hollensku innistæðutrygginarkerfi."

Það er einmitt ekki það sem við eigum við. Samkvæmt tilskipun ESB um fjármálaeftirlit bar hinsvegar breskum og hollenskum eftirlitsstofnunum að ganga úr skugga um að Landsbankinn nyti viðunandi innstæðutrygginga, áður en þau heimiluðu starfsemi hans innan landamæra sinna. Með því að leyfa opnun útibús voru viðkomandi yfirvöld sjálf í raun að veita formlega það álit að innstæðutryggingar Landsbankans stóðust einmitt kröfur sem gerðar eru innan EES.

"Bretar og Hollendingar reyndu nú tölvert að fá Landsbankan til að gera slíkt hið sama en fengu ekki næga aðstoð frá Íslenskum stjórnvöldum til þess."

Íslenskum stjórnvöldum bar engin bein skylda til þess að aðstoða við þetta, þó vissulega hefði verið kurteislegra að gera það. Hinsvegar er það ekki þetta sem IceSave samningurinn snýst um heldur um skyldu tryggingasjóðsins til útgreiðslu eftir að bankinn varð ógjaldfær. Það eru flestir sammála um að best hefði verið ef það hefði tekist að koma þessu í dótturfélög, en fyrst þarlend stjórnvöld lögðu á það svona mikla áherslu hefðu þau einfaldlega átt að setja það sem skilyrði fyir starfseminni og banna þeim þar með að opna þetta sem útibú. Breskar og hollenskar eftirlitsstofnanir höfðu ekki aðeins heimildir til þess, heldur beinlínis skyldu til að beita þeim heimildum ef þurfa þykir, eins og í þessu tilviki.

"Hvaða réttlæti sér þetta fólk að Íslenskur banki..."

Enginn heldur því fram að framferði gamla Landsbankans hafi átt nokkuð skylt við réttlæti, nema kannski fyrrverandi stjórnendur hans. Við bréfritarar höldum því hinsvegar fram að það hafi líklega verið kolólöglegt og án efa gjörsamlega siðlaust. Við teljum líka að það sé ekkert annað réttlætanlegt en að eigendur og stjórnendur þessa einkafyrirtækis axli fulla ábyrgð á gjörðum sínum og afleiðingum þeirra. Að láta óbreytta borgara og jafnvel ófædd börn gera það væri hinsvegar til að bæta gráu ofan á svart því það væri ekki bara siðlaust heldur líka kolólöglegt. Þú bætir ekki fyrir glæp með því að fremja annan glæp, tvisvar mínus getur aldrei orðið plús.

Hvað á fólk við með að innistæðutryggingar hafi orðið að taka á sig fall 90% af bönkum landsins?

Í bréfinu er því ekki haldið fram, heldur spurt hvort einhvarsstaðar í Evrópu sé að finna innstæðutryggingakerfi sem gæti staðið undir slíkri kröfu. Sömu kröfu og ESA gerir að ósekju til íslenska  innstæðutryggingakerfisins.

Það hefur óvart ekkert lent á Innistæðutryggingarsjóð nema Icesave.

Þar hittirðu naglann loksins á höfuðið. Einmitt þá fyrst væri hægt að tala um mismunun ef TIF ætti aðeins að borga erlendum innstæðueigendum þegar Íslendingar hafa ekki fengið eina einustu krónu greidda úr sjóðnum. Þar sem TIF hefur aldrei greitt neitt út (ennþá) hefur hann heldur ekki gerst sekur um mismunun (ennþá). Það er ástæðulaust að hann fari að byrja á því núna, enda kynni það að brjóta í bága við reglur um neytendavernd á evrópska efnahagssvæðinu að mismuna innstæðueigendum þannig.

Fólk virðist líka gleyma því að innistæðutrygginarkefi Breta og Hollendinga hafa greitt fólki vegna Icesave ... langt yfir það sem við erum rukkuð um.

Það er alveg rétt að þeir fengu greidda hærri upphæð pr. einstakling en sem svarar lágmarkstryggingunni. Einhliða ákvörðun um það var hinsvegar brot á áðurnefndum samkeppnisreglum EES-samningsins af hálfu breskra og hollenskra stjórnvalda sem starfa í umboði þarlendra kjósenda og skattgreiðenda. Íslenskir skattgreiðendur eiga enga aðild að því broti.

Það er verið að rukka okkur um þá upphæðir sem okkar lög kveða á um að við eigum að tryggja.

Rangt. Það er verið að rukka sjálfseignarstofnunina TIF um þær upphæðir sem okkar lög kveða á um sem og að ríkissjóði sé óheimilt að ábyrgjast.

Svo hnaut ég algjörlega um koll við síðustu málsgreinina, hún er röng á svo stórkostlega margbrotinn hátt að ég veit ekki hvar á að byrja. Það selur enginn innlán nema innlánseigandi. Frá sjónarhóli bankans eru innlán viðskiptavinanna hinsvegar skuldir. Fólk borgar ekki fyrir að yfirtaka skuldir, heldur fær borgað fyrir það, oft með einhverju öðru t.d. bíl eða húsi.

Þegar Nýi Landsbankinn var stofnaður voru tilteknar eignir keyptar úr þrotabúi gamla bankans. Þessar eignir voru útlán til fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi. Þessar eignir fékk nýi bankinn að hluta til gegn yfirtöku skulda þrotabúsins gagnvart sömu fyrirtækjum og einstaklingum, og að hluta til gegn útgáfu umrædds skuldabréfs við skilanefndina. Þannig var stofnefnahagsreikningur nýja bankans settur upp með eignir í samræmi við skuldir. Framlag ríkisins var einungis til að uppfylla reglur um lágmarks eigið fé nýja bankans, tæp 16% eða 150 ma kr. og þar af komu 122 ma. úr ríkissjóði sem svarar til 81% eignarhlutar á móti skilanefndinni. Þannig var framlag ríkisins ígildi þess að kaupa hlutabréf í nýstofnuðum banka.

Hvað IceSave-III samninginn varðar skiptir þetta skuldabréf hinsvegar fyrst og fremst máli vegna þess að um er að ræða stærstu einstöku áhættuviðskipti íslenskra aðila fyrr og síðar. Þar með er þetta afskaplega "veik" eign í þrotabúinu, auk þess að fela í sér brot á starfsleyfi þess. Það liggur nú þegar fyrir að um 47 milljarða vantar upp á að nýji bankinn muni eiga gjaldeyri fyrir afborgunum af þessu. Þennan gjaldeyri mun bankinn þurfa að kaupa á opnum markaði fyri hagnað af rekstri sínum, sem þýðir að hann rennur ekk til eigandans (ríkisins) heldur upp í IceSave kröfurnar. Enn fremur mun bankinn þurfa að kaupa þennan gjaldeyri í samkeppni við skilanefndina og aðra aðila á sama tíma og greitt verður úr þrotabúinu og skipta þarf milli gjaldmiðla. Undir þessum kringumstæðum er útilokað að krónan verði stöðugasti gjaldmiðill á yfirborði jarðar næstu árin, og fyrr verður Landsbankinn gjaldþrota aftur heldur en að skilanefndinni takist að innheimta þetta á fullu verði. Þessar ósamrýmanlegu forsendur eru tvær af þeim þremur sem neikvæðust áhrif myndu hafa á kostnað okkar vegna samnings um ríkisábyrgð. Sú þriðja er áhætta í niðurstöðu dómsmáls, en sú ástæða er fyrst og fremst fyrir hendi ef við álpumst til að samþykkja samning sem felur í sér brot á grundvallaratriðum EES-samningsins. Þeir sem myndu vilja fá samninginn dæmdan ógildan hafa nefninlega af því enn ríkari hagsmuni er t.d. þeir sem nú láta reyna á gildi neyðarlaganna.

Meira að segja þau sjónarmið sem nefnd hafa verið sem rök fyrir því að við ættum að samþykja samning um ríkisábyrgð, eru þegar öllu er á botninn hvolf, í rauninni rök fyrir að hafna honum!

P.S. Réttur ritháttur er innstæður, ekki innistæður. Ég kann því miður ekki að útskýra hvers vegna, en þannig er það stafsett í opinberum textum.

Nei þýðir nei, IceSave er glæpur!

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2011 kl. 19:02

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ómar Bjarki, ég biðst velvirðingar ef ég var að mistúlka þig eitthvað, en ég tók fram að "ef ég skil þig rétt" og svo framvegis. Sá fyrirvari gilti að sjálfsögðu um það sem á eftir kom og ég vona að þú virðir það við mig.

þarna stendur að ríki verði ábyrg ef lágmarkið er ekki greitt

Nei það er ekki það sem stendur þarna. Í tilvitnun þinni (þeirri litskrúðugu) sleppir þú ákveðnu lykilatriði framan af textanum svo hér kemur málsgreinin í heild tilvitnuð:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfiröld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Þarna er gert ráð fyrir að aðildarríkin komi á fót kerfi sem ábyrgist innstæður, en hinsvegar er alveg skýrt á orðalaginu að gert er ráð fyrir að kerfið sjálft eigi að ábyrgjast innstæðurnar og veita innstæðueigendum tryggingavernd. Tryggingakerfið er ekki ríkið, heldur samanstendur það af sjálfseignarstofnuninni TIF sem nýtur ekki ríkisábyrgðar skv. áliti Ríkisendurskoðunar frá árinu 2008, sem starfar samkvæmt löggjöf og reglugerð um starfsemi og skyldur tryggingasjóðsins.

Það er meira að segja tekið sérstaklega fram í tilvitnaðri málsgrein tilskipunarinnar að hafi yfirvöld orðið við tilskipuninni, að þá geti þau einmitt ekki orðið ábyrg gagnvart innstæðueigendum. Núverandi íslensk stjórnvöld lýstu því yfir í bréfi sínu til ESA í mars 2010 að þetta hafi einmitt verið gert með setningu áðurnefndra laga og reglugerða sem kveða á um stofnun og starfsemi tryggingasjóðsins.

Eigi flókið.

Nei. Í því kemur fram að að einstaklingar eigi lagalegan rétt á lágmarksbótum og Ísland skuli sjá til að þær bætur skuli greiddar.

Þetta er sami misskilningur og að ofan. Ríkinu ber að setja á fót tryggingakerfi, en því kerfi ber svo aftur að ábyrgjast innstæðurnar. Og aftur er rétt að taka fram að tryggingkerfið er ekki ríkið. Í tilskipuninni stendur meira að segja í 3. gr. 5. mgr. að "kerfið má ekki felast í tryggingu sem aðildarríkin sjálf eða héraðs- og sveitarstjórnir veita lánastofnun"

Svo er túlkun ESA á þessu vafasöm í besta falli, það eina sem þar er tiltalið að TIF hafi ekki náð að uppfylla var að í sjóðnum væru a.m.k. 20.888 EUR pr. reikningseiganda daginn sem greiðsluskylda myndaðist. Hinsvegar var tryggingkerfið hér byggt upp á mjög sambærilegan hátt og iðgjöld sem greidd voru í það sambærileg og annarsstaðar. Þess vegna spyrjum við t.d. herra van Rompuy í bréfinu hvort einhversstaðar í Evrópu sé til tryggingasjóður sem hefði bolmagn til að greiða út 20.888 EUR samdægurs ef 90% bankakerfisins myndi hrynja í einni svipan. Hvaða tryggingastærðfræðingur sem er getur sagt þér að því fer fjarri, en það væri hinsvegar fróðlegt að fá að vita álit Evrópuforsetans á því. Hefði hinsvegar gefist svigrúm strax til yfirtöku TIF á eignasafni Landsbankans og skipulegrar úthlutunar í samræmi ið lög og reglur hefði það mjög líklega dugað til að greiða út þessa lágmarksfjárhæð innan tilskilinna tímamarka. Fyrir því voru hinsvegar hindranir eins og ég mun víkja nánar að síðar.

Auk þess sem bent er á að Ísland hafi mölbrotið Jafnræðisregluna og fótum troðið hana.

Þetta bréf frá maí 2010 er aðeins áminning en ekki bindandi úrskúrður. Í nýlegum úrskurði í málum 7 kröfuhafa frá 4. desember 2010 komst ESA hinsvegar að þeirri niðurstöðu að setning neyðarlaganna og þær neyðarráðstafanir sem FME greip til á grundvelli þeirra lagaheimilda, hafi einmitt ekki falið í sér mismunun.

Ísland á að þakka Brown&Darling alveg kærlega fyrir vasklega framgöngu í þágu íslensku þjóðarinnar, því með Frystingarlögum ... stoppuðu þeir sjalla af sem voru í óða önn að tæma allt sem hægt var að tæma og koma því undan.

Ég veit ekki hvort þú ert að grínast. En hér gæti verið hollt að rifja upp tímalínuna í október 2008:

  • 6. október: Alþingi setur lög nr. 125/2008 (neyðarlögin)
  • 7. október: FME setur Landsbankann undir skilanefnd

Það næsta sem hefði átt að gerast undir eðlilegum kringumstæðum væri að hefja ráðstofun lausra eigna úr búinu til TIF svo hægt væri að hefjast handa við uppgjör til innstæðueigenda, enda var tilgangur neyðarlaganna að veita þeim aukinn forgang. En þá gerist þetta:

  • 8. október 10:00: Ályktun um frystingu eigna Landsbankans, Seðlabankans og íslenska ríkisins lögð fyrir breska þingið.
  • 8. október 10:10: gildistaka "Landsbanki Freezing Order 2008"

þið eruð að segja að kerfið hafi átt að vera þannig,  að bætur hafi aðeins átt að greiðast með því sem fannst í umræddum sjóði

Nei, þetta er hvergi fullyrt í bréfinu. Skora á þig að tilvitna.

þannig virkar það ekki útí henni evrópu.

Nei, og þannig hefði það heldur ekki átt að virka hér, heldur hefði TIF átt að fá strax forgang að eignum Landsbankans til að standa að baki innstæðunum eins og honum bar skylda til. Hinsvegar birtust ófyrirséð ljón í veginum fyrir eðlilegu ferli, eins og ég hef nú þegar lýst.

"þar er litið svo á að bætur verði alltaf greiðast og ef eignir dugi ekki komi til lántaka o.s.frv."

Já, í þessu liggur versti hönnunargallinn í þessum fínu og flottu tilskipunum frá Brüssel. Að þær gera ekki ráð fyrir þeim möguleika að í krísuástandi geti einmitt komið upp sú staða að svo hratt gangi á sjóðinn að hann tæmist og enginn vilji lána honum. Það var einmitt það sem gerðist hér haustið 2008 þegar fjármálakerfi heimsin var við það að bresta. Að hanna kerfi sem er ætlað að bregðast við krísuástandi, en er svo ekki sjálft gert til að þola krísuástandið, er auðvitað bara kjánaleg rökvilla. En höfundar evróputilskipana virðast reyndar hafa þessa rökvillu sameiginlega með fleirum, til dæmis japönskum kjarnorkuverkfræðingum en förum ekki nánar út í það hér...Punkturinn er að haustið 2008 var lánsfé einfaldlega ekki á boðstólum fyrir tryggingasjóð gjaldþrota bankakerfis. Bretar og Hollendingar hafa ekki einu sinni viljað lána TIF beint nema það sé með ríkisábyrgð. Þessi ofuráhersla á að setja ríkisábyrgð á óvissa fjárhæð getur ekki annað en vakið grunsemdir um að eitthvað ósagt liggi að baki.

Ríkjum er í sjálfsvald sett hvernig þau framkvæma þetta. 

Ekki ríkjum, heldur tryggingasjóðum (mundu að kerfið er ekki ríkið) og ekki hvernig þau framkvæma þetta heldur hvernig þau fjármagna þetta geri ég ráð fyrir að þú eigir við. Aftur biðst ég velvirðingar ef ég er eitthvað að misskilja eða rangtúlka, það er alls ekki meiningin.

Eða hafa B&H almenningur fengið umrædda neytendavernd uppfyllta af hálfu íslands??  Er ísland búið að greiða bætur núna tæpum þrem  (3) árum eftir atburðinn?  Ha??  Ísland hefur ekki greitt eitt einast andskotas pund drengur!

Ég veit það, drengur! Ha?? Ha?? Vertu samt bara rólegur. Eins og ég var búinn að benda á þá gripu Bretar inn í eðlilegt ferli og hindruðu þannig "björgunarstarfið" ef svo má segja. Alveg sama hvort íslensk stjórnvöld hefðu gert rétt eða rangt við björgunina skiptir ekki máli, því með þessu voru hendur þeirra einfaldlega bundnar á hvorn veginn sem er, þangað til frystingunni var aflétt þann 15. júní 2009. Hinsvegar skiptir neytendavernd ekki máli í því sambandi, því neytendurnir hafa fyrir löngu síðan fengið innstæður sínar greiddar að fullu. Það sem eftir stendur er bara uppgjörsmál milli innstæðutryggingakerfanna í þessum þremur löndum.

Halló einhver heima? þetta er skuldbinding tryggingarsóðs!

Og trygginasjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar. Hann má það ekki.

Skuldbinding sem ríki á EES hafa undirgengist um að einstaklingar hafi lagalegan rétt á lágmarksbótum ef á reynir og skuli koma upp einu eða fleiri kerfum sem standa undir þeim skuldbindingum - og greiði bætur!

Ríkið á að koma upp kerfinu. Sem það gerði.

Sjóðurinn á að innheimta iðgjöld og greiða bætur. Sem hann gerði ekki.

Vondur sjóður!

Þið lesið ekki einu sinni áminningarbréf ESA. Og ef þið lesið það, þá skiljið þið ekki baun.

Heyrðu kallinn, lestu þetta hérna fyrst, skoðaðu svo hver skrifar undir og líttu loks á 3. tl. í skrá yfir tilvísanir og heimildir aftast í skjalinu. Segðu mér svo aftur hvort þú ætlar að halda því til streitu að enginn okkar hafi lesið áminningarbréfið eða kynnt sér innihald þess.

Allnokkrir þeirra sem skrifa undir bréfið til herra van Rompuy hafa ráðfært sig við ýmsa fræðimenn hér á Íslandi, meðal annars sérfræðinga á sviði Evrópuréttar. Margir sem til eiga að þekkja eru þeirrar skoðunar að ESA sé að verja veikan málstað. Auðvitað kunna einhverjir að vera ósammála en það segir ekki endilega til um hvort sjónarmiðið sé hið rétta. Staðreyndin um hina svokölluðu "dómstólaleið" ef samningnum verði synjað er nefninlega sú að EFTA dómstóllin getur aðeins úrskurðað hvort samningsbrot hafi átt sér stað en í því felst hinsvegar engin aðfararhæf bótaskylda. Endanlegur úrskurður um skaðabætur yrði alltaf hjá íslenskum dómstólum, hugsanlega með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA dómstóls, en þó samkvæmt íslenskum lögum sem er lykilatriði. Að íslenskum lögum skulu skaðabætur greiddar í íslenskum krónum en ekki gjaldeyri, krafan væri vaxtalaus fram að dómsuppkvaðningu og á skaðabótavöxtum frá og með þeim degi sem eru í dag svipaðir og viðmiðunarvextirnir í IceSave-III samningnum. Augljóslega er þetta langtum minni áhætta, og það er líka heilmikils virði að fá úr þessu skorið með löglegum hætti. Vegna fordæmisgildis fyrir framtíðina.

Og eruð nú að reyna að gera ísland að fífli með einhverju hálfvitabréfi.

Alls ekki, í bréfinu er sparlega farið með fullyrðingar og meginatriði bréfsins eru spurningar sem lagðar eru fram og óskað eftir svörum við þeim. Við teljum þetta brýnar spurningar sem löggjafinn í þessu tilviki (þjóðin) eigi rétt á að fá svarað áður en endanleg afstaða er tekin til málsins. Það er akkúrat ekkert hálfvitalegt við það, einu spurningar sem eru heimskulegar eru þær sem maður ekki spyr. Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Auk þess erum við að gegna hagsmunagæslu sem við vonumst til að nýtist að minnsta kosti eftirfarandi hagsmunahópum:

  • Almennir skattgreiðendur á Íslandi
  • Ókomnar kynslóðir skattgreiðenda á Íslandi
  • Skattgreiðendur annara landa sem hafa mátt eða munu þurfa að þola að vera rukkaðir fyrir klúður fjárglæframanna og svikara

Fordæmisgildi afgreiðslu IceSave málsins er víðtækt í alþjóðlegu samhengi. Íslenskur almenningur hefur núna ákveðin sérréttindi í höndunum, því fáum þjóðum sem hafa mátt kenna á afleiðingum fjármálaóstöðugleikans undanfarin misseri hefur gefist tækifæri til að hafa eitthvað að segja um það í einhverjum mæli hversu mikil raunveruleg verðmæti almenningur er neyddur til að láta af hendi fyrir eitthvað klúður í fjármálakerfi sem byggir að mestu á tálsýn um ímyndaðan veruleika. Þetta svokallaða fjármálakerfi er líklega búið að vera hvort sem er, og við eigum að losa okkur út úr því frekar en að kasta meiru ofan í þann fúla pytt.

Dragið þetta bréf strax til baka og biðjist afsökunnar!  Strax!!

Dragið þennan samning til baka og biðjist afsökunar! Strax!

Guðmundur Ásgeirsson, 22.3.2011 kl. 02:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Magnús Helgi Björgvinsson
Magnús Helgi Björgvinsson

Skoðanir Magga um menn og málefni í fréttunum. maggihb@gmail.com Athuga að þetta eru mínar skoðanir og þið megið bara hafa ykkar hentisemi, því ég er að nota mína.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Twitter

Teljari

joomla visitor

Twitter

Tenging við twitter

Um bloggið

Vettvangur Magga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband